Stjórnun fyrirtækja og stjórnunarþekking

Það er til ógrynni af þekkingu um fyrirtækjastjórnun. Góðir stjórnendur vita að þeir eiga að fylgjast með, læra eitthvað nýtt, annars úreldast þeir.  Námskeiðahald um stjórnun er því blómlegur atvinnuvegur.

Öll þessi þekking er til, en hvað af henni er notað, og kemur að raunverulegu gagni, er annað mál.  Hafandi nokkuð vit á þessu, hefur það lengi verið mér umhugsunarefni hvað mikið er til af þekkingu en lítið af henni er notað.

Hvers vegna?  Ekkert einfalt svar, enn ég tel það m.a vera spurningu um framsetningu, og forsendur hlutaðeigandi til að tileinka sér þekkinguna.  Þetta má líka orða þannig að þekkingin passi inn í reynsluheim viðkomandi og verði ný þekking til viðbótar þeirri sem fyrir er.

Leiðin fyrir flesta er að mínu viti, fólgin í einfaldleikanum. Stjórnandinn kemur sér upp, einföldum verkfærum sem duga honum í hans starfi.  Hann þarf að geta sest niður með einhverjum, lýst því af einlægni hvernig hann gerir hlutina, og fengið fram nýjar hugmyndir sem passa honum og hans aðferðum.

Verkfærakista hans á að samanstanda af fáum kennitölum:

Hann þarf að geta rætt og sannfærst um að hann sé að gera rétt og að allar þessar töfralausnir, passi ekki fyrir hann. Hann þarf að geta spurt sinna spurninga. Stjórnandinn þarf að öðlast sjálfstraust.  Í stað þess, æpir umhverfið á hann úr öllum áttum, að það sé komið eitthvað nýtt, og hann sé út á túni.

Varðandi framsetningu, vilja allir stjórnendur sem ég þekki, geta rætt við einhvern sem þeir treysta, maður á mann. Öll glæru-show í heiminum og tölvur, koma ekki í staðinn fyrir þessi einföldu sannindi.


Vondu bankarnir

Bankahrunið var í október 2008.  Á rústum þess bankakerfis sem þá var, hefur risið nýtt kerfi, nýir bankar og í mörgum tilfellum nýtt bankafólk.  Allavega á þetta við um yfirstjórn bankanna.

Það er mjög í tísku að tala illa um bankamenn og bankana þeirra.  Umræðan er þannig að hún jaðrar við atvinnuróg.

Reyði fólks vegna bankahrunsins er eðlileg. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á rekstri gömlu bankanna, hafa lyft upp á borðið, ótrúlegu stjórnleysi og óstjórn. Raunveruleika sem þó var kirfilega dulin bak við glæsta ímynd, góðs hagnaðar og velgengni.

Þetta voru hinsvegar gömlu bankarnir, sem fóru á hausinn og eru nú til þrotameðferðar.  Bankarnir í dag eru ný fyrirtæki, fyrirtæki sem starfa á íslenskum markaði, ný markmið og væntingar.

Þessir bankar hafa vissulega tekið við erfiðum málum, frá gömlu bönkunum og hruninu, en það er að hengja bakara fyrir smið að kenna þeim um ófarir hinna.

Vandi nýju bankanna er hinsvegar að sanna það fyrir viðskiptavindum sínum, að þeir séu raunverulega „ nýir „ bankar.  Það mun taka þá tíma og það hlýtur að vera forráðamönnum þeirra áhyggjuefni hversu hægt það gengur.

Það er öllum ljóst sem þekkja sögu banka á Íslandi að almennu starfsfólki þeirra verður ekki kennt um hrunið. Um það vissu það nánast ekkert fram á síðasta dag. Þeir voru jafn mikið blekktir, eins og hinn almenni viðskiptamaður.  Staða sem ætti að vera þessu góða fólki umhugsunarefni.

Það að vera bankamaður í dag, kallar á sérstakt framlag þeirra sem í þessum stofnunum vinna.

Hver sem kemur inn í banka í dag, finnur spennuna sem þar ríkir. Starfsmenn eru óöruggir, það er ákveðinn ótti í loftinu. Bankarnir munu ekki geta auglýst sig út úr þessari stöðu, þetta er spurning um mannlegu hlið þess að vera bankamaður.  Uppbyggingin þarf að byrja innan frá í bönkunum.   Að vera bankamaður snýst ekki um útlit, þó gott útlit sé ágætt, heldur traust og úrlausnir.  Bankamaður sem er hinsvegar hræddur við kúnnann sinn gerir ekki mikið gagn.


Að rétta samferðafólkinu hjálparhönd

Ég fékk flensu um daginn og lág í rúminu í nokkra daga. Það góða við pestir er að þá gefst góður tími til lesturs. Í þetta sinn tók ég fram ævisögu Thors Jensen skrásetta af Valtý Stefánssyni.

Í ævisögu þess stórmerka athafnamanns, sem áorkaði öllum þeim glæsilegu verkum, er raun ber vitni, er einn rauður þráður og það er ást hans og þakklæti til konu sinnar Margrétar. Í eftirmála ævisögunnar ritar hann sjálfur "

Sú er mín hugheilasta ósk íslensku þjóðinni til handa, að hún megi eignast sem flestar slíkar dætur, sem í einu og öllu kappkosta að glæða skilning barna sinna á þörfum lands og þjóðar og blása þeim í brjóst sönnum manndómsanda jafnframt því að leitast við að auka víðsýni eiginmanna sinna í framfaramálum þjóðarinnar og vera ávallt boðnar og búnar til að rétta samferðafólkinu hjálparhönd "

Þau hjónin voru ekki alltaf rík, höfðu líka kynnst mótlæti og erfiðleikum. Þessi fallegu orð hér að framan og lestur ævisögunnar urðu mér tilefni til ýmissa hugleiðinga m.a. um manngildi og samhygð.

Gæti hugsast að lífið hefði háleitari tilgang en auðsöfnun, fallegt og unglegt útlit og að allir sitji við gnægtaborð.  Auðvitað er það svo. Tökum samt fast á einu máli, fátækt á ekki að vera til á Íslandi, það er ákvörðun sem þjóðin á að taka, og ráðamenn á hverjum tíma að framkvæma.

Thor Jensen var danskur maður, en varð á ævi sinni meiri íslendingur en við hin, sem hér erum fædd og uppalin.  Framfarir og velferð okkar þjóðarinnar skiptu þennan mann miklu máli, meira máli en eigin auðssöfnun.

Þannig mynd fæ ég allavega af þessum manni.  Hann var tilbúinn að nota auð sinn til að hjálpa öðrum, t.d. í Spánskuveikinni.

Er ekki komin tími til að við hugsum eins og þjóð, ekki eins og einstaklingar, sem er sama um aðra er í þessu landi búa.

Ef konur og mæður þessa lands hugsuðu eins og Margrét, þá væri engu að kvíða um glæsta framtíð okkar lands.


Kvennafrídagurinn 24 október 1975

Á kvennafrídaginn 1975, vann ég í Landsbankanum, hagdeild. Konurnar í bankanum ætluðu allar á Lækjartorg.

Skynsamlegast hefði verið að loka bankanum, enda 80% starfsmanna konur.  Yfirstjórn bankans, lagði hinsvegar ofurkapp á það að hafa opið. Karlar voru fluttir til í bankanum svo þetta mætti takast.

Hvers vegna þetta var svona mikilvægt, vissi ég aldrei, fannst sjálfum að með því að loka, væri mikilvægi kvennanna í bankanum staðfest, og allir ættu að standa með þeim.

Ég man að ég var settur til starfa í sparisjóðsdeild aðalbankans. Starf sem ég þekkti eftir að hafa unnið þar áður. Sem betur fer var ekkert að gera og við þarna  mest upp á punt.

Eftir fundinn komu stelpurnar svo til baka, mest til að skoða okkur og hlæja að okkur, enda við heldur ámótlegir, kvenmannslausir.  Mig minnir að þær hafi svo farið heim.

Allir sem upplifðu þennan dag fundu að eitthvað hafði gerst. Samstaða kvenna á þessum degi, var stórkostleg, það lá einhver breyting í loftinu.  Það þarf gáfaðri mann en mig til varpa einhverju nýju ljósi á þessa tíma, en máttur fjöldans  sýndi sig svo sannarlega á þessum degi.

Þeir sem vilja breyta einhverju, get verið vissir um að það er hægt. Þökkum fyrir það þjóðfélag, þar sem þetta er hægt, og enginn þarf að óttast að hann verði drepinn fyrir tiltækið.

Allt sem gerðist á kvennafrídaginn  1975 var friðsamlegt.  Konurnar voru uppá klæddar og flottar.  Áhrif fundarins á Lækjartorgi þennan dag, voru ekkert minni, en þau skrílslæti og meiðingar, sem sett hafa svip sinn á síðari tíma mótmæli.  Rekum af höndum okkar það fólk sem sýnir meðborgurum sínum og lögreglu þessa hlið á íslensku þjóðfélagi.


Hjartaáfall og heitt vatn

 

Fékk þetta sent frá góðum bróður mínu Snæbirni, 

Það ekur aðeins tvær mínútur að lesa þessa mikilvægu  upplýsingar og ég sendi þetta til þeirra sem mér þykir vænt um ........
Ég vona að þú gerir það líka!!!

Hjartaáföll og heitavatnsdrykkja

Þessar upplýsingar eru mjög mikilvægar.  Ekki aðeins um heita vatnið að lokinni máltíð, heldur einnig um
hjartaáföll.
 
Kínverjar og Japanir drekka ekki kalt vatn með mat.  Þeir drekka heitt te.
Ef til vill er tímabært að taka upp drykkjusiði þeirra með mat.

 
Eftirfarandi upplýsingar eiga sérstaklega erindi til þeirra sem sem finnst gott að fá sér kalt vatn. Það kann að vera hressandi að fá sér glas af köldu vatni með mat eða að lokinni máltíð.
Kalt vatn herðir hins vegar feit efni (olíur og fitu) í matnum sem þú varst að borða og hægir á meltingunni.
Um leið og þessi "seyra" hvarfast við sýru, brotnar hún hraðar niður í þörmunum en föst fæða og einangrar þarmavegginn. Fljótlega mun þetta breytast í fitu og getur leitt til krabbameins.
Það er best að drekka heita súpu eða heitt vatn með mat eða að lokinni máltíð.

 
Almenn einkenni hjartaáfalls...

Hér eru nokkur mikilvæg atriði sem tengjast hjartaáföllum:

  • Verkur í vinstri handlegg eru ekki eina einkenni hjartaáfalls
  • Ákafur kjálkaverkur getur verið einkenni hjartaáfalls
  • Þú getur lent í hjartaáfalli án þess að fá brjóstverk
  • Ógleði og ákafur sviti eru einnig algeng einkenni hjartaáfalls

60% þeirra sem fá hjartaáfall í svefni vakna ekki aftur - en kjálkaverkur getur vakið þig af svefni.  Verum því varkár og meðvituð.  Því meira sem við vitum, því meiri líkur eru á því að við lifum af hjartaáfall.
Hjartalæknar
segja að ef allir sem lesa þessi skilaboð senda þau til 10 manns getum við verið viss um að það bjargi að minnsta kosti einu mannslífi.
Lestu þetta og sendu til vinar. Það gæti bjargað lífi.
Vertu sannur vinur og sendu þessa grein til allra vina þinna sem þér þykir vænt um.


Mótmæli á Austurvelli 4. október 2010

  Þessi mótmæli voru minnistæði fyrir ýmsar sakir.
  • Þau voru sérstaklega fjölmenn, 6, 8, 10 þúsund manns.
  • Þau voru nánast í beinni útsendingu, þar sem eldhúsdagsumræður fóru fram þetta kvöld.
  • Þau sýndu liðlega 100 lögreglumenn í varðstöðu, gegnt þessum mannfjölda,
  • Þau sýndu, að hefði þessi mannfjöldi, eða einhver hluti hans, ráðist gegn lögreglunni, réði þessi hópur löggæslumanna ekki við neitt,
  • Þau sýndu þann ótta, sem var í Alþingishúsinu, þar sem forsætisráðherra flutti ræðu sína skjálfandi röddu, enn flutti hana þó,
  • Þau sýndu innibyrða reiði fjöldans,
  • Þau sýndu, skrílslæti, ákveðins hóps, og eyðileggingu eigna.

Horfandi á þetta í sjónvarpinu runnu eftirfarandi hugleiðingar í gegnum hugann:

  • Svakalega stendur þetta tæpt, einn neisti og allt springur í loft upp,
  • Það má enginn búa til svona stöðu stjórnleysis. Stöðu sem enginn ræður við hvað sem lögreglustjórinn segir, enda getur hann ekkert annað sagt. Þetta var einn stór barnaskapur,
  • Raunveruleg geta okkar til að fást við svona stöðu er engin. Hvar værum við hinsvegar ef ekki hefði verið byggð um sérsveit og einhver viðbúnaður til að takast á við svona vanda.

Við lifðum af þennan dag, þetta reddaðist. Púff.  Eitt er hinsvegar alveg öruggt, það mun koma annar svona dagur, vonandi reddast þetta líka þá, eða hvað !

 


Skyldi guð vera reiður við Joko Ono ?

Ég fór út að ganga um fimmleytið. Það var byrjað að dimma og bleytan á gangstéttinni var að breytast í ís.

Loftið var dásamlegt, ferskt og hressandi og ég hugsaði þvílík forréttindi að fá að anda að sér slíku lofti, hvað gæti verið hollara og betra en þetta.

Ég heyrði í lífinu í kringum mig, krakkar að leika sér á svölum, voru greinilega að leika við hund, hávær eins og barna er vísa.  Það var greinilega byrjað að elda kvöldmat, því matarlykt lagði frá húsunum.

Hvað er dásamlegra en þetta, að vera á lífi, geta gengið óstuddur og hnarreistur er ekki lífið stórkostlegt. Þegar ég kæmi heim fengi ég mat hjá konunni, steikta lifur og kartöflur, hreina íslenska afurð af fjallalambinu okkar.

Þar sem ég arkaði eftir göngustígnum, sá ég friðarsúluna hennar Jókó, rísa til himins. Ég reyndi að halla höfðinu á alla kanta til að sjá hana betur, hef alltaf fundist hún heldur dauf.  Held að það stafi af því hvað okkar loft er of hreint og tært, hún sæist betur í menguninni.

Hugsaði með mér hvort þetta væri ekki óþægilegt fyrir guð, að það væri líst svona beint framaní hann. Var hinsvegar alveg klár á því að Pétur, sem stæði við Gullna hliðið sæi betur til við að lesa á bókina, með því að hafa þessa birtu. Var nú ekki alveg klár á því hvort það væri mér til framdráttar, hann sæi þá betur hvað lítið af góðverkum ég hefði gert.

En jafnvel þó geislinn frá friðarsúlunni lýsti í augun á guði, þá er Jókó góð manneskja, það eru engin fúlmenni sem fá svona galnar hugmyndir.

Í þessum guðrækilegum hugleiðingum arkaði ég áfram sléttan göngustíginn og hugsaði um alla þessa frábæru göngustíga sem liggja um allan Kópavog þvers og kruss.  Mér var spurn hvort ég ætti að þakka guði fyrir stígana eða Gunnari Birgissyni. Til að vera öruggur þakkaði ég báðum.

Á svona gönguferðum verður maður bjartsýnn, hvernig er annað hægt.  Þarna eru engir stefnuvottar á ferð, engin ábyrgðarbréf, engir rukkarar. Þú ert frjáls, hittir einstaka göngugarp, býður gott kvöld og arkar þína leið.  Ef  þú hittir konu þá er gott kvöld hámark samræðna,  þú gætir verið einhver pervert, sem gætir ráðist á konuna.  Hvaða kona með réttu ráði stoppaði til að tala við þig, í ljósi allra þeirra sagna, sem til eru um nauðgara og banditta.   Þetta er heldur sárt, þar sem þú veist að þú ert best grey og það gæti nú bara verið gaman að labba með einherjum.

Þú gengur framhjá öllum þessum fallegu húsum, fallegu görðum og flottu bílum, erfiðleikar eru nú samt þarna einhversstaðar í sínum ljótleika.

Er ekki komin tími til meiri bjartsýni í stað þessarar síbylju um kreppu. Bölsýni hefur engu bjargað, ótti er ekki tilfinning sem hvetur neinn til dáða. Leggjumst á eitt um hlúa að því jákvæða, ég veita að kreppan hatar jákvæðni.

Nú er ég komin heim, konan kallar maturinn til !!!


Nýir Messiasar á Íslandi

Útrásin einkenndist af kröftugum einstaklingum, ( 30-35 ) sem sáu viðskiptatækifæri á hverju strái.  Til að ná markmiðum sínum var heppilegt að eiga banka, tryggingafélag eða aðra uppsprettu fjár.  Framhald þessarar sögu er vel þekkt.

Þetta módel „ auðmanna „ passaði Íslandi ákaflega illa. Ástæðan  er líklega fámennið og að okkur er ekki sérlega gefið að heyra undir smákónga. Ákveðinn hópur er þessu þó fylgjandi, sjá í þessu tækifæri fyrir sig til valda og auðs.

Verkefni dagsins er hinsvegar uppbygging, og spurningin hvað höfum við lært. Þessi spurning er sérstaklega áleitin núna, þar sem fjöldi fyrirtækja vantar aukið eigið fé, og mikil vöntun er á fjármagni til framkvæmda.  Þessa stöðu má í einu orðið lýsa sem kjörlandi nýrra Messiasa.   Hvort sem þeir nota sitt eigið fé eða fé ( lánsfé ) viðskiptafélaga sinna.  Það er mikið til af peningum í heiminum, góðum og slæmum, Ísland er þrátt fyrir allt á korti þeirra sem eiga þessa peninga. Þeir eða þjónar þeirra, hafa af kostgæfni unnið sína heimavinnu.

Á þessum tímamótum er ástæða til að rifja upp hugtök  eins og dreift eignarhald í stað kjölfestufjárfesta.  Þó þetta séu útjaskaðir orðaleppar, lýsa þeir þó þeirri hugsun sem hér er gerð að umtalsefni. Viljum við fara í gamla farið í fang smákónganna?

Almenn  umræða er fyrsta skref þessa máls, er það svo að einhver hafi af þessu áhyggjur. Næsta skref er að minna á að bankarnir eru fullir af peningum, mikið af þessu fé með lága ávöxtun.  Hvernig má koma þessum peningum fjöldans í vinnu og uppbyggingu? Þó þannig að eigendur þessa fjár, séu sáttir.

Vandinn í þessu máli er þekktur, lausnirnar eru líka þekktar. Leiðin felst í vilja til góðra verka, samstöðu sem svo sárlega vantar í okkar samfélagi.


« Fyrri síða

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 42848

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband