Færsluflokkur: Bloggar
16.8.2011 | 08:15
Útrás, rót hins illa, eða öflun gjaldeyristekna.
Útrás er skammaryrði og ef þú varst útrásavíkingur, að ég nú ekki tali um einn af hinum 30, þá ert þú örugglega ekki góður maður.
Sá sem nefnir útrás er strax flokkaður sem draumóramaður, einhver sem ekki hafi enn læknast af 2007 veikinni. Það að ræða um útrás er því ekki uppbyggilegt og ég ætti strax að hætta þessum pistli mínum.
Í mínum huga snýst útrás um að nýta Íslenskt hugvit, nátturauðlindir og skapa gjaldeyri. Það má ekki með einhverjum öfgum drepa niður þennan vilja, heldur ber að hlúa að honum með öllum ráðum. Öll nýsköpun þarf fyrst og fremst þrennt:
- Nægilegt fjármagn,
- Víðtækan stuðning stórs hóps, sem talar upp þessa starfsemi og auglýsir hana hvar sem er,
- Nýsköpun byggir á frelsi og má ekki þvinga inn í einhvern ramma.
Það sem Ísland þarfnast í dag er aukin gjaldeyrissköpun í núverandi eða nýjum fyrirtækjum. Ef þetta getur sprottið úr okkar eigin jarðvegi, því betra, en erlend starfsemi eða samvinna við útlendinga þarf líka að eiga sér stað. Þessi starfsemi þarf að vera sem fjölbreyttust, iðnaður, þjónusta, verslun. Hvað sem öllu líður er margt að gleðjast yfir og það eigum við að þegar, hvar sem í flokki við erum. Tökum nokkur dæmi:
Bankastarfsemi: Var eitthvað að þeirri hugmynd, við gætum náð árangri í fjármögnun sjávarúvegsfyrirtækja á erlendri grund. Að við gætum fjármagnað orkuframkvæmdir, eins og t.d. jarðhitanýtingu, sem hluta af yfirburða þekkingu okkar á þessu sviði. Veitingarekstur: Einn af vinsælli
veitingastöðum höfuðborgarsvæðisins er Saffran. Annar aðaleigandi þessara staða er amerískur að uppruna. Hann ætlar nú að fara með þessa viðskiptahugmynd til Ameríku og starta 5 nýjum veitingahúsum á næsta 1,5 ári.
Þeir sem stunda viðskipti ( útrás ) frá Íslandi hafa hinsvegar fundið það á eigin skinni, hvað ferðir og uppihald er dýrt, m.v. stöðu krónunnar. Kostnaður við einfalda viðskiptaferð getur hlaupið í hundruðum
þúsunda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2011 | 07:40
Að fara vel með hlutina, reynsla kynslóðanna.
Það skiptir vissulega miklu máli að fá hærri laun og auka tekjur sínar. Það þekkja það hinsvegar allir eldri og reyndari, að það að fara vel með, og hyggja að útgjaldahliðinni, er besta leiðin til bættrar afkomu og ríkidæmis.
Þetta er einnig hægt að orða öðruvísi , þeir sem alla tíð ganga um með gat á vasanum eiga auðvitað
aldrei aur. Þessi einföldu sannindi, að fara vel með, eru hinsvegar ekki mikið í umræðunni. Það er hamrað á eyðslu að þig vanti nú þetta, gylliboðin hjóma endalaust og alið er á endalausum þörfuð, og að þú eigir þetta eða hitt skilið.
Hafir þú alist upp við sparsemi og nýtni, hefur þér verið gefin verðmætt veganesti út í lífið. Kynslóðin á undan minni, átti svo sem engra kosta völ, það voru þeir tímar að allt varð að nýta til að komast af.
Hugsið ykkur húsnæðisskort þess tíma. Gamlar kolageymslur voru nýttar sem íbúðarhúsnæði fram á stríðsárin 1940 og braggar fram um 1960.
Ef þú heldur eina einustu mínútu að þú getir ekki sparað, skaltu strax endurskoða þá afstöðu. Ég þekki fólk sem hefur sýnt mér hvað hægt er að gera með lítið milli handanna. Það líður engan skort og getur sparað.Vitandi um tekjur þess finnst mér þetta töfrabrögð.
Betri fjárhagsleg staða ræðst því ekki síst af útgjöldunum !!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.8.2011 | 10:51
Fasteignafélög og vinnureglur þeirra.
Fasteignafélög spretta upp eins og gorkúlur á haug. Bankar og fjárfestar stofna slík félög og nú vill Íbúðalánsjóður bætast í hópinn. Þessi félög eiga annað hvort atvinnu- eða íbúðarhúsnæði eða
hvorttveggja.
Ef þú skiptir við svona félag, er gerður leigusamningur, og í þessum samningi er einhverskonar verðtryggingaávæði. Þessir samningar eru eftir atvikum tímabundnir og í þeim eru uppsagnarákvæði.
Í stuttu máli má segja að leigusalinn tryggði sig í bak og fyrir, gagnvart breytingum á markaðsleigu og verðbreytingum. Ljóst er að þessi félög og vinnureglur þeirra festa enn í sessi verðtryggingu, þvert á yfirlýstan vilja stjórnvalda um afnám verðtyggingar.
Hlið leigutakans er að tekjur hans hafa almennt lækkað og fasteingaverð hefur verið á niðurleið, sérstaklega á atvinnuhúsnæði. Leigutakar í atvinnurekstri hafa því séð húsnæðiskostnað sinn sem hlutfall af tekjum hækka ár frá ári, meðan fasteignafélögin tryggja sig.
Leigutakar í atvinnurekstri geta ekki endalaust velt hækkunum, launa- og húsnæðiskostnaðar út í verðlagið. Ekki má gleyma ríkinu og fádæma hugmyndaflugi þess í aukinni skattlagningu. Það hafa heldur aldrei þótt mikil búhyggindi að blóðmjólka kúna. Þessir aðilar gefast á endanum upp og hætta, öllum til tjóns.
Hugmyndafræði fasteignafélaganna er m.a. stærðarhagkvæmni og geta til að hugsa til langs tíma.
Stjórnendur þessara félag þurfa því að geta stigið ölduna með kúnnunum sínum í því ölduróti sem nú geisar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.8.2011 | 08:00
Er ný kreppa á leiðinni.
Ég held að það sé réttara að taka þannig til orða að kreppan frá 2008 er ekki búin. Einnig má orða þetta þannig, að hún var aldrei kláruð. Gífurleg verðmæti glötuðust í þessari kreppu. Nægir þar að benda á fasteignamarkaðinn og fasteignaverð, sem hefur fallið mikið og ekki séð fyrir endann á því falli, eins og t.d. í USA.
Eins og við upplifðum á Íslandi, þegar hulunni var lyft af stöðu okkar bankakerfisins, þá átti það sama við í öðrum vestrænum löndum. Reyndar var fjármálakreppan 2008 alþjóðleg, þrátt fyrir að margir telji upphaf hennar á Íslandi. Glansmyndin reyndist vera froða og ótrúleg misbeiting valds og áhrifa leit dagsins ljós. Okkar bankakerfi fór á hausinn, hægt var að moka flórinn, leið sem ekki var farin annarsstaðar, þar sem fjármálakerfinu var bjargað , mest með opinberu fé. Þrátt fyrir að gífulegu fjármagni væri varið í þessa björgun, var það einfaldlega ekki nóg. Það er að koma fram núna, hreinsunin í fyrstu umferð var ekki nægileg. Í efnahagslegu tilliti er miklu auðveldara að stækka enn minnka, sérstaklega ef þú ræður yfir peningaprentuninni.
Best væri fyrir alla að sú aðlögun sem þarf að verða gerist á nokkrum tíma. Bankar þurfa að afskrifa miklar fjárhæðir, þeir þurfa einnig að hreinsa til í kerfum ( derivatives ) sem þeir hafa búið til. Verðmat fyrirtækja þarf að vera í jafnvægi, og húsnæðisverð þarf að aðlagast greiðslugetu almennings. Ýmis ríki verða einnig að taka til hjá sér.
Í dag er einnig auðvelt að tala sig inn í kreppu. Endalaust tal og fjölmiðlaumfjöllun um vandamál og vesöld, getur auðveldlega leitt til kreppu. Traustið hverfur og fjármagnseigendur grípa til örþrifa ráða, sem aðeins magna vandann. Ekki er verið að tala um neina leyndarhyggju, heldur skilning á eðli hins opna hagkerfis, sem stýrist af væntingum og mati fjölmargra aðila. Ábyrgð þeirra sem um þessi mál fjalla er því mikil og að sú umfjöllun byggi á traustum upplýsingum og vönduðum gögnum.
Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2011 | 07:55
Flutningur verkefna til sveitarfélaga.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar sitja nú við gerð fjárlagafrumvarps næsta árs. Þar blasir við mikill vandi að þeirra sögn, ríkið þarf að skera niður.
Til að leysa þennan vanda hefur mönnum dottið það snjallræði í hug að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Hvernig það eitt og sér sparar eitthvað er venjulegu fólki fyrirmunað að sjá. Felist í
þessu hagræðing er allt gott um það að segja en þau rök eða útreikningar fylgja ekki með í umræðunni.
Sveitarstjórnir eiga að gjalda mikinn varhug við þessari umræðu. Reynslan varðar þennan veg, verið er að velta vanda fyrir á oft vanburða sveitarfélög, vandinn er aðeins fluttur til. Fjármagn sem fylgir
pakkanum frá ríkinu, er yfirleitt vanmetinn, mögulega ekki vísvitandi en í reynd.
Það vantar einnig klára hugsun í þennan flutning:
- Ríkið hefur viðkomandi málaflokk undir einum hatti. Yfirsýn ætti því að vera betri, kostnaður takmarkast við stöðu ríkissjóðs, en ekki þarfir. Allir fá jafn mikið eða jafn lítið. Flytjist málaflokkur til
sveiarfélaganna er þessi málaflokkur kominn á 70 hendur. Lög skulu nú túlkuð til hins ítrasta, og nú
standa vinir og félagar heima í héraði, andspænis hvor öðrum, og hver ætli menn að staða sveitarsjórnarmannanna sé í þessari baráttu, - Við flutning verkefna skapast sú staða að hagsmunaaðilar vilja nú fá meira. Ríkið hefur sakir blakheita ekki getað gert það sem átti að gera og hefur farið á ystu mörk í túlkun laga. Nú er lag að rétta á merinni,eftir langvarandi basl og píslargöngu hagsmunaaðila,
- Hjá ríkinu er enginn samanburður. Strax og málaflokkurinn er kominn til sveitarfélaganna, kemur upp staðan hjá sveitarfélagi X er þetta í fínu lagi, en hjá okkur Y er aldrei neitt hægt að gera.
Það vantar peninga í fjöldan allan af góðum verkefnum. Að flytja þau úr vinstri vasanum í þann hægri skapar enga nýja peninga. Umræðan um hagræðingu er oftast skálkaskjól meiri útgjalda og í flestum tilfellum ekki studd nokkrum útreikningum eða áþreifanlegum aðgerðum. Þannig eiga sveitarstjórnmenn ekki að láta plata sig einn ganginn enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2011 | 07:53
Sameiginlegur vinnumarkaður - blessun eða böl.
Hluti af EFTA samningi okkar er aðlid okkar að sameiginlegum vinnumarkaði EFTA og ESB ríkjanna.
Á uppgangstímum síðasta áratugs, virkaði þetta þannig að hingað flutti erlent vinnuafl í stórum stíl. Þegar botninn datt úr uppganginum, snérist dæmið við. Nú liggur straumurinn út og einhver gæti sagt, þvílík guðsblessun, að framtakssamt fólk á einhverja kosti, heldur enn kúldrast hér heima án atvinnu og þiggjandi bætur. Í stöðu okkar í dag njótum við nú samningsins.
Leið okkar virðist liggja til Noregs, en okkar fólk dreifist víða. Mjög áhugaverð er umræða um atvinnumöguleika okkar í Kanada.
Hvað um það að þetta góða fólk, sem nú vinnur erlendis, sé okkur glatað og komi ekki aftur til Íslands. Vissulega er sú hætta fyrir hendi og við þekkjum fyrri bylgjur, eins og flutningur iðnaðarmanna til Svíþjóðar um 1970. Margir þeirra settust þar að til framtíðar. Margar stéttir eru í þeirri stöðu að menntun þeirra er alþjóleg. Tæknilega er vinnumarkaður þessa fólks - heimurinn.
Læknar og tæknumenntað fólk kemur hér upp í hugann.
Þannig má segja, að fyrir Ísland sé eina leið okkar til að halda í okkar góða og vel menntaða fólk, að hér höfum við eitthvað að bjóða, sem það sækist eftir. Aðra vörn höfum við ekki nú eða í framtíðinni. Fjöldi fólks hefur einnig búið erlendis um lengir eða skemmri tíma. Þetta fólk hefur séð heiminn og alið upp börn sín, sem alheimsborgara, sem hafa víðari sýn en að nafli alheimsins sé Ísland.
Ég vona svo að á endanum skili allt þetta góða fólk sér aftur heim til okkar á Fróni. Þekki sjálfur þá sterku taug sem togar okkar sífellt hingað. Hvað það iljar um hjartarætur, þegar lent er í Kelfavík, og flugfreyjan, segir í hátalarann, " velkomin heim klukkan er... "
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2011 | 07:42
Þjóðin á að eiga einn ríkisbanka.
Það er stjórnmálaleg sannfæring sumra að ríkið eigi ekki að vera að vasast í rekstri sem einkaaðilar geti séð um. Jafnframt eru ýmis fræðileg rök fyrir því aðeinkarekstur sé hagkvæmari en ríkisrekstur.
Næsta álitamál um bankarekstur er hvort, hann lúti sömu lögmálum og annar rekstur, eða lögmálinu um hámarksarð til eigenda sinna. Þarna þarf augljóslega í umræðunni að skilja á milli viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi. Fjárfestingabankar eru í reynd allt öðruvísi fyrirtæki en viðskiptabankar og almenn lögmál rekstrar eiga við um slíka banka. Viðskiptabankar og sparisjóðir eru í eðli sínu öðruvísi fyrirtæki.
Fjármálakreppa heimsins, og fall íslensku bankanna 2008, hefur sýnt okkur svart á hvítu eðlismun bankastarfsemi. Lærdómur þessarar sögu er að bankar eru ekki nein venjuleg fyrirtæki. Hlutafélög - fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð, sem lifa og deyja í ölduróti viðskiptalífsins. Aldeilis ekki, reikningur vegna reksturs þeirra og áhættusækni, hefur verið sendur almenningi, með margvíslegum hætti, þó helst í gegnum hækkaða skatta og auknar álögur. Fyrirkomulag bankastarfsemi er því ekki einkamál viðskiptalífsins, alla vega ekki meðan beint samband er við buddu almennings. Í dag eru allar bankainnstæður á Íslandi tyggðar af sameiginlegum sjóði okkar ríkissjóði.
Peningalegur sparnaður fólks í bönkum eða lífeyrissjóðum eða hvar sem hann er verður að vera tryggður. Eigendur þessa sparnaðar verða að geta treyst þessum vörsluaðilum. Eigandi fjármagnsins getur að sjálfsögðu tekið áhættu að vild, en með því að leggja fé inn í banka, er hann í þeirri trú að hann sé ekki að taka neina áhættu. Hann verður að geta treyst þessu, annars verður enginn sparnaður til.
Þegar íslensku bankarnir voru einkavæddir 2003, voru miklar væntingar tengdar þeirri hugmyndafræði og nýjum eigendum. Staða mála 2008 var með sama hætti stórkostlegt áfall, hugmyndafræðilega og rekstrarlega.
Lærdómurinn að mínu viti er að ekkert er annaðhvort eða. Við eigum að blanda saman rekstrar- og eignarhaldsformum. Oftrú á stærðarhagkvæmni var augljós. Þegar allt var komið í kalda kol var aðeins eitt afl til bjargar, og sem allir biðluðu til og það var ríkið. Okkar sameiginlega eign og sjóður, auk sameiginlegs sparnaðar fjöldans - lífeyrissjóðirnir.
Varðandi bankarekstur, þá á ríkið - við að eiga einn viðskiptabanka. Honum á að vera faglega stjórnað, þar eiga stjórnmálamenn ekki að raða sér á jötu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2011 | 08:42
Skuldavandi, þegar útgjöld og ábyrgð fara ekki saman.
Það er of nauðsynlegt að einfalda hlutina til að skilja þá. Vandi evrulandanna er að
stjórnmálamenn hafa ekki stjórnað löndum sínum af ábyrgð. Þeir vilja nú velta vandanum yfir á aðrar þjóðir í myntbandalaginu. Þeir sem eiga að borga kalla eftir aukinni ábyrgð þessara aðila og pólitískum leiðum til að koma í veg fyrir áframhaldandi óstjórn.
Í USA er sami vandi upp á borði. Sum ríkin hafa sogað til sín peninga langt umfram skatttekjur og alríkið á að borga. Alríkið á að standa undir, allskonar þjónustu og bjarga heiminum í leiðinni, tekjur til þessa eru ekki til og allt fjármagnað með lánum. Ábyrgðarleysið því í báðum herbúðum. Til viðbótar er gríðarlegur uppsafnaður skuldavandi alríkisins.
Á Íslandi hafa mörg sveitarfélög farið offari í fjárfestingum og skuldasöfnun. Þjónusta hefur verið flutt frá ríki til sveitarfélaganna en skatttekjur ekki fylgt með. Þessi stefna hefur verið undir merkjum þess að sveitarfélögin séu betur til þess fallin að sjá um nærþjónustu við borgarana. Þetta hljómar vel, en reyndin er sú að t.d. í skólamálum hafa útgjöld stórlega aukist umfram markaðar tekjur. Sveitarfélögin hafa ekki staðist þá pressu, sem ýmis sérhagsmunaöfl hafa beitt þau, hafa í mörgum tilfellum reynst, auðvelt fórnarlamb Þegar ríkið hækkaði alla skatta í topp, var í reynd ekkert eftir fyrir sveitarfélögin nema niðurskurður það var ekki hægt að velt meiri yfir á fólkið.
Fari ekki saman pólitísk ábyrgð og fjármál er stefnt í vanda. Dæmin hér að ofan sýna okkur þetta. Þessi dæmi sýna okkur einnig skort á yfirsýn og tækifærismennsku stjórnmálanna, þar sem það virðist gilda að lifa af, hvað sem það kostar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2011 | 07:55
Stjórnlagaráð og nýjar hugmyndir um kosningar til Alþingis.
Í tillögum ráðsins um þetta efni er vissulega að finna áhugaverðar hugmyndir. Mögulega ekki að furða þar sem innanbúðar í ráðinu er einn helsti kosningaspekingur þjóðarinnar.
Það er alveg tímabært að jafna vægi atkvæða milli kjördæma eins og ráðið leggur til. Flest rök fyrir því að hafa þetta öðruvísi eru úr gildi fallin. Ef tekið er mið af niðurstöðum kosninga 2009 þýðir jöfnun eftirfarandi m.v. núverandi kjördæmi:
Fjöldi þingamanna nú Eftir jöfnun Mismunur.
Reykjavík, 22 24 +2
Suðvestur, 11 16 +5
Norðvestur, 10 6 -4
Norðaustur, 10 8 -2
Suður, 10 9 -1
Samtals 63 63
Haldið er í kjördæmin, en landið ekki gert að einu kjördæmi, sem ég tel farsæla ákvöðrun, en þau eru nú 6. Ráðið bendir á að þau gætu verið alls 8, skynsamlegur varnagli, þar sem landsbyggðarkjördæmin eru á mörkum þess að vera of stór.
Framboð geta verið lands - eða kjördæmaframboð, góð hugmynd, sem leysir ákveðinn vanda minni framboða.
Athygli vekur, að ekki lagt til að fækka þingmönnum, og ekkert er rætt þröskulda eða lágmörk fyrir ný og eða minni framboð.
Hlutfallskosning er í heiðri höfð en gerð er tillaga um mögulegt persónukjör. Vilji ráðsins er hér ljós, en útfærslan látin bíða seinni tíma útfærslu, eins og jöfnun kynja á Alþingi.
Ráðið leggur hér megin línur, stór álitamál bíða útfærslu, og þá í nýjum kosningalögum.
Hugmyndir ráðsins um hina blönduðu leið persónukjörs og hlutfallskosninga, er vægt til orða tekið umdeild og snýr m.a. að starfi stjórnmálaflokka og áralöngum venjum í kosningaframkvæmdinni. Þessi mál hafa lítið verið mikið rædd og reynslan kennir okkur að fara okkur hægt í allar breytingar. Hvað sem líður blessaðri tækninni, mun persónukjör auka flækjustig framkvæmdar og talningar verulega.
Stjórnlagaráð hefur haft til meðferðar flókin og umdeild mál. Ráðsmenn hafa augljóslega lagt sig fram um að vinna faglega og eiga heiður skilið fyrir starf sitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2011 | 11:20
Mærudagar á Húsavík.
Var á Húsavík á mærudögum ( 22-24 júlí s.l. ) í góður yfirlæti og veðurblíðu. Var þarna í frábærum félagsskap, " lundabagga", sem eru félagar frá háskólaárum í Lundi í Svíþjóð. Inn í hópinn er svo að koma ný kynslóð, sem eru börn okkar, en með í för var dóttir mín og verðandi tengdasonur.
Upphaflega átti hópurinn að fara til Vestmannaeyja en skipulagi var breytt á síðustu stundu og stefna sett á Húsavík. Við sáum ekki eftir þeirri ákvörðun.
Kona mín er ættuð frá Húsavík. Við höfum því oft komið þangað í gegnum árin. Húsavík er að breytast mikið og að verða ferðamannabær í háum klassa.
Glæsileg aðstaða hefur byggst upp kringum höfnina, með hvalaskoðun í aðalhlutverki. Höfnin er því miðpúntur athafna, þó ýmsiulegt annað sé að sjá í bænum. Stutt er í náttúruparadís, eins og Mývatn og Ásbyrgi.
Mæra, er orð Húsvíkinga yfir sælgæti og hefur nú orðið landsþekkt með tengingu við þessa daga.
Bærinn var frábærlega fallega skreyttur og hafa allir lagst þar á eitt, því hvar sem maður fór voru hús garðar og bílar skreyttir. Augljólega mikil vinna í þetta lögð og samstaða bæjarbúa til fyrirmyndar. Góðaveðrið mótaði svo alla umgjörð, gat ekki verið betra.
Fyrir okkur sem höfum komið reglulega til Húsavíkur um langt árabil, er breyting á bænum til hins betra augljósar og gleðilegar. Til hamingju Húsvíkingar !!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Jón Atli Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar