Færsluflokkur: Bloggar
10.12.2011 | 09:19
Sjónvarpslausir dagar.
Sjónvarpið þessi ágæti enn miskunnarlausi miðill, stýrir nú sem fyrr, heimilishaldi á mörgum heimilum.
Til þess að ekkert fari nú framhjá þér, eru sjónvarp í tölvunni þinni, símanum, og svo margir skjáir á hverju heimil. Hver og einn á heimilinu situr að sínu, fólk talar ekki saman og unga fólkið sest við tölvuna/sjónvarpið og hverfur inn í heim tækninnar og rafrænna samskipta.
Allt er þetta hluti framþróunarinnar, tæknibyltingarinnar, sem einhverjir hafa búið til fyrir okkar, og stjórnar okkar lífi. Gott og guðhrætt fólk stýrir lífi sínu eftir skilaboðum að ofan Í dag koma skilaboðin í gegnum cyberspace
Auðvitað er þetta allt bull hjá manninum, við höfum val, við getum einfaldlega slökkt á tækinu, talað sem og lesið í bók, sem nú um stundir heitir því fallega nafni unaðslestur. Enn eins og sú staðreynd er staðreynd, að holdið er veikt, er það þrautin þyngri að slökkva á tækninni.
Þegar mál verða svo stór að enginn ræður við þau, þarf eitthvað yfirþjóðlegt vald. Það þurfti nú ekki minna enn ESB til að taka í lurginn á farsímafyrirtækjunum og flugfélögum, minna dugði ekki.
Ég fór alveg upp úr þurru að hugsa um sjónvarpslausa fimmtudaga. Eitthvað sem mín kynslóð þekkti enn yngra fólk aðeins af afspurn. Hvað segið þið um að taka aftur upp sjónvarpslausa fimmtudaga. Ég kann ekki sjálfur að klæða þess hugmynd í þann búning sem dugir. Örugglega missa einhverjir spón út aski sínum og bregst öndverðir við. Ég held að þetta væri góð þjóðfélagsleg tilraun eða endar þetta með því að ég þarf að leita til ESB um hjálp í málinu !!.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2011 | 07:41
Utanríkisráðherra í Rússlandi.
Okkar röggsami utanríkisráðherra var í Rússlandi nýverið. Ráðherrann og hans lið gerði þar góða ferð, og svo sannarlega skal virða, það sem vel er gert. Ýmislegt þýðingarmikið var þar rætt:
- Loftferðasamningur milli Íslands og Rússlands og ferðamennska,
- Galopnað fyrir útflutning á skyri og lambakjöti,
- Fjarskiptastrengur frá Murmansk til Íslands, með mögulegri tengingu til USA,
- Samstarf á norðurslóðum var rætt, stórmerkilegt mál, þar sem Rússar munu alltaf spila stórt hlutverk.
Ekki ómerkilegt dagsverk þetta fyrir ráðherrann og hans harðsnúna lið í untaríkisþjónustunni.
Þó margir í blogg - heimum tala, eins og allt illt komi frá Samfylkingunni, á það ekki við um Össur. Ráðherrann er húmorist, stundum strákur í sér, og bloggi um nætur enn ég er viss um að honum verður t.d. ekki kennt um slæma útreið Pútin og félaga í nýafstöðnum kosningum. Þeir hafa óstuddir séð um það sjálfir.
Að öllu gamni slepptu hljóta fréttir af þessum kosningum að setja óhug í þá fjölmörgu sem töldu að lýðræði væri að skjóta rótum í Rússlandi. Það sést ekki aðeins í horn á spillingunni, heldur er hún grímulaus. Best er þessu lýst, ef rétt er, að hérðasstjórar hafi fengið fyrirmæli frá stjórnvöldum um útkomu kosninganna. Við viljum fá 70% atkvæða takk fyrir. Sannast þá það sem haft var eftir Stalin, að sá sem telur atkvæðin ráði úrslitunum.
Ég hef skrifstofu í Garðastræti, beint á móti rússneska sendiráðinu. Rússar eru vinir okkar, þeir hafa staðið með okkur á mikilvægum stundum. Ég ráðlegg hinsvegar engu að leggja bílnum sínum fyrir framan sendiráðið þeirra. Þar eru best vöktuðu bílastæði bæjarins, gæti verið sprengja í bílnum, og hann er fjarlægður með hraði.Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.12.2011 | 09:12
Ríkisrekstur á Grímsstöðum á fjöllum.
Ráðamenn í Samfylkingunni hafa varpað fram þeirri hugmynd að ríkið kaupi jörðina Grímsstaði á fjöllum og leigi hana síðan hinum kínverksa fjárfesti Nubo.
Ýmis sannfærandi rök eru færð fram fyrir þessu og þau gildustu að ríkið eigi nú þegar 25% í jörðinni.
Skoðum þessa frábæru tillögu betur:
- Ríkið á sem sé að kaupa alla jörðina og leigja Nubo. Ætlar það t.d. að ganga inn í núverandi samning Nubo eða semja að nýju? Það sem var svo merkilegt við samning Nubo var verðið sem hann bauð, en það var lagt yfir því sem áður hefur sést hér í landakaupum,
- Eign ríkisins á landinu og tilurð þessa máls alls, gæfi Nubo samningsstöðu sem allir vildu vera í. Ríkið er einfaldlega á biðilsbuxum gagnvart þessum manni,
- Þær hugmyndir sem Nubo hefur sett fram um nýtingu landsins, ferðamennsku, golfvöll, hótelbyggingu, munu skapa endalausar flækjur í samskiptum landeiganda og leigutaka. Ef þessi maður er klókur, mun hann gera miklar kröfur á ríkið um framkvæmdir, vegagerð, vatn, og járnbrautalest til Egilsstaða til að flytja alla ferðamennina.
Þegar þessar tillögur eru skoðaðar betur eru þær í reynd arfavitlausar:
- Eru þessar hugmyndur um kaup ríkisins, ekki fordæmisgefandi, sem þær reyndar hljóta að vera,
- Eru þarna að takast á grundvallarskoðanir um eign ríksins á landi og fyrirtækjum, í staða, séreignaréttar,
- Er verið að leggja línu í samskiptum stjórnvalda við erlenda fjárfesta. Stefna sem í reynd lýsir algerum glundroða. Nubo skal borinn í gullstóli, en Magma menn ( Alterra Power ) braskarar af verstu gerð og þeim skal bolað út með valdi.
Nubo fékk svar frá íslenskum ráðherra. Svar sem mjög margir eru ánægðir með, hvar í flokki sem þeir standa. Það svar átti að standa, að óbreyttum lögum og reglum. Það sem Nubo, eða talsmenn hans, segjast ætla að gera á Grímsstöðum hljómar ekki sannfærandi. Rímar illa við reynslu okkar af ferðamannaiðnaði. Ferðamenn vilja skoða sig um, skemmta sér, versla, það sama sem við viljum í útlöndum. Það að spila gold upp á heiði, passar ekki alveg, þó einhverjir mögulega vilji það. Einhvernvegin rifjast upp stórhuga hugmyndir um ferðamennsku á Eiðum sem lítið varð úr enn sem komið er.
Við þurfum að skýra betur allar línur varðandi erlendar fjárfestingar. Sú vinna er hafin. Lærdómur umræðunnar og þeirra dæma sem komið hafa upp, er að þetta snýst ekki einvörðungu um krónur og aura. Málið kemur við ýmsar aðrar taugar, landið okkar, þjóðina okkar, hverju viljum við á endanum deila með öðrum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2011 | 08:25
Beinar kosningar um einstök mál.
Tíðari kosningar en á fjögurra ára fresti, hafa lengi verið valkostur. Stjórnmála- menn og flokkar hafa hinsvegar í reynd haft lítinn áhuga fyrir þessu úrræði.
Við munum eftir Flugvallarkosningunni í Reykjavík. Ýmsir hafa orðið til að segja að vegna eðli máls hefði sú kosning átt að vera þjóðaratkvæðagreiðsla. Strax í þeirri kosningu komu fram veikleikar þessa fyrirkomulags.
Í kosningu meðal Reykvíkinga um flugvallarmálið árið 2001 var þátttaka aðeins 37%. Þar af vildu 49% flugvöllinn á brott en 48% að hann yrði áfram í Vatnsmýrinni. Þannig byggja borgaryfirvöld í Reykjavík áætlanir um flutning Reykjavíkurflugvallar á atkvæðum innan við 19% kosningabærra Reykvíkinga. Sjálfstæðismenn í borginni hvöttu til þess að kjósendur hundsuðu kosningarnar. Var á það bent að niðurstaðan gæti ekki tekið gildi fyrr enn 2016.
Tvennar kosningar voru um Icesave. Spurningin á kjörseðli var um það hvort kjósandi samþykkti eða synjaði sett lög Alþingis. Lögunum var synjað í báðum tilfellum. Strax eftir seinni kosningarnar komu fram ýmsar úgáfur af því hvaða skilning kjósendur og greiningaraðilar höfðu lagt í útkomuna. Taka má sem dæmi:
- Synjun þýddi fyrir marga að þeir vildu ekki borga neitt. Ekki að greiða neinar skuldir fyrir óreiðumenn,
- Að senda boltann, nei, í hendur ríkisstjórnar sem vildi semja, virtist fyllilega órökrétt,
- Hvernig átti að meðhöndla möguleg málferli og útkomu þeirra.
Rifjum aðeins upp hvað stendur í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu frá 2010 með síðari breytingum:
1.gr. Álykti Alþingi að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp fer um framkvæmdina samkvæmt lögum þessum. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ráðgefandi.
3. gr. Í þingsályktun skv. 1. mgr. 1. gr. skal, að fenginni umsögn landskjörstjórnar, kveðið á um orðalag og framsetningu þeirrar spurningar sem lögð er fyrir kjósendur.
Á kjörseðli skal skýrt koma fram spurning um hvort kjósandi samþykki þá tillögu sem borin er upp og gefnir tveir möguleikar á svari: Já" eða Nei".
Alþingi getur ákveðið að spurningar og svarkostir á kjörseðli í atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. 1. gr. séu fleiri eða orðaðir með öðrum hætti.
Innanríkisráðherra setur nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla.
Er það mögulega flóknara enn ætla mætti að semja spurningar, sem svara má með já eða nei, sérstaklega þegar um flóknari mál er að ræða ?
Það var ekkert flókið að semja spurninguna í þjóðaratkvæðagreiðsunni 1944, um það hvort við ættum að vera sjálfstæð þjóð. Aldrei hvorki fyrr eða síðar hefur verið önnur eins kosningaþátttaka á Íslandi, eins og í þeim kosningum.
Ég er mjög fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum og íbúakosningum í sveitarfélögum. Til að þessi tæki verði raunverulegt stjórntæki þarf að:
- Endurskipuleggja kosningaframkvæmdina m.t.t til nýrrar tækni og kostnaðar,
- Vanda til vals á verkefnum að kjósa um, gerð spurninga, og að niðurstaðan sýni raunverulegan og ótvíræðan vilja kjósenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2011 | 07:44
Heilsutengd - ferðamennska.
Meðalævilengd Íslendinga hefur aukist úr um 73 árum í 81,5 ár á hálfri öld og mun að mati Hagstofunnar aukast í 86 ár næstu hálfa öldina. Er þá miðað við svonefnda ólifaða meðalævi við fæðingu. Athygli vekur að bilið milli karla og kvenna hefur verið að minnka.
Fyrir hálfri öld voru 2 Íslendingar á lífi sem náð höfðu hundrað ára aldri, fyrir aldarfjórðungi voru þeir 22 og nú eru þeir 43. Búast má við að sú tala eigi eftir að hækka mikið á næstu árum og áratugum.
Þeir sem nú ná 70 ára aldri geta vænst þess að verða 85,4 ára, samkvæmt tölum Hagstofunnar, 80 ára verða 88,7 ára og búast má við að 90 ára gamalt fólk verði 94 ára (meðaltal áranna 2006-2009). Í öllum tilvikum eru horfur kvennanna betri en karlanna.
Rannsóknir hafa sýnt að ævilengd er háð tveim þáttum, erfðum og lífsstíl. Af þessu tvennu er þáttur erfða sagður 20-30%, afgangurinn er háður þáttum sem við getum haft áhrif á með líferni okkar.
Margar þjóðir eru að byggja upp það sem kallað er heilsutengd ferðamennska. Í Evrópu eru heilsuhæli aldagömul og mikið notuð starfsemi. Sum þessara hæla eru sannkölluð lúxus hótel. Hér á landi er Bláa lónið fyrirtæki í þessum geira og benda má á mörg önnur.
Markaður fyrir þessa þjónustu er stór og byggir á því að sá hópur fer stækkandi sem lifir lengur og hefur ráð á því að kaupa sér allt sem í boði er til vellíðunar og lengra lífs. Það er því einsýnt að við íslendingar eigum að taka þá möguleika sem við höfum föstum tökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2011 | 09:33
Aflandskrónur og fjárfestingar.
Umræðan um aflandskrónur er ekki einföld og bætist í flóru umræðu um okkar ágæta galdmiðil. Nú eru þannig í gangi:
- Venjulegar krónur, sem við notum í okkar daglega lífi,
- Verðtryggðar krónur, stundum kallar raunkrónur, því þær eiga að halda stöðugu verðgildi,
- Aflandskrónur, sem lúta reglum tengdum gjaldeyris höftunum,
- Þessu til viðbótar er erlendur gjaldeyrir, en vaxandi þáttur í öllum viðskiptum er að nota erlendan gjaldeyri ( Evrur, USA dollar ) sem viðmið í stað krónu. Þannig er mikið af tilboðum gerð í erlendri mynt, leiga á hótelherbergjum og svo má áfram telja.
- Aflandskrónur sem urðu til fyrir 2008,
- Aflandskrónur er urðu til eftir 2008 og eru krónur sem skipt var úr erlendum gjaldeyri í krónur á aflandsgengi, sem hefur verið umtalsvert annað ( hærra ) enn skráð gengi Seðlabankans. Þessar aflandskrónur eru í kerfinu sérstaklega vondar brask -krónur.
Þegar gjaldeyrishöft voru sett á voru stjórnvöld að óttast og fyrirbyggja að þessum krónu, í mörgum tilfellum í eigu útlendinga, væri skipt í erlendan gjaldeyri. Afleiðing þess hefði væntanlega verið, mikil lækkun gengis krónunnar og varasjóðir í erlendri mynt hefðu þurrkast upp.
Í dag ríkir meira jafnvægi og lag að létta á hömlum. Seðlabankinn hefur kynnt nýjar reglur um aflandskrónur, þar sem eigandi þeirra getur notað þessar krónur 50% í ákveðnar takmarkaðar fjáfestingar ( t.d. fasteignir ) ef þeir komi með erlendan gjaldeyri fyrir hinum 50% prósentunum. Þeir sem taka þessu fá 13% innbyggðan afslátt í skiptigengi.
Ég verð að játa það að ég skil ekki þá stefnu Seðlabankans að leyfa einfaldlega ekki hindrunarlausa notkun og flutning aflandskróna til landsins. Hætta þeim flækjum og skrifræði sem einkennir þetta núna. Sé ekki hvað hætta getur verið þessu samfara. Talsvert af þessum krónum er í höndum fólks, sem er tilbúið að nota þetta fé til fjárfestinga. Eitt er hinsvegar alveg klárt að eigendur þessa fjár eru ekki að fá neina ávöxtun á fé sitt.
Ég skal hinsvegar játa að þar sem maður hefur rekið nefið í þessar krónur, eru eigendur þeirra nokkuð sérstakur þjóðflokkur og ekki auðvelt að átta sig á þessum hóp og hans hagsmunum. Það að það séu ekki fjárfestingatækifæri fyrir þessar krónur hér kaupi ég ekki, hef marga kosti fyrir áhugasama. Mín tillaga er sem sé sú að einfalda þetta mál og leyfa óhindraða notkun á þessu krónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2011 | 08:32
Olíuleit og auðlindir á Grænlandi.
Það er eðlilegt að við fylgjumst vel með auðlindarannsóknum og auðlindanýtingu nágranna okkar á Grænlandi.
- Í fyrsta landi er landið risastórt og ókannað,
- Verðmæt jarðefni hafa fundist á Grænlandi og má þar tala um gull og gersemar,
- Miklar líkur eru á að olíu sé að finna í hafinu, beggja vegna, þ.e. vestan og austan,
- Hlínun jarðar gerir að jökullinn hopar og stærri landsvæði koma í ljós.
Grænland er nú þegar mjög áhugaverður kostur fyrir fjárfesta í námurekstri og vitað er af mögulegum olíusvæðum. Á Norðaustur Grænlandi, sem er hluti af Jan Mayen hryggnum og flekaskilum eru möguleikar á olíu en þetta svæði tengist okkar Drekasvæði.
Þegar skoska olíufélagið Cairn Energy byrjaði að leita olíu við Norðvestur Grænland, urðu strax til miklar væntingar um að Grænland væri að verða olíuland, og fréttir bárust um áhugaverðar vísbendingar. Nýjustu fréttir um að félagið hafi nú frestað frekari borunum eru því mikil vonbrigði.
Á s.l. 2 árum hefur félagið borað 8 tilraunholur án árangurs. Ekki hefur komið fram hvað félagið hefur eytt í þessar tilraunir, en ætla má að það sé ekki minna en billjón $. Vandi Cairn er að þetta er ekki stórt félag og langt frá því að vera eitt af þeim stóru. Það átti olíuframleiðslu á Indlandi sem það seldi og notaði þá peninga á Grænlandi. Líklegast er að peningarnir séu búnir og nú þurfi félagið að endurmeta stöðuna. Félagið tók mikla áhættu, sem ekki gekk upp, eigendur eru fúlir og hlutbréfin lækka í verði.
Olíuleit er dýrt fyrirtæki og það þarf mikið fjárhagslegt afl til að standa í þessum buisiness.
- Eitt er að finna olíu,
- Hún verður að vera í vinnanlegu magni,
- Það þarf að koma henni í land og í vinnslu, allt kostar þetta óheyrilegt fé.
Fyrir okkur íslendinga er þetta allt áhugavert í tengslum við okkar Drekasvæði. Segir okkur að við verðum að fá til samstarfs öfluga aðila, ekki lukkuriddara sem ekkert gera eða geta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2011 | 07:43
Framtakssjóður - framtak til góðs.
Framtakssjóður h.f. var stofnaður lífeyrissjóðunum, eftir mikla pressu á þeim, að taka þátt í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi eftir hrun. Markmið hans eru m.a:
- Fjárfest er í starfandi fyrirtækjum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll
- Lágmarksfjárfesting er 200 milljónir kr. Hámark í einstakri fjárfestingu er um 15% af hlutafjárloforðum hluthafa sjóðsins
- Hámark í einni atvinnugrein er 30% af hlutafjárloforðum hluthafa sjóðsins
- Fjárfesting er að jafnaði á bilinu 20-55% af hlutafé viðkomandi félags
- Stefnt er að skráningu félaga á hlutabréfamarkaði. Áætlað er að 90% af eignum sjóðsins verð skráð inn 3ja ára.
- Stefnt er að sölu félaga eigi síðar en 4-7 árum eftir einstaka fjárfestingu.
Inn í Framtakssjóð settu sjóðirnir 55 milljarða króna, heimild er til að auka hlutaféð í 90 milljarða. Það var öllum ljóst frá upphafi að lífeyrisstjóðirnir yrðu að fara varlega í fjárfestingum sínum. Ekki síst vegna mikilla tapa í hruninu. Til þeirra var hinsvegar litið sem sterkra aðila í endurreisn atvinnulífs í landinu.
Gengisfelling krónunnar 2009, setti fjölda heimila og fyrirtækja á hausinn. Tiltölulega góð fyrirtæki urðu á einni nóttu tæknilega gjaldþrota. Bankar og fjármálastofnanir sátu uppi með þennan vanda og það sem vantaði í öllum hornum var nýtt fé m.a. til að endurreisa þessi fyrirtæki. Það var því ekki að undra að litið væri til lífeyrissjóðanna.
Hluti af greiningu vandans á þessum tíma var sá, að þrátt fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki, sem væru alls góðs makleg, væri fljótvirkasta leiðin til að koma okkar atvinnulífi í gang og fjölga störfum, að byggja upp starfandi fyrirtæki. Það var einnig ljóst að bankarnir voru með á hendi risavaxið verkefni, að endurreisa allflest fyrirtæki í viðskiptum við þá.
Það verður að vega og meta starfsemi Framtakssjóðsins í þessu ljósi. Sjóðurinn sá hlutverk fyrir sig í þessu endurreisnarstarfi í samvinnu við bankana, eins segir hér að ofan. Hann kæmi inn með fjármagn og eignarhald til skamms tíma og seldi sig síðar út þegar aðstæður væru betri.
Þetta hlutverk sem Framkvæmasjóður tók að sér var ekki líklegt til vinsælda, frekar enn starf bankanna á þessu sviði. Þarna voru á ferð mjög viðkvæm mál, miklir hagsmunir og mikið af umdeilanlegum leiðum að velja.
Fjáfesting sjóðsins á sínum tíma í Flugleiðum vakti athygli og deilur en hefur skilað góðum árangri. Sýndi að ráðmönnum sjóðsins var fyllilega treystandi. Það þarf að virða það sem vel er gert. Stopp lífeyrissjóðanna á erlendum fjárfestingum, sem hefur verið hluti af áhættudreifingu þeirra, ýtir þeim á innlenda markaðinn. Það bera að óska þessum fjársterku sjóðum alls hins besta í fjárfestingum sínum, þörfin er brýn.
Bloggar | Breytt 1.12.2011 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2011 | 08:14
Duglegt fólk leitar sér að vinnu hvar sem hana er að fá.
Það er alveg ljóst að talsverður hópur fólks hefur leitað sér vinnu erlendis. Í hugum margra er þetta spurning um gleði eða sorg:
- Fjölskyldur sundrast,
- Þeir sem fara eru almennt duglega fólkið og vel menntað. Sérstaklega það sem hefur alþjóðlega menntun
- Kemur þetta fólk aftur er spurningin og óttinn.
Hin hlið málsins er:
- Þetta fólk situr ekki atvinnulaust, þyggur bætur, og mælir göturnar,
- Það margt hvert sendir peninga til Íslands,
- Það sem er í Noregi, lýsir því yfir að kaupmáttur á Íslandi þyrfti að tvöfaldast til að álitlegt sé að koma heim,
- Þetta fólk er að nýta möguleika sína, sameiginlegan vinnumarkað, betri lífskjör,
- Dvöl erlendis í skóla eða vinnu er ómetanleg fyrir þá sem hennar hafa notið.
Sveltur sitjandi kráka enn fljúgandi fær. Við megum ekki letja nokkurn þess að leita betri tækifæra, eða tala illa um þá sem velta fyrir sér flutningi. Það eina sem leggja verður áherslu á er að allir skoði málin vandlega og skipuleggi sín mál. Sem dæmi má nefna að til Noregs sækja ekki aðeins íslendingar, innstreymi fólks þangað er út ýmsum áttum og mikið af svíum flytur þangað.
Þeir sem flytja una ekki allir á hinum nýja stað, fólk getur verið óheppið, eða hefur ekki þá aðlögun sem þarf. Enginn á að taka það sem allsherjar ósigur, ef gamla landið togar og fólk flytur aftur heim.
Ísland verður að vera samkeppnisfært á hinum opna atvinnumarkaði Evrópu og heimsins. Okkur liggur á að skapa hér tækifæri fyrir okkar fólk, í bráð og lengd. Þar miðar alltof hægt, gamla sundurlyndisvofan er þar dragbítur eins og oft áður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.11.2011 | 08:22
Sókn allra þjóða eftir hagvexti.
Á fyrsta áratug nýrrar aldar höfum við einnig séð miklar sveiflur, þannig var hagvöxtur 2004 og 2005, 7% hvort ár fyrir sig. Of mikill hagvöxtur getur nefnilega valdið vandræðum í hagstjórn, verðbólgu, ef hann er umfram framleiðslugetu hagkerfisins, eða ekki er til staðar slaki í hagkerfinu.
Spá Seðlabankans um hagvöxt á þessu ári 2011 er 2,8%
Við útreikning þjóðar- eða landsframleiðslu eru mörg álitamál og niðurstaðan er ekki einhlítur mælikvarði á það hve vel efnahagslíf þjóðar eða lands gengur. Til dæmis ekki tekið tillit til vöru og þjónustu sem ekki er seld á markaði, tekjuskipting er ekki skoðuð og ekki er athugað hvort efnahagslífið leggur óhóflegar byrðar á umhverfið.
Hvað sem þessum vandkvæðum líður er stöðugt ákall um hagvöxt og ástæðan er:
- Hagvöxtur þýðir að kakan stækkar, það er meira til skipta,
- Hagvöxtur þýðir að með því að meira er til, er hægt að skipta stærri köku, en annars þarf að taka af einhverjum ef það á að láta annan fá,
- Hagvöxtur er draumur stjórnmálamanna, ef meira er til, er meira að gefa. Hagvöxtur hljómar vel í þeirra munni, hvar í heiminum sem þeir eru,
- Hagvöxtur er spurning um velmegun og er oft notaður sem velmegunarmælikvarði.
Leiðtogar flestra þjóða tala um hagvöxt sem sitt megin markmið. Einatt fylgir með að þessi hagvöxtur verði að byggja á aukinni verðmætasköpun og útflutningi. Hvert eiga þessar vörur og þjónusta nákvæmlega að fara í núverandi samdrætti Vestursins? Það þarf að finna kaupmátt einhversstaðar. Er mótorinn sem vantar mögulega í Asíu eða Kína?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Jón Atli Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar