Færsluflokkur: Bloggar

Kjarabarátta lögreglunnar.

Ég er uppalinn í þeim anda að bera virðingu fyrir lögreglunni. Jón Benediktsson lögreglumaður á Akureyri var vinur pabba míns. Hann gekk um götur Akureyrar í flotta búningnum sínum og var það sem kallað er sýnilegur. Hvort hann var ánægður með launin sín veit ég ekki, allavega ræddi hann það ekki opinberlega. Ég er alveg viss um það hann hefði talið það skaða stöðu og virðingu síns embættis.


Í dag er kjarabarátta lögreglunnar fjölmiðlabarátta sem er reglulega heima í stofu borgaranna. Hún hlýtur að vera þar vegna þess að við eigum að taka afstöðu með okkar lögreglumönnum, gegn vondum köllum hjá ríkinu, sem ekki skilja starf lögreglumannsins. Lögreglumenn vilja ekki hlíta úrskurði kjaradóms, þó hann sé „ dómstóll kjaradeilna „


Sjálft starf lögreglumannsins hefur einnig ratað heim í stofu til okkar. Þeir lýsa því hvað þeir mega þola í sínu starfi. Það er ekki falleg lýsing og ef ég ætti að ráða syni mínum eða dóttur um val á starfi, þá væri ekki starf lögreglumannsins efst á þeim lista.


Þannig er boðskapurinn sem ég fæ frá lögreglumönnum,  þetta er skemmtilegt starf, og ef ég fæ meira borgað þá skal ég láta berja mig og lemja og kasta í mig málningu til að verja Alþingishúsið.
Ég vona svo sannarlega að sú staða komi ekki upp að enginn vilji sinna starfi lögreglumannsins. Ég veit líka að lögreglumenn njóta mikillar samúðar borgaranna í kjarabáráttu sinni.


Ég held hinsvegar að lögreglumenn hafa alveg misst tökin á kjarabaráttu sinni, ef þeir halda að áfram núverandi aðferðum sínum. Þeir ætla ekki að tala niður starf sitt, en gera það samt. Nýjar tölur um raunlaun þeirra segja aðra sögu en þeir vilja lýsa. Þeir verða að hlýta leikreglum samninga og þess kerfis sem um þau mál fjallar. Þeir eru einmitt þjónar kerfis laga og réttar og tak af eðlilegum ástæðum ekki léttilega á því ef við borgararnir brjótum lögin. Verða þeir þá ekki sjálfir að sýna gott fordæmi?


Er eitthvað sérstakt að frétta af sérstökum saksóknara.

Nei það er ekkert af hans störfum að frétta, nema þá að fyrir hans embætti vinna í dag um 70-80 manns.
Fjölmiðlar er blessunarlega löngu hættir að spyrjast fyrir um hans störf, enda má maðurinn ekkert segja, gæti spillt rannsóknarhagsmunum.
Nú eru að verða 3 ár liðin frá hruni og meint brot sakborninga gætu verið ennþá eldri í tíma. Allt rykfellur þetta mál fljótt, skyldu sakborningar t.d. geyma heima hjá sér gögn, sem þeim kæmi mjög illa ef fynndust. Varla !!
Um 100 manns hafa stöðu grunaðra, hjá sérstökum. Þessi hópur getur ekki átt náðuga daga. Hver vill ráða  þetta fólk í vinnu, hvernig getur það og fjölskyldur þess framfleytt sér, hvernig líður þessu fólki, að hafa þessi mál hangandi yfir sér. Nú gæti einhver sagt, hvers vegna að hafa samúð með þessum aðilum, þessum aðilum sem settu okkur á hausinn. Alls ekki óeðlileg spurning, en gleymum því ekki að engin sök hefur verið sönnuð á hendur þessum aðilum, þeir gætu þess vegna verið blásaklausir, en sitja samt í „ fangelsi" hins grunaða.
Við íslendingar getur ekki stært okkur af löngum afrekalista, þar sem „ hvítflibba skúrkar" hafa verið settir á bakvið lás og slá. Olíusamráðsmálið, hvar er það, Baugsmálið og fyrstu kærur í því máli voru ekki skiljanlegar nokkrum manni og svo má áfram halda.  Það sannast mögulega að armur réttlætisins, vinnur seint er vinnur þó, eitthvað eru þessir 80 að gera.
Við erum þó klár á einu og það er að við búum í réttarríki. Við búum örugglega í réttarríki smámálanna en hvað um þau stóru? Í málum fjármálahrunsins erum við að falla á tíma. Við erum að falla á tíma í þeim skilningi, að réttlætisfilfinningu fólks er misboðið. Þegar eitthvað gerist eru allir búnir að gleyma glæpnum, skúrkurinn er orðinn heiðarlegur maður og vinnur  erlendis. Það eru komnir nýjir skúrkar og menn segja í næsta jólaboði, ég var nú aldrei trúaður á að neitt kæmi út úr þessu !!  Hún Eva Joly, var nú samt svakalega klár kelling.

Glæsileg sjávarútvegssýning í Kópavogi.

Ekki fer á milli mála að þessi sýning er alltaf stórviðburður í borgarlífinu. Á sýningunni og í öllu því upplýsingaefni sem dreift er þar, er að fá frábært yfirlit yfir stöðu þessarar greinar.
Það kemur vel fram að það  er engin stöðnun í þessari grein. Um það má svo deila hvort þróunin gæti verið hraðari, ef allt umhverfi greinarinnar væri ekki í uppnámi.
Sjávarútvegssýningin færir einnig sjávarútveginn nær fólkinu. Almenningur sér á sýningunni um hvað þessi grein snýst. Þetta á ekki síst við um það að sjávarútvegur er atvinnugrein landsbyggðarinnar. Sýningin færir íbúum höfuðborgarsvæðisins  þessa starfsemi á þeirra heimavöll og gerir hana þeim sýnilega.
Sjávarútvegssýningin er einnig fjölmennast fundur þeirra sem starfa á greininni. Kunningi minn sem er sjómaður sagði að það sem hann sæi best við sýninguna væri að hitta vini og kunningja og ræða sameiginleg áhugamál.
Mér finnst alltaf jafn gaman að því að upplifa þá grósku sem er í þessari grein. Tæki og tól er sífellt verið að bæta og breyta og nýjungar koma fram. Fyrir okkur sem munum eldri búnað er þetta ekkert minna en ævintýri.
Ég óska öllum sem að þessu stóðu til hamingju. Einnig þeim sem vinna við þessa grein óska ég alls hins besta. Þó ég sé aðeins ein rödd er ég hreykin af þeim dugnaði og staðfestu sem fólk í þessari grein sýnir.

Drekasvæðið - lottóvinningur - eða raunveruleiki.

Þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í olíuleit hafa ekki farið varhluta af hækkandi tilkostnaði. Reyndar mótast allt í olíubransanum af miklum kostnaði. Að bora eina tilraunaholu á Drekasvæðinu kostar 5- 6 milljarða.  Til að finna olíu gæti þurft að bora nokkrar og þó fyndist olía þá er alveg óvisst að hún sé í vinnanlegu magni. Áhættan er því gífurlega.
Í olíumarkaðnum í dag er alls óvíst að nokkur taki slíka áhættu. Olíuleit í Norðursjó er mjög dýr og mjög erfitt að fá peninga  til leitar þar. Þó er það svæði vel þekkt.
Staðreyndin er að aðrir ódýrari kostir bjóðast til olíuvinnslu og á meðan það er, munu alvöru aðilar ekki koma inn á Drekasvæðið.
Eru þá einhverjir kostir  í stöðunni fyrir okkur:?
  • Bíða og vona að tíminn og olíverð vinnu með okkur. Spurning um 5-10 ár hið minnsta,
  • Ríkið stofni olíufélag, mögulega með öðrum fjárfestum. Tilgangur félagsins væri að komast lengra með vitneskju um svæðið,
  • Ríkið hefði forgöngu um samvinnu við Noreg, þar sem svæðum þjóðanna væri slegið saman og norðmenn sæu um rannsóknir. Íslendingar fengju einhvern um samin minni hlut af ábata,
  • Leitað væri að samstarfsaðila um svæðið og kostnaði skipt. Vanda þarf val á þessum aðila.
Mesta hættan nú er að einhverjir lukkuriddara komi, sem ætlar einvörðungu að helga sér þetta svæði, en ekki að gera neitt. Honum takist það með einhverjum klækjum.
Það hefði verið miklu skemmtilegra, að sagan um fátæku stúlkuna ( Ísland ) sem giftist ríki prinsinum, og átti með honum börn og buru, ætti hér við, en eins og við vitum gerist sú saga aðeins í ævintýraheimi.

Þú selur það í búðinni sem fólk vill kaupa.

Til hvers að eiga búð, með góðum vörum að þínu áliti, enn enginn vill kaupa neitt. Þú verður einfaldlega að selja það  í búðinni sem fólkið vill kaupa.
Það  er t.d ljóst að sá partur dagblaða og netmiðla er fjallar  um frægt fólk, fer stækkandi.  Enginn vafi er á því að slíkt efni er afar vinsælt.  Sérblöð af sama toga seljast eins og heitar lummur.


Fræga fólkið segir frá því að mikið af þessum skrifum sé bull og vitleysa.  Þessa svokölluðu fréttir séu hreinn spuni án nokkurra tengsla við raunveruleikann. Reyndar er þessi dans fræga fólksins og slúðurblaðanna, dásamlegur farsi, þar sem báðir þurfa á hinum að halda. Sá frægi lifir á umræðunni.  Þegar leikurinn gengur of langt í spunanum verða stjörnunarnar að stíga á bremsu, fara svona í eitt eða tvö meiðyrðamál, til að setja mörk.
Fáránleiki þessar frétta, eða eigum við að segja skorts á fréttagildi, nær ákveðnum hæðum. Tökum nokkrar fyrirsagnir.

  • Söngkonan Britney Spears, 29 ára, hljóp um vopnuð ásamt unnusta sínum, Jason
  • Sátt við líkama sinn,
  • Bíddu var hún ekki í þessu í síðustu viku?
  • Engin smá breyting á minni.

 Netmiðlarnir passa vel inn í þessa fréttamennsku með hraða sinn og myndir. Ég segi aftur þetta virðist vera afskapleg vinsælt efni og andlegt fóður. Markaðurinn ræður ef þetta er það sem hann vill, þá á að gefa honum það !!

Björgunarsveitirnar - hugvekja -þakklæti.

Björgunarsveitirnar og starf þeirra er eitthvað sem seint verður fullþakkað. Þessi hópur úrvalsfólks, sem mannar þessar sveitir, og fórnar tíma sínum og kröftum í þágu okkar allra, verður seint oflofaður.
„ Starfsemin miðar að því að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Í þeim tilgangi er öflugur hópur sjálfboðaliða 18.000 félaga til taks ef út af bregður, á nóttu sem degi, allt árið um kring."
Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Á afrekskrá þessara samtaka er:
„ Fyrsta björgunarskipið, fyrsta björgunarþyrlan, Tilkynningaskylda íslenskra skipa og Slysavarnaskóli sjómanna eru aðeins örfá þeirra framfaraspora sem Slysavarnafélagið Landsbjörg og móðurfélög þess hafa stigið, landsmönnum til heilla."
Þegar maður hugsar til þess að þessar sveitir væru ekki til, má spyrja hvað þá. Upp í hugann koma ýmsar tilkynningar:
  • Leitað að rjúpnaskyttu, sem varð viðskila við félaga sína,
  • Leitað er að erlendum ferðamanni, sem hugðist fara ...
  • Mikið fárviðri gengur nú yfir landið. Björgunarsveitir hafa verið uppteknar við að forða að þök fjúki af húsum, bátar slitni frá bryggju, ...
  • Björgunarsveitarmenn hafa aðstoða lögreglu við löggæslustörf...

Starf björgunarsveitanna er sannarlega margbreytilegt og þakklæti þeirra sem njóta hjálpar sveitanna er auljóst. Það eitt hlýtur að vera gefandi fyrir þá sem vinna þetta sjálfboðaliðastarf.

Það er ástæða til að gleðjast yfir því sem vel er gert og það á sannarlega við um starf björgunarsveitanna. Við, fólkið í landinu, þurfum að standa við bakið á þessu starfi, bæði í anda og fjárhagslega.


Mesta áhætta fyrir fjárfesta á Íslandi - landið í hæsta áhættuflokki.

Tryggingafélagið AON hefur sett Ísland í hæsta áhættuflokk. Rökin eru:
1. Hætta á pólitískum afskiptum,
2. Verkföll og óeirðir,
3. Mögulegt greiðsluþrot ríksins,
4. Gengisflökkt.
Þrátt fyrir að glöggt sé gests augað og við höfum ekki alltaf gætt að okkur er þetta mat AON og áhættuþættir ekki eitthvað nýtt í okkar umræðu.
Almenn má segja að alþjóðlegir fjárfestar eiga ekki sérlega náðuga eða auðvelda daga. Rifjum upp:

  • Ástandið á evrusvæðingu er ekki sérstaklega áhugavert,
  • Ástandið á dollarasvæðinu er heldur ekki áhugavert. Síðustu tillögur Obama benda til að í USA sé mikill vandi og tiltektar þörf,
  • Fyrir vesturlanda fjárfesta er Asía langt í burtu, annað menningarsvæði og framandlegt.
Fyrir fjárfesta með peninga er því að mörgu að hyggja og óöryggi mikið. Hækkandi gullverð lýsir betur enn nokkuð stöðunni og að peningarnir sækja í þennan trausta miðil. Fyrr á tímum grófu menn gullpeninga í garðinum sínum, en þá voru ræningjar á ferð. Ræningjar nútímans nota aðrar leiðir, m.a. verðbólguna til að ræna fé almennings.
Þegar grannt er skoðað er Ísland því ekki svo slæmur fjáfestingakostur. Margir útlendingar eru líka að skoða hér kosti. Það sem einkennir fjáfesta í dag er vandaðri vinnubrögð og varkárni. Við höfum raunverulega ýmislegt að bjóða þessum aðilum. Fyrst og fremst þurfum við að tala kjark í okkar eigin fjárfesta og nota digra sjóði banka og sjóða til fjáfestinga.  Trúum við ekki sjálf á okkar möguleika, munum við aldrei selja þá kosti til annarra. Góð uppskriftin í fjárfestingum er samstarf innlendra og erlendra fjárfesta.  Staðarþekking og ný sýn og tækni erlendra aðila og fyrirtækja er góð blanda.
Eins og sést á upptalningunni hér að ofan um áhættuþætti er mest vandi okkar heimatilbúinn - sundurlyndisvofan.

Hvalveiðar, atvinnuvegur eða trúarbrögð.

Það er ekki hægt annað enn dást að þrautseigju og dugnaði forráðamanna Hvals h.f. og reyndar annarra hvalveiðimanna. Þetta fyrirtæki hefur verið í stefni baráttu fyrir hvalveiðum um langa hríð. Eitthvað venjulegt fyrirtæki og einhverjir venjulegir menn væru fyrir löngu búnir að gefast upp. Margt hefur verið rætt og ritað um þessi mál og spurningum velt upp:

  • Er verið að fórna meiri hagsmunum íslendinga fyrir minni,
  • Eru þessar veiðar sjálfbærar,
  • Er einhver markaður fyrir hvalaafurðir,
  • Eru hvalveiðar ekki trúarbrögð og kreddur, fámenns hóps gróðapunga,
• Hvernig dettur einhverjum  í hug að drepa „ keikó „ þessi stóru spendýr sem synda friðsöm í hafinu.

Ein hlið þessara mál er almenn afstaða íslendinga sjálfra til hvalveiða. Sé þjóðin  eða meirihluti hennar almennt á móti þessum veiðum, er fátt um varnir fyrir þessa atvinnugrein. Til þessa hefur hinsvegar mikill meirihluti stutt þessar veiðar.

Sjálfbærni veiðanna er í sjálfu almenn og skynsamleg forsenda. Sú spurning flækist hinsvegar við þá staðreynd að aðalmarkaður afurðanna er í Japan. Japanir hafa verið beittir miklum þrýstingi að kaupa ekki þessar vörur, flutningskostnaður er mikill og allt reynt til að torvelda flutningana. Venjulega markaðsaðstæður hafa því ekki átt við um þessar vörur og krafa um sjálfbærni því marklaus. Atvinnugreinin er einfaldlega í herkví andstæðinga hvalveiða.

Við íslendingar erum fiskveiðiþjóð og lifum af því að nýta auðlindir okkar í þessu tilfelli hafið. Krafan um bann við hvalveiðum gengur þvert á þessa nýtingu sem kalla má sjávarbúskap. Þetta er spurning um sjálfsákvörðunarrétt okkar og heildarhagsmuni í okkar sjávarútvegi. Ég held að flestir sanngjarnir menn sjái þetta með sama hætti.

Við verðum hinsvegar að búa við þá staðreynd að margir eru á móti þessum veiðum. Þessir aðilar munu beita sér gegn okkur og nota tæki úr verkfærakistur mótmælenda. Það nýjast í þeim efnum kemur frá USA og Obama forseta.

Baráttan um hvalveiðar hefur staðið í nokkra áratugi. Ný skip til þessar veiða  í norðurhöfum hafa ekki verið byggð í áratugi. Ný landvinnsla verður ekki byggð. Atvinnugreinin á því á brattan að sækja og hvílir í reynd á herðum einkafyrirtækja.  Öll rök okkar fyrir þessum veiðum standa þó óbreytt. Hvernig viljum við höndla þessi mál í mögulega breyttri stöðu næstu ára.


Eftirlitsskylda fjölmiðla - fjórða valdið.


Það er til siðs að deila á fjölmiðla fyrir að sinna ekki eftirlitsskyldu sinni. Fjölmiðlar eiga að halda úti rannsóknarblaðamennsku, veita aðhald, viðhafa málefnalega ganrýni, ef ekki er þeim legið á hálsi fyrir að standa sig ekki.
Ég velti fyrir mér í þessum pistli hvort þetta er réttmætt og ef þjóðfélagið gerir þessar kröfur, hvort þessir miðlar geti staðið undir þessu.
Við eigum einn opinberan fjölmiðil RUV, þar sem mögulega má gera slíkar kröfur, enn annars starfa á þessum markaði,  fyrirtæki, sem verða að lúta lögmálum fyrirtækjamarkaðarins, þau verða að  vera rekstrarhæf, sýna hagnað og helst að greiða eigendum sínum arð.
Hvar stendur það skrifað að við borgararnir getur gert einhverjar kröfur á þessi fyrirtæki um að vera augu okkar og eyru og að vera fjórða valdið. Treysti einhver á þetta er sá hinn sami að fá falskt öryggi.  Tökum dæmi. Heldur einhver að fjölmiðlakóngur heimsins  Rubert Murdoch, sé eitthvað annað enn gróðapúngur, sem sækist eftir áhrifum. Heldur einhver að hann sofi ekki yfir ranglæti heimsins og beiti áhrifum sínum til að koma upp um svik og pretti, borgurum heimsins til góðs.  Ég held varla.
Allir fjölmiðlar verða að feta vandrataða slóð, skemmtanagildis að birta eitthvað krassandi, halda vinsældum. Ef ekki, lifir sá fjölmiðill ekki lengi. Of mikil gangríni og nöldur er leiðinlegt til lengdar, selur tæplega í flóru dagsins í dag.
Það hlítur því að vera öllu hugsandi fólki áhyggjuefni, að hinir einkareknu fjölmiðar geta ekki lifað, nema „ góðir menn „ sprauti í þá peningum með reglulegum hætti. Þetta fé er ekki sett í fjölmiðlarekstur á Íslandi til að græða á því. Það er ekki greitt til að vera fjórða valdið, það er greitt til að öðlast  „ völd og áhrif „.
Þeir sem kaupa sér þetta vald eru jafnframt samtaka í því að fela þetta vald. Enginn kannast við að hafa þetta vald, þess er valdlega gætt að engin lög um fjölmiðla séu brotin.  Stundum skýtur þetta vald hinsvegar upp kollinum, enn hverfur jafnharðan.
Mögulega eigum við að gleðjast yfir því að haf þó þá fjölmiðla sem við höfum og góðu mennina okkar.  Sú hugsun að hafa aðeins RUV, þó gott sé, er ekki spennandi.  Ef við ætlum þessum miðlum hinsvegar eitthvað sérstakt hlutverk í almannaþáu, er ástæða til að vera stöðugt á vaktinni.


Ellefti september 2001 - örlagadagur.

Þessi dagur 11. September 2001,  var skelfilegur dagur í sögu Bandaríkjanna. Ástæða er til að votta innilega samúð þeim er um sárt eiga að binda vega þess sem þá skeði.  Þennan dag var „ orrustan „ háð á heimavelli í USA.
RUV var með þátt um þessi mál á gufunni, það er stríð USA - heimsins gegn hriðjuverkum.  Sú mynd sem dregin er upp í þessum þætti er ekki falleg. Mér dettur í hug samlíkingin, að skjóta flugu með fallbyssu. Baráttan gegn hriðjuverkum tók á sig þá ýktu mynd, að hún varð barátta við múhameðstrú og það fólk sem þá trú hefur hvort það var í USA eða annarsstaðar. Al qaeda varð óvinur númer eitt, þær þjóðir sem gátu tengst þeim, raunverulega eða ímyndað voru óvinurinn.  Innrásin í Íraq var eitt skrefið í herferðinni, málatilbúnaður sem í reynd var byggður á lygum.  Fangar voru pintaðir, en þar sem það var bannað í USA var það gert annarsstaðar, og þeim flogið um heiminn þveran og endilangan. Mannréttindi voru ekki hátt skrifuð við meðferð þessara fanga.

Safnað var ótrúlegu magni af upplýsingum um einstaklinga og félagasamtök, allt til að greina sauðina frá höfrunum.  Peningaflæði var ítarlega kortlagt, til að hindra kaup á vopnum og búnaði.  Tilgangurinn skyldi helga meðalið.
Í umræddum þætti voru leidd rök að því að árangur alls þessa væri í hæsta máta umdeilanlegur.  Ef sá árangur var einhver, var svo hin hliðin, að USA og bandamenn þeirra fóru í stríð í Íraq og Afganistan, þar sem fórnað var mannslífum, sem gera 11. september að heldur smávægilegum atburði.  Engar minningaathafnir eru fluttar til heiðurs þessu fólki, hermönnum eða óbreyttum borgurum.  Ef eitthvað er, er þessum málum haldið leyndum, það er óþægilegt að horfast í augu við veruleikann.


Sú saga sem rakin var í þessum þætti,  er stórveldinu USA og meðreiðarsveinum þeirra til mikils vansa. Spyrja má höfðu þessir aðilar sjálfir búið til stöðu sem hitti USA fyrir 11. September?  Nú skal það einnig fúslega játað að hægt er að segja allar sögur frá mismunandi sjónarhornum.
Mér finnst samt lærdómur þessa tíma vera gamall og góður, valdbeiting og ofbeldi kalla á sömu viðbrögð frá þeim er beittur er valdi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband