22.11.2010 | 21:49
Lestur moggans.
Þeir sem þekkja Moggann vita að á 15-20 mínútum lest þú ekki mikið af blaðinu. Flestir lesa þannig að þeir fletta blaðinu lauslega og lesa síðan 1-2 greinar betur.
Við að fletta blaðinu er margt áhugavert og allir kannast við, þetta verð ég nú að lesa betur þegar ég kem heim í kvöld, sem þýðir að þetta efni er aldrei lesið. Ef meiri hugur fylgir máli, þá er síðan tekin úr blaðinu, eða klippt, til síðari lesturs, öllum öðrum lesendum blaðsins á heimilinu til mikils ama, hvað varð af framhaldinu af minni grein !!
Eftir að hafa lesið Moggann í 45 ár kann maður á blaðið og hefur komið sér upp sínum venjum. Ég hlakka alltaf meir til að lesa seinni hluta blaðsins, og reyni að falla ekki á freistni að byrja þar. Fletti þolinmóður blaðinu, náttúruhamfarir, morð og dráp í útlöndum, viðskipti, allir að græða nema ég, menningin og svo minningargreinar. Allt er þetta vafið 40% í auglýsingar með það nauðsynlegasta. Mér finnst alveg óþarfi að kalla Moggann " dödens avis ", og vonandi skrifar einhver um mig þegar ég drepst.
Eftir að minningargreinunum sleppir fæ ég fiðring í magann, ég er kominn að mínu uppáhaldsefni, teiknisögur, Ferdinand og fleira. Oftar en ekki hlæ ég dátt að þessum myndum, þær eru svo dásamlega mannlegar. Hvað segir stjörnuspáin og ég glatta yfir fólk í fréttum, fallegt fólk og myndir og það flýgur í gegnum hugann að maður yngist nú ekki.
Sem sagt eftir vonsku heimsins og volæði, lyfta einfaldar teiknimyndir manni upp og nú er ég er tilbúinn að takast á við enn einn dag í mínu eigin lífi, stressið, reikningana, og hvað þetta nú allt heitir.
PS: stjörnuspáin rætist aldrei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2010 | 14:13
Leggur fram eigin fjárhagsáætlun
Leggur fram eigin fjárhagsáætlun ( frétt á Ruv. )
Gunnar Birgisson fetar sína eigin slóð.
Gunnar Ingi Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs og núverandi bæjarfulltrúi, hyggst leggja fram eigin tillögu að fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Kópavogs frá því á fimmtudag. Í bókun sinni á fundinum óskar Gunnar eftir aðgangi að fjármála- og hagsýslustjóra bæjarins vegna þessa. Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðismanna í bænum, sagði í samtali við fréttastofu að þrír af fjórum bæjarfulltrúum flokksins væru tilbúnir að vinna með meirihlutanum að næstu fjárhagsáætlun, auk bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins."
Mikilvægt er að skilja bakgrunn þessarar umræðu:
Í sveitarstjórnum er mikill meirihluti ákvarðana gerður í sátt og samlyndi stjórnmálaflokkanna ( 95% ) Þegar kemur að fjárhagsáætlun er það hefðbundið munstur, að meirihluti vinnur þessa áætlun og beitir í þeirri vinnu starfsmönnum sveitarfélagsins, sem eru með allar upplýsingar í höndum. Hlutverk minnihluta hefur verið að sitja til hliðar, fá minni upplýsingar og gagnrína framkomin gögn.
Vinnubrögð í dag hafa mótast af erfiðari stöðu allra og þeim sjónarmiðum að, það eru erfiðir tímar, hættum karpi og stöndum saman. Skýrasta dæmið um þetta var vinna við fjárhagsáælun í Reykjavík í tíð Hönnu Birnu sem borgarstjóra.
Nú er þetta verklag sannarlega gott og gilt, öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir". Ókostur þessa verklags er hinsvegar að áherslur stjórnmálaflokkanna koma ekki fram, allt er undir einum og sama hatti. Hefðbundið hlutverk minnihluta er gert óvirkt. Skiptir þetta máli má spyrja. Já segja sumir, engu segja aðrir.
Gunnar I Birgisson er búinn að vera 20 ár í stjórnmálum í Kópavogi. Hann hefur verið bæjarstjóri Kópavogs. Þekking Gunnars á fjármálum Kópavogs er við brugðið. Hann þekkir þetta eins og puttana á sér. Hann hefur af fádæma dugnaði og sinni fyrri reynslu lagt sig eftir þessari þekkingu. Hann orðar það gjarnan sjálfur við fjárhagsáælunargerð, að hann sé blóðugur upp að öxlum, svo djúpt fer hann í þetta. Hann sem bæjarfulltúi, þarf ekki á kennslu að halda, eða pælingum, hann þekkir þetta manna best.
Það er á þessum grundvelli, sem hann segir nýtum okkar þekkingu Sjálfstæðismenn í Kópavogi og sýnum okkar áherslur í fjárhagsáætluninni. Annars týnumst við erum meðábyrgir og hlutverk okkar sem minnihluta, að sýna meirihlutanum aðhald er kastað fyrir róða. Því má einnig halda til haga að Gunnar þekkir líka samvinnu við minnihluta og að hans mikla þekkinga var ekki nýtt í síðustu fjárhagsáætlun þó hans flokkur væri þá við völd.
Í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi takast á þessi tvö megin sjónarmið. Þeir bæjarfulltrúar flokksins sem vilja samvinnu, hafa einnig mikla reynslu og þeirra leið er í dag inn
Það verður að sönnu fróðlegt að sjá hvað Gunnar dregur úr pússi sínu. Hvað sem það verður sýna þessi vinnubrögð breidd og sjálfstæði, einginleika sem þarf að virða í ótta, skorti á framsýni, og miðjumoði líðandi stundar í stjórnmálum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.11.2010 | 16:22
Icesave - hugleiðingar.
Ykkur verður úthýst í alþjóðasamfélaginu, fáið ekki lán ef þið borgið ekki. Listi hinna tilfinningalegu raka er langur. Við erum hinsvegar vinir ykkar og ætlum að gera þetta auðvelt, lánum ykkur. Inn í samninga eru sett loðin loforð um endurskoðun samninga, ef.... Allt loforð sem ekki verður staðið við, það kemur nýr dagur og nýir menn.
Íslensk þjóð er beitt svona brögðum í Icesave. Allt er þetta nokkuð þekkt og fyrirsjáanlegt.
Nú flýgur sú fiskisaga, að samningsdrög séu klár, og aðeins sé eftir að ganga frá pólitísku hliðinni.
Fulltrúar út atvinnulífinu hafa stigið fram og segja þetta mál spilla fyrir sér, gangi þið strax frá þessu.
Fyrir okkur sem þjóð eru spurningarnar þessar:
- Hvers vegna á íslensk þjóð að greiða skuldbindingar einkabanka. skuldir óreiðumanna Í besta falli eru mjög misvísandi lagatúlkanir um þetta. Þetta er líka reikningur á tómann ríkiskassa, því hann er alltaf tómur, að þetta getur aldrei verið geðþóttaákvörðun,
- Sá sem á að borga þennan reikning er gamli Landsbankinn og þrotabú hans. Þetta er eins og hver önnur krafa í þetta bú. Fáist ekki greiðsla úr því búi, er krafan töpuð þeim sem á hana. Reynir þá alveg sérstaklega á það hvort kröfueigandi á önnur úrræði. Sé í þessu tilfelli gerð krafa á ábyrgð ríkissjóðs ætti að grípa til allra tiltækra varna.
- Einnig má spyrja, hver hefur mestan hag af því að þessi deila verði leyst. Nú hafa stigið fram aðilar sem segja þetta skaða okkur. Spyrja má á móti, það kann satt að vera, greiðið þið þá kröfuna og raunir ykkar eru búnar. Að senda þennan reikning út í bæ er að sönnu einfaldast fyrir þessa sömu aðila.
- Kröfueigendur eru tilbúnir að lána okkur fyrir skuldinni. Þið byrjið svo að borga eftir 7 ár, þá verður allt miklu betra hjá ykkur. Mjög gamalkunnug aðferð og sérstaklega fýsileg fyrir stjórnmálamenn. Ég verð löngu hættur í pólitík þegar reikningurinn kemur ! Ef Íslendingar þurfa að greiða þennan reikning er það tillaga mín,
- o Í fyrsta lagi hefur Alþingi hefur ekki umboð til að leysa þetta mál, það er þjóðarinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslan sendi ákveðin skilaboð um þetta mál. Hvaða samningar sem koma á borðið verði bornir undir þjóðaratkvæði,
- o Að lagður verði strax nefskattur á þjóðina. Þessi skattur beri það skýrt með sér til hvers hann er, þannig að hann minni okkur og aðra málsaðila á tilurð þessarar kröfu. Þessi krafa verði sem sé ekki falin í einhverju horni ríkiskassans, gleymd og grafin. Fjárhæð þessarar kröfu er ekki mergur málsins, heldur væri þarna beitt rétti sem er blettur á samskiptum þessara þjóða, okkar, Breta og Hollendinga.
Vil í lokin árétta að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um hvaða samninga sem gerðir verða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2010 | 10:20
Það er sannarlega gott að vera íslendingur
Erfiðleikar dagsins í dag eru sannarlega innlegg í málið, enn við vitum innst inni að við munum sigrast á þeim.
Þessi strengur í brjósti okkar er okkur verðmætur, þegar verið er að sprengja upp heiminn og stórþjóðir heimsins eru hræddar við einhverja " vitleysingja " sem enginn skilur hvers vegna eru að sprengja upp saklaust fólk, förum við heim á skítaskerið okkar og finnum til sælutilfinningar þegar flugfreyjan segir við lendingu í Keflavík, velkomin heim klukkan er.... Svo förum við inn í fríhöfnina og kaupum okkar niðurgreidda brennivín og sælgæti, af því að við höfum verið í ferðalagi, því allir sem fara í ferðalag eiga rétt á niðurgreiddu brennivíni, Það er sannanlega gott að búa á Íslandi og vonandi munu ekki vondir menn taka þetta af okkur.
Þegar við segjum útlendingum frá því að á Íslandi búi um 330.000 manns segja þeir gjarnan " you must be joking ". Þetta er sá fjöldi er býr við eina götu í stórborgunum, lítið þorp, fámenn þjóð á hvaða mælikvarða sem mælt er. Þetta er hinsvegar þjóðin okkar, og við erum reyndar fleiri Íslendingar þegar þeir eru taldir sem búa erlendis og munu " one fine day " koma heim til okkar hinna.
Við íslendingar erum með ríkustu og framkvæmdasömustu þjóðum heimsins. Svolítið öfugmæli í augnablikinu finnst mörgum, en þó rétt. Við vorum svo framkvæmdasamir að við áttum ekki fólk til að vinna í öllum okkar framkvæmdum, við urðum að fá " erlent vinnuafl " til að hjálpa okkur. Þörfin fyrir þetta vinnuafl var óstöðvandi og enn í dag vantar okkur tæknimenntað fólk.
Ísland hefur verið að breytast í fjölþjóðlegt samfélag, ákvörðun sem hefur í reynd tekið sig sjálf. Man einhver eftir því að þessi ákvörðun hafi verið lýðræðislega tekin, eftir umræðu, rannsóknir og skoðun á reynslu annarra. Nei ég man ekki eftir því hún bara tók sig sjálf og þannig á það mögulega að vera, góðar ákvarðandi eru þær sem enginn tekur eftir, þetta bara gerist.
Mikið af góðu og duglegu fólki hefur sest að á Íslandi og mannauður okkar hefur þannig aukist Hefði þetta samt ekki átt að ræðast ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2010 | 10:08
Þjóðarvitund okkar er áratugum á eftir nágrannaþjóðum okkar.
- Við erum óttaslegin - hvað verður um okkur,
- Við treystum ekki forystuöflum í þjóðfélaginu til þess að taka ábyrgð eða taka ákvarðanir byggðar á heilindum,
- Ótti og fjandskapur hefur áhrif á líf okkar og við áttum okkur ekki á því hvert þjóðfélagið stefnir,
- Efnisleg gæði skipta enn miklum máli í lífi okkar. Samt göngum við ekki nógu vel um auðlindir og okkur skortir atvinnutækifæri.
Þessi gildi setja okkur í neðstu þrep, ákveðins greiningastiga sem Bjarni notar. Bjarni segir jafnfram. Ég dreg þá ályktun af þessari rannsókn að við virkum ekki eins og þjóð í eiginlegum skilningi, heldur frekar eins og stór ættbálkur. Gildi okkar sem einstaklinga líti vel út, en samfélagslega erum við annarsstaðar en við viljum vera. Hvers vegna er þetta, það hefur með sameiginlega hugsun okkar að gera.
Aðrar mjög merkilegar niðurstöður Bjarna, ekki endilega tengdar hruninu:
- Þau gildi sem að ofan eru nefnd, leysum við með auknum hagvexti og vinnu á næstu árum,
- Við íslendingar byggjum hinsvegar ekki á hugarfarslega sterkum grunni, ef við berum okkur saman við nágrannþjóðir. Við erum ung þjóð og eigum eftir að taka út mikinn þroska sem þjóð. Nágrannaþjóðir okkar hafa, hér árhundraða forskot á okkur,
- Mælingar og samanburður t.d. við Dani og Svía, sýna að þjóðarvitund okkar er ekki á sama stigi og þeirra. Við eigum mikla vinnu fyrir höndum að jafna þennan mun.
Við fáum vonandi leiðsögn um hvernig það megi gerast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2010 | 09:48
Of fáir sem róa
- Eru það of fáir sem róa á Íslandi en of margir sem stjórna?
- Er yfirbyggingin í okkar þjóðfélagi orðin of stór?
Íslenskt og japanskt fyrirtæki ákváðu að keppa í róðri á áttæringi. Liðsmenn frá báðum fyrirtækjum æfðu stíft og voru í toppformi þegar að sjálfri keppninni kom. Japanirnir urðu1 km á undan íslenska liðinu.
Eftir útreiðina var mórallinn að sjálfsögðu heldur slæmur í íslenska fyrirtækinu og yfirstjórnin ákvað að fyrirtækið yrði að vinna keppnina að ári. Var settur á fót vinnuhópur til að skoða vandamálið.
Eftir heilmiklar pælingar komst vinnuhópurinn að því að Japanirnir létu 7 menn róa en einn stýra. Í íslenska liðinu var það einn sem réri og sjö sem stjórnuðu. Vegna þessarar miklu krísu afréð yfirstjórn íslenska fyrirtækisins að fá ráðgjafarfyrirtæki til að kanna strúktúr íslenska liðsins og gera nýtt skipurit ef á þyrfti að halda.
Eftir margra mánaða vinnu komust stjórnunarfræðingarnir að því að í íslenska bátnum væru það of margir sem stjórnuðu en of fáir sem réru. Með hliðsjón af skýrslu sérfræðinganna var strax ráðist í skipulagsbreytingar.
Í stað þess að hafa sjö stýrimenn, einn áramann voru nú hafði fjórir stýrimenn, tveir yfirstýrimenn, einn leiðtogi stýrimanna og einn áramaður. Að auki var áramaðurinn _motiveraður" samkvæmt meginreglunni: Að breikka starfssvið starfsmanna og veita þeim meiri ábyrgð".
Næstu keppni unnu Japanirnir með 2 km forskoti.
Íslenska fyrirtækið rak að sjálfsögðu áramanninn með tilliti til lélegrar frammistöðu, en greiddi bónus til stjórnarinnar vegna þeirrar miklu vinnu sem hún hafði innt af hendi.
Ráðgjafarfyrirtækið gerði nú aðra úttekt og komst að þeirri niðurstöðu að valin hefði verið rétt taktík og hvatning, því væri það búnaðurinn sem þyrfti að einbeita sér að.
Í dag er íslenska fyrirtækið að láta hanna nýjan bát.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2010 | 18:59
Afskriftir skulda
Afskriftir skulda er vinsælt umræðuefni, en um leið er það mikilvægt, að skilja hvað er átt við með afskrift og hvernig þetta hugtak er notað.
Afskrift er að lánveitandi fær ekki kröfu sína ( Lán eða aðra skuld ) greidda. Lánveitandi hefur þá reynt allar leiðir til að innheimta kröfuna, gengið að formlegum veðum, eða látið reyna á ábyrgð skuldara.
- Í þessari stöðu á lánveitandi þá kosti að láta kröfuna standa áfram í bókum sínum í von um einhverja lausn síðar eða afskrifa kröfuna.
- Afskrift kröfunnar er í reynd ekkert góðverk á skuldara heldur mat á raunveruleikanum. Sé skuldari t.d. eignalaust eignarhaldsfélag, er afskrift augljóslega eina rökrétta leiðin,
- Ef lánveitandi á einhverja leið til að fá kröfu sína greidda að hluta eða öllu leiti er krafan, einfaldlega ekki afskrifuð.
Eftir hrun bankanna er mikið af ónýtum" kröfum, kröfum sem þarf að afskrifa. Standi þessar kröfur áfram í bókum, skekkja þær alla mynd, um raunstöðu lánastofnana og fyrirtækja.
Afskrift hefur hinsvegar í almennri umræðu fengið á sig þá mynd að, verið sé að gefa einhverjum eitthvað. Hið rétta er að ekki er annar kostur í stöðunni.
Allir sem þekkja til í fjármálakerfinu, vita að ef lánveitandi á einhverja minnstu möguleika á að innheimta kröfu, er hún ekki afskrifuð. Um afskriftir gilda strangar reglur og formlegheit.
Stór hluti ef endurreisn fjármálkerfisins er að afskrifa ónýtar kröfur, höggva af alla þá kalkvisti sem til staðar eru í kerfinu. Fá fram rétta og heilbrigða stöðu í stað þess að sá fræjum tortryggni um raunveruleikann.
Endurnýjað traust almennings á bönkum og lánastöfnunum, byggir á því að, hreinsað sé til. Tilfinning margra er að svo sé ekki, mikið af kalkvistum leynist enn í skúffum bankanna. Þetta á við um banka á Íslandi og reyndar banka í heiminum öllum.
Sú, hystería sem hefur einkennt alla umræðu um þessi mál, hefur gert það að verkum, að nauðsynleg hreinsun" fjármálakerfisins fer ekki fram. Ég tala nú ekki um ef einhvern grunar að það eigi að afskrifa skuld útrásarvíkings !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2010 | 15:33
Kosning til Stjórnlagaþings -framkvæmd:
Ég óttast að margir kjósendur, haldi að það að kjósa til Stjórnalagaþings sé mjög flókið. Því fer víðsfjarri. Smá undirbúningur og þetta verður einfalt. Skrefin sem taka þarf eru:
1. Heimavinna:
Skoða lista yfir frambjóðendur ( 522 ) Þetta er auðvelt að gera á kosning.is., eða í bæklingi sem sendur verður í hvert hús.
Á kosning .is er hjálparkjörseðill, þar sem kjósandi, getur kynnt sér frambjóðendur og raðar þeim í þá röð sem hann ætlar að kjósa. Ef þessi hjálparkjörseðill er notaður kemur rafrænt nafn frambjóðanda og auðkennisnúmer. Einnig númer þess sætis sem viðkomandi er settur í.
Þennan hjálparkjörseðil tekur kjósandi með sér á kjörstað. Sama kjörstað og hann kaus á í síðustu kosningum.
2. Kosning á kjörstað:
Kjósandi gefur sig fram í sinni kjördeild. Hann fær kjörseðil, sem er blað með 25 tölusettum reitum. Kjósandi finnur sér borð til að setjast, tekur fram hjálparkjörseðilinn og færir inn í hverja línu-reit auðkennisnúmer þess frambjóðanda sem hann kýs. Ekki að skrifa nafnið, aðeins auðkennisnúmerið.
Hægt er að kjósa aðeins einn frambjóðanda. Eðlilegt að raða allt að 3-5 nöfnum. Séu auðkennisnúmerin sett í þessar 3-5 línur í samhangandi röð er þetta gildur seðill.
3. Almennt:
- Leiðbeindur verða á kjörstað, ef einhver er óöruggur um framkvæmdina,
- Ekki að brjóta seðilinn saman, setja beint í kjörkassa,
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.11.2010 | 13:25
Sakna strákarnir mömmu.
Taka skal fram að þetta er alvöru könnun, og varpar áhugaverðu ljósi á skoðanir þessa hóps. Það væri mikill misskilningur að taka ekki á mark á því sem þarna kemur fram. Horfa á raunveruleg svör þessara ungmenna, frekar enn hafa á því skoðanir hvernig þau ættu frekar að vera.
Mikill samhljómur er meðal stráka og stelpna um það að bæði kynin eigi að hafa sömu réttindi. Eftir það skilja leiðir og strákarnir hafa skoðanir sem ekki falla jafnréttissinnum í geð.
Um helmingur stráka telur að konur eigi að vera heima hjá ungum börnum sínum og um 36% stúlkna.
Ég staldraði við þessar tölur. Þessi hópur er af kynslóð, sem sumir kalla, lykla eða farsíma kynslóðina. Kynslóð þar sem enginn er heima og í besta falli hægt að hringja í mömmu eða pabba.
Er þetta unga fólk að senda skýr skilaboð um álit sitt á þeirri þjóðfélagsgerð sem við höfum búið til á Íslandi og norðurlöndunum. Strákarnir vilja hafa mömmu heima !
Nú má finna milljón ástæður fyrir því að það er ekki hægt og þessar ástæður þarf að lemja inn í hausinn á fólki. Man einhver eftir stjörnufræðingnum, sem kaþólska kirkjan lét játa að jörðin snérist ekki í kringum sólina. Hann tautaði eftir játninguna, hún snýst nú samt !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.11.2010 | 12:25
Þjóðareinkenni Íslendinga, innlegg.
Í þættinum var m.a. rætt um þjóðareinkenni íslendinga í nútíð og fortíð. Rannsóknarskýrslan kom við sögu og þörfin á að við skoðum hvað við getum af henni lært.
Á mektardögum útrásarvíkinga leituðust margir við að skýra velgengni okkar, hvað við værum klár og einstök. Var þetta mörgum kært umræðuefni, og menn stoltir af þessum löndum okkar. Erlendir vinir mínir spurðu spurninga, einn vildi rita um þetta blaðagrein í sínu heimalandi til þessa að hans landsmenn gætu af þessu lært.
Hrunið lagi í rúst allar þessar kenningar og skýringar og flestir vilja gleyma því sem þá var sagt. Í umræddum þætti var hinsvegar varpað ljósi á nokkra drætti í okkar þjóðarvitund, drættir sem eiga sínar sögulegu forsendur, og hafa mögulega mótað okkar þjóðareinkenni.
Ég tek mér nokkuð skáldaleyfi í minni framsetningu.
- 1. Það skal enginn græða á mér:
Danskir kaupmenn, eru sagðir í okkar sögu, hafa selt maðkað mjöl og greitt of lítið fyrir afurðir. Þetta var að okkar áliti, arðrán. Þetta mótaði mjög afstöðu okkar til útlendinga og þess mikla ágóða sem þeir höfðu af viðskiptum við okkur.
- 2. Að fá mikið fyrir ekki neitt, að græða:
Víkingarnir okkar" fóru í gamla daga í ránsferðir, rændu og rupluðu, og komu heim með mikinn ránsfeng. Kannast hér einhver við lýsingu á útrásinni, og umræðu um víkingseðlið. Þessu með ránsfenginn var þó sleppt.
Við íslendingar komum fyrst undir okkur fótunum í stríðinu, af öllum tímum. Við fengum vinnu hjá hernámsliðinu og seldum okkar fisk á háu verði til Bretlands. Stríðið varð okkur gósentími. Eftir stríðin tók við tímabil USA í landinu, mikil umsvif og peningar. Til viðbótar þurftum ekkert að kosta til varna, fengum það allt frítt, hjá vinum okkar. Þeir fóru svo þegar þeim hentaði og töluðu ekki við okkur.
- 3. Að taka ekki ábyrgð, því við erum svo fá og smá og allir hljóta að sjá það og virða.
Við þurfum að fá alveg sérstaka samninga við ESB, af því að.. Við höfum engar áhyggjur af þessum samningum, ráðum vel við ESB. Á móti okkur sitja menn - samtök, sem ekki hafa staðið í svona samningum nema 27 sinnum.
Þjóðareinkenni okkar og hvað við höfum lært af hruninu, er sannarlega verðugt viðfangsefni. Við höfum kortlagt mjög vel margt sem að hruninu lýtur. Umræðan um lærdóminn er ekki jafn auðsæ, enda komið að einu af okkar þjóðareinkennum. Enginn getur sagt neitt því þá særir hann örugglega einhvern, fjölskyldu, vini eða mögulega sjálfan sig.
Bloggar | Breytt 16.11.2010 kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Jón Atli Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar