Færsluflokkur: Bloggar

Auðvitað greiðir enginn mútur á Íslandi.

Þó nú væri fussum svei.

„ Liðlega þriðjungur starfsmanna stórfyrirtækja í Evrópu, allt frá verkamanni við færibandið að mönnum í áhrifastöðu, telur að forráðamenn þeirra séu reiðubúnir að greiða mútufé, gefa stórgjafir eða bjóða hlunnindi, munað og skemmtanir, til að tryggja þeim viðskipti. Langvinnt samdráttarskeið, jafnvel viðskiptakreppa á sumum sviðum, og á sumum svæðum, valdi því að menn telji ekki allskostar nauðsynlegt að fylgja lögum og reglum út í ystu æsar þegar fyrirtæki þeirra eigi í vanda, rambi jafnvel á barmi gjaldþrots. Þetta er niðurstaða Evrópsku fjársvikakönnunarinnar, European Fraud Survey, fyrir 2011. Hún var unnin af álits-og ráðgjafarþjónustunni Ernst and Young. 2.365 manns í 25 löndum tóku þátt í henni. „

Grikkir og rússar eru sagðir vera engir englar í þessum málum.

Þessi umræða skýtur upp kollinum öðru hverju. Ósköp eðlilegt mál, sem hluti af uppgjöri við fyrri tíma og aukinni umræðu um siðferði. 

Að taka við mútum er hættuleg iðja og ólögleg. Hættuleg í þeim skilningi að í þessu sambandi tveggja aðila er það oftast svo að annar aðilinn tekur meiri áhættu enn hinn.


Miklu líklegra er að „ vandi dagsins" felist því að verðlag í landinu er orðið alltof hátt m.v. kaupgetu fólks.   Ríkið tekur sem dæmi 90% af seldri vodkaflösku sem kostar um 7.000 krónur. Skattmann er orðinn of gráðugur. Staða sem kallar á viðbrögð þolandans.  Búast má við að viðbrögðin felist m.a. í svartri atvinnustarfsemi og öðru sem sumir líta á sem  " sjálfsbjargarviðleytni "

Reynsla annarra er þó sú að á samdráttartímum aukast mútugreiðslur, allir vilja reyna að bjarga sér. Þó erfitt sé að horfast í augu við sannleikann, verður að áætla að staða okkar sé ekki öðruvísi enn annarra.  Ég minnist þess að vitur maður hélt því fram að kúlulán væru mútur. Sé litið svo á voru mútur stórt vandamál í gömlu bönkunum um árabil.


Eru stjórnmál hættuleg atvinnugrein.

Á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins flutti Geir Haarde f.v. formaður skörulega ræðu. Hann fór m.a.  yfir málaferði á hendur sér í Landsdómi. Það var allra manna mál á fundinum að þessi pólitísku málaferli á hendur Geir, væru skammarleg og öllum þeim sem að þeirri ákvörðun stóðu til minnkunar. Formaður flokksins Bjarni Benediktsson kom einnig inn á þetta mál í setningarræðu sinni. Allir sem þekkja Geir sáu að þetta mál hefur tekið mikið á hann, svo og þau veikindi sem urðu til þess að hann hætti í stjórnmálum.
Í þessu sambandi rifjast upp veikindi Ingibjargar Sólrúnar, Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og fleiri stjórnmálamenn má telja upp.  Er það mögulegt að álagið á stjórmálamenn sé að vera þannig að heilsa þeirra, eða viðnámsþróttur dalar, álagið sé að verða ómannlegt.
Það er vel þekkt að álag og áreiti á stjórnmálamenn er endalaust. Það er ætlast til að þeir séu ínáanlegir allan sólahringinn, tæknin gerir það að verkum að hvergi er friður.  Fyrir utan heimafólk eru erlendir fjölmiðlar einnig aðgangsharðir og allra leiða leitað til að ná í þetta fólk.
Krafa um sparnað gerir það einnig að verkum að ekki er auðvelt um vik að bæta við aðstoðarfólki, sem þó væri ekki vanþörf á.  Þó ég geri stjórnmálamenn hér að umtalsefni, á þetta í mörgum tilfellum við fólk í atvinnulífinu og stjórnsýslunni.
Lífsgæði er hugtak og réttur sem allir eiga að stefna að. Ef við gerum þannig kröfur til okkar forystumanna, að þeir eigi ekkert einka- eða fjölskyldulíf erum við örugglega ekki á réttri braut. Við munum þá ekki fá fólk á „ besta" aldri til að sinna ábyrgðarstöðum og þeir sem taka að sér slíkar stöður brenna fljótt upp.

Í framhaldi að Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Góðir bloggarar og skríbentar hafa sagt allt það gáfulegast sem sagt verður um fundinn, þannig að hvað er eftir fyrir mig?
Það var mikill kraftur í þessum fundi og mjög ánægjulegt að sjá og heyra að ungt fólk hafði sig mjög í frammi í umræðum og vinnu málefnanefnda. Úr hópi unga fólksins náðu góðir einstaklingar kjöri í Miðstjórn, þannig að rödd þessa hóps mun heyrast á þeim vettvangi.   Allt að mínu áliti góðar fréttir og nauðsynlegar fyrir flokkinn.
Fundurinn ályktaði einnig um ýmis mál, stefnumörkun, bæði varðandi dægurmál og framtíðina. Í þetta starf var lögð mikil vinna og því mikilvægt að áfram verði unnið með margt sem þarna var gert.
Það hefur lengi verið veikleiki í flokknum, hver tengsl tillagan Landsfundar skuli vera við flokksstarfið. Þessi stefnumörkun æðsta valds flokksins, á ekki að rykfalla í skúffum, heldur að vera lifandi gang er fari í markaðan farverg í flokksapparatinu. Farveg til almennrar kynningar og frekari umræðu út í flokksfélögunum og í stjórnunarapparati flokksins. Valhöll ætti að vera mótorinn í þessu starfi.
Þær róttæki breytingar sem gerðar voru á öllu skipulagi flokksins, ættu einnig að styðja það að gera Landsfundar ályktanir lifandi og virkar.  Það eitt að gera nýjar skipulagsreglur virkar, kallar á mikla vinnu.  Afgreiðsla Landsfundar í þeim efnum var ekki endir heldur byrjun. Til að taka eitt atriði, þarf að ræða og skipuleggja innheimtu félagsgjalda, sem er í ólestri í fjölmörgum félögum.
Ég hef verið á mörgum Landsfundum. Það er alltaf jafn gaman að hitta félagana og vera samvistum við hið góða fólk í Sjálfstæðisflokknum.  Vera flokksins í stjórnaraðstöðu er að breyta flokknum.  Hann þarf í dag að vera og hugsa eins og stjórnmálaflokkur - fljöldahreyfing. Ekki eins og hluti af establismentinu, eins og hann hafði verið um langt árabil. Þessi nýja staða hefur þjappað flokknum saman, hann hefur þurft að gera upp ýmis mál, horfa innávið, og spyrja spurninga eins og hvað er það sem límir þennan flokk saman.  Mikilvæg skref á þessari vegferð voru stigin á Landsfundinum.

Milljón ferðamenn til Íslands á næstu árum.

Fyrir okkur sem vinnum í miðbæ Reykjavíkur er gaman að fylgjast með því þegar ferðamann fara að koma í bæinn, með kortin sín, standa á götuhornum og eru alltaf að leita að einhverju.
Ef þeir gefa sig á tal við mann eru þeir að leita að einhverjum ólíkinda stöðum, sem þeir hafa pikkað upp úr einhverjum ferðamannabæklingum.
Allir vita að ferðamenn eru ekki bara ferðamenn. Það má raða þeim í allskonar hópa:
  • Mjög stór hópur á skemmtiferðaskipum staldra stutt við á hverjum stað,
  • Það eru „ stopp over „ farþegar á leið austur eða vestur og stoppa stutt,
  • Það eru ferðamenn í skipulegum hópferðumferðum,
  • Það eru ferðamenn sem skipuleggja alla sína ferð sjálfir á netinu og yfirleitt mjög „ góðir „ ferðamenn,
  • Það eru ferðamenn sem koma utan venjulegs ferðamannatíma, og flokkast sem mjög „ góðir „ ferðamenn.
Einhversstaðar þarf þetta fólk að sofa. Hótel rísa á svæðinu og svört starfsemi blómstrar, þar sem menn í 101 ganga úr rúmmum sínum og leigja þau út.
Ferðaiðnaður er víða vaxandi atvinnugrein og hefur verið knúin áfram af vaxandi kaupmætti og velmegun ákveðins hlutfalls þjóðanna ( 10-30% ) Þeir sem vilja hasla sér völl í þessari greina ættu þó að vanda vel til verka, því margir eru kallaðir enn ekki allir útvaldir.
Það er til siðs að tala niður ábatann af þessari atvinnugrein.
  • Hún er sem heild fjármagnsfrek og fjármagnið fær því góðan bita af kökunni,
  • Beinn rekstur hótela kallar væntanlega ekki á hálaunastörf,
  • Hinsvegar er mjög breiður hópur, tengdra aðila, sem er að hafa mikinn ábata af komu ferðamanna. Má þar nefna flutningsaðila, veitinga - og skemmtistaði, og rekstraraðila verslana og afþreyingar fyrir ferðamenn. Margir gera út á þetta en aðrir fá stórlega bætta nýtingu á fjárfestingar sínar og starfsemi.
Gýfurleg breyting varð á þessari grein, til bóta, þegar hótelin og ýmsir þjónustaðilar fóru að verðleggja sig í erlendri mynt í stað krónu.  Nýting, meðalnýting  er einnig stórt mál, eins og í öllum rekstri, þar sem fjármagnskostnaður er mikill.  Þannig er allt yfir 60% spurning um hagnað eða tap. Vandi greinarinnar er svört atvinnustarfsemi, hælbítar alvöru rekstaraðila, sem eru í þessu í alvöru.
Ferðaiðnaður er orðinn alvöru atvinnugrein á Íslandi, með mikla framtíðarmöguleika. Þekking á þessum rekstri hefur vaxið hratt og mikið af harðduglegu  og færu fólki starfar í greininni. Eins og margar vaxtargreinar, er þörf á hæfilegu regluverki, sem þó má ekki takmarka athafnafrelsi. Allir sem vilja hasla sér völl í ferðamannaiðnaði, ættu að vanda vel til verka, og byggja á traustum og vönduðum áætlunum.

Endurnýjanleg orka í heiminum og hvar er hún.

Á vef tímaritsins The Economist er að finna eftirfarandi upplýsingar.
Ef ná á tökum á hlínun jarðar þarf mikla fjárfestingu í heiminum í endurnýjanlegri raforku:
  • Mest aukning 2010 var í sólarorku, eða 70% aukning frá 2009 eða samtals 40 gígavattstundir,
  • Vindafl jókst um 24%
  • Vatnsafl, sem er stæðsti hluti endurnýjanlegrar orku jókst um 3% og jarðvarmi um sömu tölu. Nýja kosti í vatnsafli og jarðvarma er erfitt að finna og eru dýrir.

Það svæði, þar sem mestur vöxtur er í endurnýjanlegri orku er Asía. Þar er nánst endalaus eftirspurn eftir raforku. 
Aukning  í fjárfesting í endurnýjanlegri orku  jókst milli áranna 2007 og 2009 um 30%  eða samtals fjárfestingin upp á  $ 243 billjónir. 

Til samanburðar við töflu er áætlað að nýtanleg orka á Íslandi sé 25-30 gígavattstundir

Capture Orka


ESB - umræða í minni hnotskurn.

Hvað er besti hluti ESB hugmyndarinnar ?  Óhætt er að nefna:
  • Grundvöllur friðsamlegrar samvinnu og skapar leiðir til að ræða og leysa úr ágreiningsmálum þjóðanna. NATO samstarfið kemur hér inn í myndina,
  • Stór, 500 milljón manna, innri markaður, með kostum fríverslunar,
  • Samræmt regluverk og lagaumhverfi,
  • Samvinna á sviði nýsköpunar og tækni,
  • Sameiginlegur vinnumarkaður.
Allt eru þetta kostir sem við Íslendingar höfum notið með EES samningnum.  Væri sá samningur í hættu eða uppnámi, þyrftum við reglulega að hugsa okkur um, enn svo er einfaldlega ekki.
ESB, hefur svo fleiri hliðar eins og við vitum. Af þeim má nefna:
  • Pólitískt samstarf,
  • Sameiginlega mynt, evruna,

Varðandi þessi tvö atriði í stefnu ESB, er bandalagði að brjóta nýtt land.  Leiðangur sem kann að taka áratugi og útkoman algerlega óviss. Er slíkt ríkjasamstarf, einhverstaðar annarsstaðar í deiglunni?


Ekki fer á milli mála að við erum Evrópuþjóð. Fjölmargt tengir okkar við þetta bandalag. Við njótum í dag alls þess besta í þessu samstarfi og viljum standa við okkar hluta EES samningsins.
Er þannig hægt, með sanni,  að segja að allir þeir sem ekki hoppa hæð sína af áhuga yfir beinni aðild, séu afturhaldsseggir og íhaldskurfar !  Ég held ekki. 
ESB umræðan hefur hinsvegar knúið okkur til hugsa og skilgreina okkar hagsmuni í síbreytilegum heimi.  Þessi umræða hefur verið okkur til mikils góðs og hana má ekki vanmeta eða smækka með ljótum orðum og öfgum. Hún má heldur ekki verða heimóttarleg eða byggð á ótta við allt sem erlent er.
Við verðum að vinna með styrkleika okkar, sem eru margir.  Eins og er liggur leið okkar ekki til Brussel


Lífið á að vera leikur, en leynast hættur í leiknum.

Okkur finnst að lífið eigi að ganga sinn vana gang og að við lifum örugg í dagsins önn. Við lifum að okkur finnst í tryggu umhverfi og á alþjóðavísu gerum við það örugglega.
Öryggi er ein af okkar grundvallar þörfum.  Manni verður hugsað til landa, þar sem voru endalaus stríð og herir fóru um ruplandi og rænandi, og uppálagt að skapa eins mikinn ótta og hægt væri.  Konum var skipulega nauðgað, menn og börn jafnvel drepi.  Vonandi heyrir þetta allt fortíðinni til.
Þó ytra öryggi okkar virðist í augnablikinu í lagi eru á meðal okkar hættulegir einstaklingar, sem margir hverjir geta valdið óbætanlegu tjóni.  Tjóni sem ekki verður bætt með neinu efnislegu, tjóni á sálinni. Þessir aðilar bera engan merkimiða um að þeir séu hættulegir. Þeir líta út fyrir að vera venjulegir borgarar, þeir eru jafnvel í þinni fjölskyldu, en eru í reynd úlfur í sauðagæru.
Við köllum sífellt á að þessir aðilar sé með einhverjum hætti merktir. Við viljum nafnbirtingar, meira opinbert eftirlit með dæmdum sakamönnum, við viljum ekki búa neinstaðar nálægt þessum aðilum osfv.  Allt mannlegt og skiljanlegt við viljum geta varið það sem okkur er annt um og kærast.


Þegar rikið sest í þessari umræðu, stendur það eftir, að við getum ekki kastað ábyrgðinni á okkur á nokkurn annan. Dæmin sem koma upp úr skúmaskotum okkar umhverfis eru þannig að allir verða að taka ábyrgð. Öryggi er ekki aðeins fyrir lögregluna, allir verða feimnislaust að ræða þessi mál.  Allir ungir sem gamlir verða að taka ábyrgð, sá sem gengur einsamall um glæpamanna hverfi að nóttu til, verður örugglega rændur, ef ekki drepinn. Ég legg til að umræðan í fjölskyldunni byrji á spurningunni, eru allir góðir ?


Hvar mega erlendir fjárfestar fjárfesta ?

Allir tala einum rómi um það að auknar erlendar fjárfestingar er það sem við þurfum á að halda. Hagvöxtur og minnkað atvinnuleysi hanga á þessari spítu. Kannanir sýna að bæði einstaklingar og fyrirtæki eru mjög meðmælt erlendri fjárfestingu.
Samt er það svo að fjöldi beinna og óbeinna hindrana er lagður í götu slíkra fjárfestinga. Tek hér eitt dæmi af handahófi. Það er heimilt að nota aflandskrónur til fjáfestinga í fasteignum. Fjárfesting sem gæti komið mörgum vel. Gjaldeyrishöft setja þessu máli, þannig höft að óskiljanlegt er.
„ OECD segir í nýlegu áliti hömlur á fjárfestingum verulegar hér á landi og meiri en í mjög lokuðum löndum á borð við Sádí Arabíu og Tyrklandi
Hvergi meðal vestrænna ríkja er meiri áhætta því samfara en að fjárfesta á Íslandi samkvæmt nýlegu erlendu áhættumati. Þar segir að áhættan við fjárfestingar hérlendis séu af ýmsum toga; pólitísk afskipti, verkföll, óeirðir og mögulegt greiðsluþrot íslenska ríkisins.
Er þetta niðurstaða tryggingfélagsins Aon sem tekur reglulega saman lista ætlaðan fjárfestum heimsins um áhættu sem því fylgir að festa peninga sína í hinum og þessum löndum heims. Lendir Ísland í flokki með löndum á borð við Albaníu og Egyptalandi á þeim lista.
Ekki nóg með að áhætta við járfestingar þyki fram úr hófi heldur eru hömlur óvíða meiri á erlendum fjárfestingum en á Íslandi samkvæmt mati Efnahags- og samvinnustofnunarinnar, OECD, en þar er Ísland sagt hafa meiri hömlur á fjárfestingum en þjóðir á borð við Tyrkland og Sádí Arabía."
Það mætti halda að Ragnar Reykhás, ráði þessum málaflokki á Íslandi.
Ég hef reyndar í fyrri skrifum mínum varað við oftrú á „ gæsku „ erlendra fjárfesta og talað fyrir því að íslenskir athafnamenn fjárfestu, eða væru samverkamenn erlendra fjárfesta.  Við eigum peninga til að gera þetta og ýmis dæmi sem ég þekki í þessum efnum hafa tekist vel. Reyndar skil ég ekki erlenda fjárfesta sem ekki vinna með þetta módel.
Ég tel að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins eigi að álykta sterklega um þessi mál og móta skýra stefnum um það hvað flokkurinn vill gera.  Ég tel að núverandi ráðmönnum þjóðarinnar megi vera það alveg ljóst að aldrei verður vit í þeirri pólitík, sem Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki að.  Til þess eru áhrif flokksins í atvinnulífinu alltof mikil.

Komandi Landsfundur Sjálfstæðisflokksins.

Fundurinn hefur allar forsendur til að vera fjölsóttur og spennandi.
  • Fyrst er að telja formannskjör, bein uppskrift að góðri mætingu,
  • Viðamiklar tillögur um breytingar á skipulagi flokksins og öllu innra starfi,
  • Ítarlegt starf málefnanefnda sem lagt verður fram og rætt á fundinum,
  • Ekki má heldur gleyma tillögum þingflokks Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, sem örugglega verða þarna til umræðu.
Þó Landsfundur sé ákveðinn endapúntur málefnavinnu flokksins, er hann ekki síst félagsleg samkoma. Þarna hittast 1500 - 2000 sjálfstæðismenn og konur, fólk sem margt hefur unnið saman árum saman og þarna verður fagnaðarfundur. Margt er rætt yfir kaffibolla og það eru þessar samverustundir, sem gefa þessari annars merkilegu samkomu gildi.
Hart er í dag sótt að stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum.  Stór hluti kjósenda er óviss í afstöðu sinni og finnur ekki svör  í núverandi flokkakerfi. Eitthvað nýtt, eitthvað annað enn við höfum, er kall stórs hóps. Hafa núverandi flokkar getu til að breyta sér og aðlaga sig þessu kalli.
Sjálfstæðisflokkurinn er í fyrirliggjandi tillögum staðráðinn í að láta ekki sitt eftir liggja. Verkefnið er að:
  • Halda utanum og treysta þann hóp, sem nú þegar er í flokknum. Landsfundur er í reynd uppskeruhátíð þess starfs,
  • Ná til nýrra kjósenda, sérstaklega yngra fólks og kvenna. Til að ná þessu marki, ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að breytast og aðlagast. Hann ætlar með nýju skipulagi að laða til sín nýja krafta.
Það verður sannarlega gaman að sjá hvernig til tekst á Landsfundinum. Eitthvað sem áhugamenn um stjórnmál verða að fylgjast með.

Skuldavandi ríkja og einkavæðing.

Á s.l. áratug fór mikil neinkavæðingaralda yfir Evrópu og heiminn.  Nú kemur þessi leið aftur upp á borðið í tenglum við skuldavanda einstakra ríkja.  Geta ríki í vanda einfaldlega selt eignir og ríkisfyrirtæki og greitt skuldir sínar. Allavega hefur þetta verið rætt við Grikki.
Hvert er þá verðmæti þessara fyrirtækja og hvernig á að meta þau. Almenn formúla er að verðmæti fyrirtæksis, er núvirt framtíðar tekjustreymi fyrirtæksins. Þannig að við sölu ríkisfyrirtækis glatar ríkið framtíðar tekjum, sem hefði verið hægt að nota til greiðslu skulda.  Einkavæðing er því að ríkið fær framtíðar arðinn ( söluverðið )  greiddan strax og í einu lagi.  Ef við tækjum dæmi hér hjá okkur, og segðum að við seldum - einkavæddum Landsvirkjun  gæti ríkið lækkað skuldir sínar strax að lágmarki um 500 milljarða.
Við einkavæðingu getur margt gerst. Kaupandi gæti hafa ofmetið tekjustreymið og notað of lága vexti við núvirðingu.  Hann gæti því hafað ofreiknað kaupverðið, gott fyrir ríkið eða hvað, meira til greiðslu skulda.  Þetta er í stöðunni í dag harla ólíklegt, því markaðsaðstæður eru óhagstæðar og ríki, eins og t.d. Grikkland er þvingað til að selja. Mesta líkur eru að í dag fáist ekki raunvirði fyrir eignirnar.
Einkavæðing gæti líka hafa aðra þýðingu. Ríkið erað reka fyrirtækið illa, kaupandi kemur með nýja stjórnendur og reksturinn batnar, til hagsbóta fyrir alla, líka ríkið. Þessi rök vel þekkt hér á landi.
ESB hefur stutt harða línu gagnvart ýmsum afríkuríkjum, þegar lánadrottnar þeirra hafa verið að rukka þau og krefjast auðlinda þeirra. Það er því líklegt að ESB hafi sömu stefnu heimafyrir.
Þjóðríki í þroti, verður því að sýna vilja sinn til að greiða skuldir sínar. Sala eigna er þar á meðal hluti aðgerða. Íslensk heimili þekkja þessar leikreglur í samskiptum sínum við okkar banka.
Það er í tísku að tala illa um alla sem lána peninga eða vinna á fjármálamarkaði. Það vill gleymast að í jöfnunni þarf að vera lántakandi og sparnaður. Góður lántakandi þarf að vera fyrir hendi svo hægt sé að greiða eðlilega vexti á sparnaðinn. Nú þegar þjóðríkin eru ekki lengur traustur lántakandi, þurfa bankamenn að fara að læra lexíurnar sínar að nýju. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband