Færsluflokkur: Bloggar

Skuldavandi Evrópulanda og þess vegna heimsins alls.

Sá sem skuldar of mikið og getur ekki greitt skuldir sínar verður að undirgangast ákveðna skoðun og rannsókn, helst óháðs aðila.  Hvers vegna:
  • Skuldarinn verður að horfast í augu við vanda sinn og vera tilbúinn að leita sér hjálpar,
  • Það þarf að staðfesta hverjar skuldirnar og ábyrgðir eru í raun og veru. Allt þarf að vera uppi á borði. Skuldari hefur ákveðna tilhneygingu til að vanmeta skuldir sínar,
  • Það þarf að meta það hlutlaust hvað skuldarinn getur borgað strax og hvað hann getur borgað af tekjum sínum á lengri tíma. Eignir hans verður að tíunda samviskusamlega, hvað hægt er að selja strax og svo framvegis.
Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, sést hvað þarf að afskrifa af skuldum, eða með öðrum orðum hvað mikið af skuldum er tapað.
Í sinni einföldustu mynd er þetta ekki flókið fyrir einstaklinga og minni fyrirtæki. Málið vandast verulega ef um stórt fyrirtæki er að ræða að ekki sé talað um þjóðríki.
Þegar rætt er um skuldavanda Grikklands og nú Ítalíu og fyrrgreindar vinnureglur lagðar til grundvallar, sést að allt er í skötulíki.  Í Grikklandi eru einhverjir björgunar „ pakkar „ búnir til og blekið er varla þornað þegar gera þarf meira eða ekki er hægt að standa við gerða samninga.
Ekkert skal dregið úr stærð vandans eða flækjustiginu. Það er hinsvegar ljóst að öll vinnubrögð mótast af fljótræði og stjórnleysi, sem rekið er áfram af kröftum sem má sópa undir einn hatt og kalla „ markaðsöflin „
Aðgerðir standa ekki á nokkrum grunni, alger glundroði og stjórnleysi virðist ríkja. Stjórnmál og fjármál blandast saman í einhverja kös og kösin stækkar með hverju nýju landi, sem bætist við.
Ef eitthvað má læra af okkar erfiðleikum, þá þurfa öll lönd í vanda að setja, sín neyðarlög.  Málið þarf að byrja hjá þjóðríkinu, og greiningu þarf að gera eins og hér að ofan. Í stað þess að ESB sendi þeim einhverja aðgerðapakka. Pakka sem segja má að hangi í lausu lofti.
Tökum eina grundvallar spurningu, eru skuldir Ítala óviðráðanlega ? Því þarf að svara, en mögulega er vandinn sá að stjórnmál á Ítalíu eru óviðráðanleg.

Hvað er skylt með fönsku byltingunni og stöðu heimsins í dag.

Lærdómur frönsku byltingarinnar var sá að kóngurinn og aðallinn með dyggri  aðstoð kirkjunnar tók og mikið af verðmætum samfélagsins. Alþýðan svalt. Þess vegna var þessu liði bylt.  Fræg var setningin drottningarinnar, þegar henni var sagt að alþýðan sylti, hvers vegna borðar þetta fólk þá ekki kökur !
Valdakerfi þessa tíma var innbyggt og innmúrað. Kóngurinn lét aðalinn hafa svæði til að stjórna og arðræna. Í staðinn lögðu þeir til her, svo kóngurinn gæti strítt við aðrar þjóðir og stækkað kökuna fyrir sig og þá. Kirkjan tók þátt í leiknum, hennar hlutverk var að halda alþýðunni góðri, lífið á jörðinni gat verið djöfullegt en þá beið himnaríki með öllum sínum dásemdum. Kirkjan fékk að vera í friði og ráða sínum málum án afskipta.
Enn svo var ballið búið, menn gengu of langt og urðu höfðinu styttri. Einfölduð mynd af flókinni stöðu, en vonandi samt sannleiksvottur í henni.
Enn hvað um nútímann. Kóngar nútímans eru alþjóðafyrirtækin. 147 fyrirtæki ráða heiminum, af þeim ráða 50 fyrirtæki mestu. Þjóðhöfðingjar allra landa þekkja völd þeirra og áhrif. Það má auðveldlega líta á Kína sem fyrirtæki, stjórnað af kommonistaflokknum. Kína er í dag valdamesta fyrirtækið. Stjórnmálamenn hafa tekið við fyrra hlutverki kirkjunnar,  að friða lýðinn, deyfilyf dagsins er ekki himnaríki, heldur glansmynd lýðræðisins.  Það á sem sé að líta þannig út að lýðurinn ráði. Það þarf vart að segja það, það eru auðvitað fyrirtækin sem ráða.
Fyrirtækin ( 147 ) og eigendur þeirra sitja á peningunum og láta stjórnmálin fá eitthvað af þeim í staðinn fyrir afskiptaleysi og forréttindi.  Misskiptin hins peningalega auðs, er alger, þróun sem fengið hefur að grassera undir hatti kapi­talismans.   Þeim ríka hefur leyfst að verða sífellt ríkari, því þannig gætu einhverjir molar fallið af borði ríka mannsins til okkar, við getum keypt okkur kökur.
Vandi dagsins í dag er misskipting auðs og gæða, rétt eins og fyrir frönsku byltinguna.
  • Vestrið hefur tekið of mikið af gæðum, nú vill austrið líka fá sitt. Hætt er við að þeir muni ekki spyrja, heldur taka,
  • Fjármagnseigendur með bankana sína hafa tekið of mikið ( 40% ). Þeir þurfa svona mikið m.a. vegna vitleysunnar sem þeir sköpuðu sjálfir með taumleysi sínu. Reyna með kjafti og klóma að koma þessum vanda yfir á þjóðríkin - almenning.
Öll þessi misskipting og græðgi, gerir það að of margir „ svelta „  Samkvæmt sögunni, þá missa einhverjir „ höfuðið", það þarf að gefa upp á nýtt. 
Landslagið í dag er að sjálfsögðu ekki eins og um 1700, þó samlýkingin geti að einhverju leiti passað. Kóngar nútímans eru nefnilega ekki mjög sýnilegir og bera ekki kórónu. Þeir hafa vit  á því að fela sig, hafa jafnvel her manns í vinnu við að fela auð sinn. Ýmis merki eru hinsvegar um það að þeir hafa áhyggjur af stöðu sinni, og sumir þeirra hafa gripið til aðgerða. ( Bill Gates )
Hver á og getur skakkað leikinn. Þó það hljómi eins og klisía, þá gilda sömu lögmál   nú  og í frönsku byltingunni, valdið er hjá fólkinu.  Fólkið í arabaheiminum er að reka af sér spillta stjórnmálmenn,  nýjar hreyfingar og hugsun er að verða til.  Fyrir þá sem fylgjast með þjóðfélagsmálum eru spennandi tímar framundan.

Átökin um formennsku í Sjálfstæðisflokknum - ný vinnubrögð.

Undirbúningur Landsfundar hefur staðið í margar vikur. Það starf hefur m.a. farið fram í málefnanefndum flokksins, framtíðarnefndinni, efnahagstillögum þingflokks Sjálfstæðisflokksins og almennum fundahöldum. Allt hefðbindið ferli. Þessa dagana hafa flokksfélög og fulltrúaráð, verið að klára að kjósa fulltrúa í Landsfund. Varðandi kosningu til embætta í flokknum, hefur hefðin verið sú, að framboðsfrestur rennur út á Landsfundinum sjálfum. Aðilar tilkynna þar um framboð sitt til embætta og reka þar sín framboð og kynningu.
Nú bregður svo við að einn frambjóðandi til formanns, leggst í ferðalög um landið til að hitta Landsfundarfulltrúa.  Sannarlega óvenjuleg vinnubrögð sem ganga gegn hefðbundnum venjum flokksins.
Það óvenjulega við þetta framtak er:

  • Frambjóðendur sitja ekki við sama borð, framboðsfresti er ekki lokið, og fleiri frambjóðendur t.d. til formennsku gætu komið fram,
  • Hlutverk Landsfundar er m.a. kosninga forystu flokksins, og Landsfundarfulltrúar eru til þess kjörnir. Með því að kynningarstarf frambjóðenda, eða annarra hagsmunafla,  er fært út af Landsfundi er hefðum flokksstarfsins riðlað.

Kappleikur í íþróttum er leikinn samkvæmt ákveðnum reglum, annars fer allt í vitleysu. Dómari einn eða tveir eru settir til að sjá til þess að reglum sé fylgt.  Það má hinsvegar segja að vandræði okkar sem þjóðar er að við teljum okkur ekki þurfa að fylgja reglum, við setjum okkar eigin reglur. Gerum það sem við viljum af því að það hentar okkur best í það og það skiptið. Hugarfar sem ég hélt að flestir vildu breyta.


Framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formanns Sjálfstæðisflokksins.

Framboð hennar er nú staðreynd, eftir miklar pælingar stuðningsmanna hennar. Þetta framboð er þaulhugsað, þrátt fyrir að annað sé látið í veðri vaka. Margir, þar á meðal ég, hafa talið að Sjálfstæðisflokkurunn þyrfti síst á því að halda að fara nú í formannsslag. Slag sem engu mun skila nema tárum og því að málefnavinna Landsfundar verður í öðru sæti.
Hanna Birna er einstaklega frambærilegur stjórnmálamaður. Hún hefur risið  til metorða innan flokksins, stjórnað borginni af skörungsskap, og lagt nýja línu í pólitísku starfi. Hún og hennar stuðningsmenn máttu vita að hennar tími kæmi. Að hann sé komin er í meiralagi óvíst, og allir sem vinna í stjórnmálum vita að „ rétti tíminn" er allt.
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins og mun vera það áfram. Hann er ungur og mjög frambærilegur maður, sem hefur sífellt verið að vaxa í sínu starfi. Formennska í Sjálfstæðisflokknum, flokki með hrunið á bakinu, stórtap á alþingiskosningum, og marga af forystumönnum flokksins laskaða, var ekki glæsilegt bú að taka við. Staða flokksins hefur hinsvegar stöðugt verið að styrkjast og hann að móta sér stöðu í stjórnanarandstöðu, vinna sem þarf fumlaust að halda áfram.
Átök um forystu flokksins nú er rökleysa. Enginn málefnalegur ágreiningur er milli aðila, í besta falli er þetta spurning um einhverja aðra ímynd, eða persónu. Minnir að þessu leiti á prestskosningar. Rök um eitthvað val á milli aðila eru léttvæg og í reynd óskiljanleg, því í hinu orðinu er sagt að stjórnmál snúist um markmið og stefnu.
Það er hrein ekki útilokað að Hanna Birna fái talsvert fylgi á Landsfundinum, til þess hefur hún verðleika og marga vini.  Naumur sigur Bjarna mun hinsvegar þýða veikari stöðu hans sem formanns, hvað sem sagt verður á sigurstundu. Hanna Birna átti að sækjast eftir varaformennsku í flokknum.  Til þess hefði hún fengið breiðan stuðning, og tíma, en hún og vinir hennar hafa valið aðferðina, allt eða ekkert.

Góður banki og vondur.

Það er sannarleg ekki að spyrja að orðsnilld landans. Góður banki hvaða fyrirbrigði er nú það.  Sama er um vondan banka, bankastjórinn fúll og leiður, lánar ekkert, rekur þig burtu.  Leiðir hugann að því að, fyrir hrun áttu bankarnir okkar auðvitað að vera vondir banka, minni lán hefðu getað bjargað mörgum.
Nei vondir bankar eru þeir sem hafa vond útlán, bæði fólk og fyrirtæki. Minnir mig reyndar á orð virðulegs bankastjóra, sem sagði að aldrei ætti að lána fátæku fólki.
Þessi teoría um góðu og vondu bankana byggir á því að allt sé gott í góða bankanum. Hann sé ekki að burðast með vonda kúnna, hann hafi aðeins þá góðu. Allir séu sem sé í góðum gír, ef góðu kúnnarnir vilji fá meiri peninga, þá sé það gert með bros á vör. Hver á svo sem að vantreysta góðum kúnna?
Vondi bankinn og vondu kúnnarnir fá svo að sjálfsögðu makleg málagjöld. Þeir eru hvort sem er með 110% lán og í vanskilum, að sjálfsögðu verði reynt að ná af þeim, eins og mögulegt er og svo skila þeir lyklinum.
Auðvitað er þetta mjög hranaleg lýsing og óvönduð,  öll vildum við vera í góða bankanum. Leiðir hugann að því að það er mikill vandi að hjálpa fólki.  Umræða er þannig að þetta snúist allt um tölur á blaði.
Það má aldrei brjóta niður sjálfsvirðingu eða sjálfstraust þess sem hjálpað er. Vandræði þín geta verið af margvíslegum toga og átt sér eðlilegar skýringar, þú þarft ekki að vera óreiðumaður, þó þú sért í vanda. Hjálpin þarf að lyfta undir ekki brjóta niður.  Bankamaðurinn þarf að vera meðvitaður um að maður í vanda í dag, er góður kúnni seinna og á þá allan rétt á að eiga viðskipti við góðan banka.

Snilldarlegt hrun, snilldarleg endurreisn.

Umræðan um hrunið 2008 hefur verið mjög fyrirferðarmikil, undanfarna mánuði og ár. Ein umferð enn fór fram í síðust viku, þegar hingað komu miklir spámenn til að ræða þetta efni og hagstjórn eftir hrun. Þar höfum við komist í þá stöðu að aðrir geta af okkur lært.  Auðvitað passar það vel við okkar almennu snilli. Fyrst fórum við á snilldarlega á hausinn, og nú er endurreisnin gerð af snilld.
Það hlýtur að vera öllu hugsandi fólki umhugsunarefni hvort ekki er nóg komið af þessari umræðu. Ástæðan er þessi:
  • Fátt nýtt kemur fram í þessu tali,
  • Umræðan um hrunið er í eðli sínu neikvæð,
  • Þó að umræðan eigi að vera upplýsandi, aldrei aftur svona tími, virðist lærdómurinn ekki ljós, og týnist í orðagjálfri og skrúðmælgi.
Fyrir okkur sem lifðum þessa tíma, vorum þátttakendur á okkar hátt, vantar eitthvað mikið inn í þessa mynd, sem ekki kemur fram.
Elísabet Englandsdrottning, spurði nefnilega sína menn, hvað gerðist í raun og veru, og hvernig gat þetta gerst.  Heiðarleg svar við þessari spurningu fól í sér raunverulega möguleika á að bæta úr, þannig að eitthvað þessu líkt gæti ekki gerst aftur.
Þess í stað hefur umræðan nú bitið í skottið á sér, í þeim skilningi að nú er í alvöru verið að ræða nýja fjármálakreppu. Höfum við þá ekkert lært, eða er kreppan frá 2008 ekki búin, eins og haldið er fram. Sú spilling sem opinberaðist okkur tengd þessum tíma, var áfall í sjálfu sér, enn minnir einnig stöðugt á sig, og spurninguna hvort hún hafi verið upprætt.
Kemur einhverjum á óvart að þessi umræða skapi, óróleika, öfga og vantrú á stjórnvöldum og ráðmönnum almennt.  Allt það sem fólk hafði lagt trúnað sinn og traust á „ kerfið „ sem brást getur ekki verið sátt.
Hvað sem um þetta má segja verðum við að horfa fram á veg og trúa á okkur og framtíðina. Lykilfólk í okkar samfélagi, ekki ein manneskja, heldur hópur verður að taka sig saman og leiða þessa „ nýbylgju „.  Þetta fólk er reyndar byrjað að koma fram enn hefur ekki ennþá náð í gegn.

Þeir sem vilja völd og áhrif fara í pólitík?

Á s.l. áratug átti þessu fullyrðing alls ekki við. Það var atvinnulífið sem heillaði þá sem vildu völd og áhrif.  Þeir sem réðu ferðinni á þessum árum höfðu ekki mikið álit á stjórnmálamönnum „ verið þið ekki að flækjast fyrir okkur" var  boðskapur peningamanna. Þetta viðhorf sagði sína sögu um hver stjórnaði hverjum.
Ungt fólk á þessum tíma vildi fara í business, viðskiptadeildir háskólanna voru fullar af áhugasömu fólki, sem vildi græða alvöru peninga. Verkfræðingar voru eftirsóttir í þessum heimi, kunnu að reikna.
Í dag eru stjórnmál í tísku og allir vilja ráða. Já beint lýðræði þýðir auðvitað að fjöldinn ræður. Þegar heiðarleiki og siðferði bera á góma, dettur mér í hug staðan í austur evrópu og sérstaklega á Balkanskaganum. Þar fara menn raunverulega í pólitík til að græða peninga.  Allt kostar og stjórnmálamenn á þessum svæðum eru að vinna fyrir sig, en að sjálfsögðu undir göfugum merkjum fjöldans. Við hér heima erum sunnudagsskóladrengir miðað við þá háu herra.
Hvað um þetta vald og starf stjórnmálamannsins. Það hefur einnig breyst mikið með flóknara samfélagi. Valdið hefur einnig breyst, bæði í stjórnmálum og stórum fyrirtækjum.  Þetta vald er í dag óbeynt. Hver sem vill breyta einhverju verður að vinna með öðrum. Stjórnmál í dag eru ekki spurning um valdboð, heldur samvinnu, fá aðra til að vinna með þér.  Í mörgum skilningi má líkja þessu við að labba með lóð á löppunum. Allar breytingar taka tíma og það er örugglega alveg eins gott.
Hafa menn  svo dæmi sé tekið, séð einhverjar grundvallarbreytingar eftir að vinstri stjórn tók hér við. Svari hver fyrir sig, en einhver gæti haldið því fram að þetta sé, sami grautur í sömu skál.
Það er sannarlega í gangi ákveðið tregðulögmál í stjórnmálum og þjóðfélagsbreytingum. Skyldi það vera svo að einmitt þessi staðreynd, kalli á öfgafull viðhorf, að öfgahópar fái byr, eina ráðið sé að bylta kerfinu, hitt tekur of langan tíma?


Nýja varðskiptið Þór, til hamingju íslendingar.

Það var sannarleg hátíðleg stund, þegar nýja fjölnota varðskipið okkar Þór, lagðist að bryggju í Reykjavík s.l. fimmtudag.
Það voru svo sem ekki fjölmenni á bryggjunni til að taka á móti skipinu, enda venjulegur vinnudagur í borginni.  Móttakan var þó hátíðleg með ræðuhöldum og fínheitum.
Skipið var svo til sýnis laugardag og sunnudag og stöðugur straumur fólks að skoða. Fólk lét ekki langa biðröð aftra sér, en allt gekk þetta þó ótrúlega fljótt fyrir sig. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar tók ákaflega vinsamlega á móti gestum og leyst úr öllum spurningum af lipurð og fagmennsku.
Skipið er allt eins og mubla. Maður skildi  betur orðið fjölnota varðskip, þegar um borð er komið og gat rínt  í lýsinguna sem afhent var við landganginn:
  • Skipið er sérbúið björgunar og dráttarskip,
  • Olíuhreinsunarbúnaður,
  • Slökkvibúnaður,
  • Fjölgeislabúnaður, vegna dýptarmálinga og leitar neðansjávar,
  • Skipið getur flutt 9 gámaeiningar,
  • Sérstyrkt fyrir siglingar í ís,
  • Eldsneytisþjónusta fyrir þyrlur.
Það vekur sérstaka athygli við fyrstu sýn að afturhluti skipsins er lágur.  Þetta skýrist af björgunar og dráttarhlutverki skipsins, sem hefur að þessu leiti, lögun dráttar - og þjónustuskipa.
Það læddist að manni sú hugsun, hvað öll þessi herlegheit kostuðu. Þá rifjaðist það upp, að sá sem spyr um verð, hefur líklega ekki efni á því sem um er spurt. Þessa vegna bægði ég strax frá mér þessari hugsun.
Nýjasti Þór er einstaklega glæsilegt skip og við sem þjóð getum verið stolt af þessu skipi. Ástæða er til að óska Landhelgisgælsunni til hamingju með skipið og þeim sem á því starfa allrar blessunar.

Með ásum og mönnum.

Ég var, mér til mikillar ánægju, að lesa með ungri vinkonu minni um norræna goðafræði,  þar sem koma fyrir m.a. Óðinn, Þór og einnig sá armi þrjótur Loki Laufeyjarson.
Æsir búa, samkvæmt goðafræðinni, í Ásgarði og þeir sem trúa á þá kallast ásatrúar. Ekki eru þau ágætu trúarbrögð í forgrunn þessara skrifa minna.
Ættfaðir ása og æðstur þeirra er Óðinn sem var sonur jötunsins Bestlu og risans Bors. Óðinn og bræður hans Vilji og Vé, sköpuðu heiminn úr líkama jötunsins Ýmis sem þeir drápu. Síðar sköpuðu þeir mennina úr viði Emblu og Asks. Aðrir mikilvægir æsir eru meðal annarra þrumuguðinn Þór (en hann var mest dýrkaður á Íslandi fyrr á öldum), Baldurhinn bjarti, Týr guð hernaðar og bardaga, hinn hrekkvísi og klaufski Loki (sem má reyndar deila um hvort hafi verið ás eða ekki), Frigg kona Óðins og Iðunn sem gætti eplanna sem héldu goðunum ungum
Þetta eru ævintýrasögur og hafa til að bera flest það sem prýðir góða sögu, hið góða og hið illa, sterkar persónur, ástir og dularfulla hluti. Þarna var karlmennskuhugmyndin í algleymingi, sterkir gaurar, aflraunamenn, jöfnar.
Enginn þarf að óttast dauðann ef hann trúir sögunum, því í Ásgarði gerðu menn það sem þeim fannst skemmtilegast, börðust, en þeir sem féllu, stóðu allir upp aftur og fóru fyrst í hádegismat og svo kvöldmat.  Þar var borðaður góður matur og bjór og vín, eins og hver vildi. Þetta var svona í ætt við útrásartímann.
Margir voru rammgöldróttir og fátt var sem sýndist.  Hér kom Loki oft við sögu,       
Loki er fríður og fagur sýnum, illur í skaplyndi, mjög fjölbreytinn að háttum. Hann hafði þá speki umfram aðra menn er slægð heitir og vélar til allra hluta. Hann kom ásum jafnan í fullt vandræði, og oft leysti hann þá með vélræðum.
Norræn goðafræði lýsti heimi goðanna og heimssýn þess tíma. Eins og við allan sögulestur, kemur okkar tími upp í hugann. Það vildu sjálfsagt margir eiga ungdóms- epli, eins og  Frigg og Iðunn réðu yfir. Spurning hvort þau væru seld í Bónus.


Alla rafmagnskapla í jörð innan borgar og bæjarmarka.

Deila Landsnets og sveitarstjórnar Voga hefur enn einu sinni lyft upp á borðið deilum um loft eða jarðlínur fyrir rafmagn í eða í námunda við byggð.
Nú er það svo að inni í bæjum og borg eru flestar rafmagnslínur grafnar í jörð. Þeir sem séð hafa allt rafmagn í loftlínum í erlendum stórborgum t.d. í henni ameríku, kunna að meta þetta vinnulag hér,  í staða sjónmengunar ef notaðar eru loftlínur.
Deilan byrjar þegar komið er út á jaðar byggðarinnar og hvað telst borgar- og bæjarmörk í skilningi rafmagnsflutninga.  Sérstaklega á þetta við ef um er að ræða til stórnotenda eins og t.d. í Helguvík.
Ég sé það fyrir mér, að draga á einhverskonar hring t.d. um suðvesturhorn landsins,  og innan þessa hrings eigi allir rafmangsflutningar að vera í jörð. Megin rök mín eru tengd umhverfismálum, þ.e. sjónmengun og heilbrigðismálum.
Mér eru mjög vel kunn kostnaðarleg rök fyrir því að þetta sé dýrt og ekki hægt. Ef satt skal segja gef ég ekki mikið fyrir þessi rök, tel þetta vera samsfélagslega spurning og kostnað innan marka.  Að þetta sé einfaldlega hluti af verksviði, orkuflytjandans.
Hugsandi á þessum nótum, þarf að endurhugsa og endurskipuleggja öll þau leiðslukerfi sem nú eru grafin í jörðu.  Koma þarf upp stórum stokkum í jörðu þar sem margskonar leiðslur eru lagðar. Í Róm kann þetta að vera flókið, en í okkar ungu borg og bæjum er þetta vel leysanlegt. Ég minni t.d. á hvernig frárennslismál voru leyst hér á höfuðborgarsvæðinu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband