Auðlindagjald og skráning gengis

Ríkið getur fært til fé í hagkerfinu, með því að skattleggja „ þá ríku“ og nota þá fjármuni t.d. til að hjálpa þeir sem minna mega sín. Því miður er það sjaldnast þeir ríku sem borga skattana, þeir leggjast helst á millistéttina. Að færa til fé með þessum hætti er ein grundvallarspurning stjórnmálanna, og hvort aðferðin nær tilgangi sínum. En það þarf ekki alltaf skattkerfið til að færa til fé, gengisskráningin getur gert það líka. Styrking krónunnar að undanförnu er að færa almenningi í landinu, stórar fjárhæðir í lægra vöruverði á kostnað útflutningsgreina eins og sjávarútvegsins. Tilfærsla sem er eitt form af auðlindagjaldi, aðferð sem beitt var fyrr á tímum, þó þessi nafngift hafi ekki verið notuð. Nú er ég ekkert á móti eðlilegu auðlindagjaldi, en segi aðeins, þeir sem kalla hástöfum á að sjávarútvegur greiði hærra auðlindagjald, ættu að hafa þetta samband í huga. Greinin er í dag í reynd að borga tvöfalt, auðlindagjald. Að störfum situr þverpólitísk nefnd, sem fengið hefur það vanþakkláta verkefni að endurskoða gjaldtöku á sjávarútveginn. Vitlausasta tímasetning sem hægt var að finna. Greinin er að koma í gegnum öldu gífurlegra fjárfestinga, sem voru löngu tímabærar. Einhver hluti fjárfestinganna er með eigin fé, en stór hluti er einnig með langtímalánsfé. Kjarasamninga við sjómenn eru nýafstaðnir, að undangengnu verkfalli. Bolfiskvinnsla er sannarlega í dag rekin með tapi, sem m.a. kemur hart niður á minni og meðalstórum fyrirtækjum. Landsbyggðin er nú að sjá í hornið á þessari þróun. Auðvitað er engin sátt um hærra auðlindagjald, efni í lengri skrif. Það sem hinsvegar örugglega gerist er að meiri samþjöppun verður í . þeir stóru verða stærri og minni spámenn heltast úr lestinni. Var það meiningin ?


Tenging aflaheimilda við byggðirnar

Sú umræða sem orðið hefur um mögulegar breytingar HBGranda á vinnslu á Akranesi er sannarlega ekki ný af nálinni. Litið til baka er þetta troðin slóð, og hefur oftsinnis verið á dagskrá. Niðurstaðan er efnislega alltaf sú sama, hið opinbera blandar sér ekki í rekstur einkaaðila. Það er vissulega sárt að horfa uppá fólk missa vinnu sína, en það sem er að gerast á Akranesi, er órjúfanlegur hluti „ heilbrigðs „ viðskiptalífs. Umræða um kerfisbreytingu til að „ leysa „ vanda fólksins á Akranesi, er hættulegur misskilningur. Ef slíkar breytingar átti að gera í sjávarútvegi, var það fyrir mörgum, mörgum árum. Sú samþjöppun aflaheimilda sem orðið hefur og hefur gerst á markaðslegum forsendum, er grundvöllur þessa góða sem við höfum í þessari grein. Núverandi forkaupsréttur sveitarfélaga hefur frá fyrstu byrjun verið óheppilegt og illa ígrundað ákvæði. Hvers vegna: • Fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur verið þannig að þau hafa ekki haft neina fjárhagslega burði til að taka þátt í þessum leik, • Ef sveitarfélag nýtir sér þetta ákvæði, tekur það á sig mikla fjárhaglega áhættu, það gæti staðið frammi fyrir að fara sjálft í rekstur, og það er í endalausum vanda hvernig skal útdeila þeim heimildum, sem það hefur „ tryggt „ Þetta ákvæði var frá upphafi meingallað. Sem dæmi, ef aðilar máls áttu viðskipti með hlutabréf í félagi sem átti skip og kvóta, var enginn forkaupsréttur, þó augljóslega færu sú leið í blóra við anda ákvæðisins. Frjáls markaður hefur verið í kaupum og sölu skipa og aflaheimilda. Að grípa inn í það ferli, eins og fyrrgreindu ákvæði var ætlað að gera, er í beinni andstöðu við lögmál markaða og viðskiptalífs. Vel meinandi stjórnmálamenn sem tala fyrir slíku inngripi verða að svar þeirri spurningu hvar er upphaf og endir þeirrar forræðishyggju sem þeir tala fyrir. Ef þeir aðeins vissu hvað þessi umræða skemmir fyrir sjárvarútveginum og vinnur í reynd gegn þeirra annars „ góða vilja „


Ríkisfjármálaáætlun, stórt framfaraskref í hagstjórn þjóðarinna

Ein merkasta nýjung hagstjórnar og ríkisfjármála er ríkisfjármálaáætlun þjóðarbúsins, sem unnin er í fjármálaráðuneytinu. Þetta framfaraskref var tekið í fjármálaráðherratíð Bjarna Benediktssonar. Þessi áætlun hefur það ótvíræða gildi, að í stað eins árs fjárlaga, er dregin upp mynd af ríkisfjármálunum til allt að 5 ára. Stefnumörkun og áætlun um rekstur, framkvæmdir og tekjustreymi er rammað inn í þessa áætlun. Í henni má í reynd lesa hvað er hægt og hvað er ekki hægt, m.v. gefnar forsendur. Hinn almenni markaður fær hér veigamikla leiðsögn um hvers má vænta, af vettvangi ríkis og fjármála. Mynd sem sárlega hefur vantað og hefur án alls vafa verið einn þáttur í glundroða hagstjórnarinnar. Þessi áætlun tekur m.a. niður á jörðina, hátimbraðar væntingar og kröfur úr öllum áttum samfélagsins, kröfur sem ýtt hafa undir þenslu, og hafa skapað verðbólguþrýsting. Það markaðssamfélag sem við höfum byggt upp, byggir mjög á upplýsingum. Gerendur í þessu samfélagi eru stöðugt að leita upplýsinga, til að meta stöðu sína. Upplýsingar sem þeir nota svo í sínum áformum og rekstri. Það er eitt af hlutverkum stjórnvalda að miðla slíkum upplýsingum um hvað þau hyggjast fyrir, sem má orða þannig „ tala við og leiðbeina markaðnum „ Ríkisfjármálaáætlunin er stórt skref í þessa átt og löngu tímabært. Löggjafar- og fjárveitingavaldið, þarf svo að virða og styðja við þessa áætlun og vinna útfrá henni. Sama er að segja um peningastefnuna, sem í þessari áætlun hefur fengið öflugan samherja og bandamann. Að það sé tekist á um þessa áætlun er eðlilegt. Mikilvægast er hinsvegar að sem flestir sjái gildi þessa verklags fyrir samfélagið og slái skjaldborg um gildi þess og framkvæmd.


Að rannsaka rannsóknina

Landsbankinn var seldur 2003 og ríkið fékk ásættanlegt verð, greitt í peningum. Sá sami banki er nú hættur rekstri og allir sem áttu þar hlutafé töpuðu sínu hlutafé.

Allt var þetta heldur sorgleg saga og hefur verið oftsinnis rifjuð upp. Leikendur á þessu sviði hafa í dag snúið sér að öðru, leikritinu er lokið, og allir geta farið heim.

Lærdómur sögunnar er tryggilega skjalfestur og hvort og hvað menn lærðu af þessari sögu, verður hver að eiga við sig. Sumir vilja jú ekkert læra!! Eitt má þó nefna, eftirlit með bönkunum á þessum tíma var í rúst. Það var í rúst af því að það átti að vera það. Markaðurinn var á þessum tíma hjáguð leiksins, og átti að hafa vit fyrir öllum.

Umræða dagsins í dag um þetta mál, er dæmigerð íslensk þrætubókarlist, með mjög pólitísku ívafi. Fyrir suma vantar blóraböggul, eitthvað djúsi, eitthvað til að smjatta á. Svið þessara atburða 2003-4 verður illa vakið með réttu, svo og umhverfið og ótal áhrifaþættir. Til þess þarf frelsi leiklistarinnar og leikhússins.

Bílstjórinn veit að ef hann horfir of mikið baksýnisspegilinn, gleymir hann að horfa fram fyrir sig, hann getur keyrt á eitthvað og drepið sig. Í bankarekstri okkar fyrir hrun „ gleymdi mögulega einhver að horfa fram fyrir sig „ Eða var það svo, sem gamli bankastjórinn minn sagði, það voru menn sem keyptu bankana sem ekki kunnu að reka banka.

Stóra spurning dagsins, kunnum við í dag að reka banka ? Ef við ætlum í því efni að leita liðsinnis vogunarsjóða, legg ég til að við rifjum upp söguna um Rauðhettu og úlfinn, sögu sem við höfum lesið og kennt börnunum okkar. Minni sérstaklega á þann hluta, þegar steinar voru settir í magann á úlfinum, og þegar hann ætlaði að fá sér að drekka, steypist hann í ána.


Þrátefli í Karphúsinu.

Mjög sérstök störukeppni hefur farið fram hjá ríkissáttasemjara. Þar starast á samninganefndir lækna og ríkisins. Læknar lýsa því að ekkert gerist á þessum fundum, og ekkert heyrist í samninganefnd ríkisins, enda er það venjan. Fjármálaráðherra segir að læknar vilji 50% launahækkun. Seðlabankastjóri segir að svigrúm sé til 4% hækkunar launa í landinu. Það er því augljóslega langt á milli samningsaðila. Það versta af öllu er tímasetning þessara samninga. Framundan eru samningar við stórar fylkingar launafólks, og samningar við lækna, hverjir sem þeir yrðu, þannig leiðandi fyrir aðra hópa. Ljóst er að þessi staða er því algerlega óverjandi fyrir ríkið. Almenni markaðurinn verður einfaldlega að byrja. Læknum hlýtur að vera þetta alveg ljóst og að þeirra samningar og kröfur geta ekki undir þessum kringumstæðum, notið nokkurra sanngirni. Þessir samningar eru því fórnarlamb þess að vera á röngum tíma og á röngum stað. Að knýja málið áfram með verkfallsaðgerðum, yfirlýsingum og stóryrðum er því engum til góðs. Þar mun koma sögu að helsti bandamaður lækna í þessari deilu, fólkið í landinu, mun fá nóg og snúast gegn þeim. Deilendur í þessu máli þurfa því að hætta að tala um kaup og kjör og ræða frekar hvernig þeir komast frá þessari fráleitu stöðu. Frestun samninga, eða skammtímalausn gætu verið leiðir til skoðunar.


Fljótum við sofandi að feigðar ósi?

Fljótum við sofandi að feigðar ósi? Verðbólga er lítil nú um stundir, mögulega 1-2%. Fréttir berast af því að fólk taki nú verðtryggð húsnæðislán fram yfir óverðtryggð. Seðlabankinn lækkar stýrivexti og stjórnvöld leggja áherslu á öfluga hagstjórn og stöðugleika. Allt er í góðum gír, eða hvað? Vel meinandi fólk segir, guð láti gott á vita, en aðrir eldri og reyndari hafa ónot í maganum, finnst erfitt að trúa þessu góðum fréttum, segjast hafa séð þetta allt áður. Komandi skuldaleiðrétting ( vegna verðbólgu ) er að verða að veruleika, og léttari greiðslubyrði, þeirra sem fá. Hvers vegna er fólk þá, með kvíða í maganum? • Kjarasamningar fjölmennra stétta eru á næstunni lausir og þessir aðilar ætla að sækja, alvöru kjarabætur, þrátt fyrir orð og brýningar seðlabankastjóra • Stærsti atvinnurekandi landsins, ríkið á því ekki von á góðu. Hærri laun þýðir einfaldlega, aukin halla á ríkissjóði, eða hærri skattar, stöðugleikinn fer út um gluggann, • Hljóðið í atvinnurekendur, á hinum frjálsa markaði, er heldur ekki gott, þegar kemur að getu til almennra launahækkana, • Talsvert launskrið á sér stað, sem segir að sjálftökuliðið er að fá sitt. Við sem þjóð höfum ótal sinnum verið í þessari stöðu, lítið eða ekkert til skipta, en miklar kröfur. Við vitum líka vel hvað lausnum hefur verið beitt: • Til að allt fari nú ekki í bál og brand, er fallist á alveg óraunhæfar krónutölu hækkanir, sem brenna svo á báli verðbólgunnar, • Skuldaleiðrétting aldarinnar brennur upp, nokkrum dögum eftir að hún verður til, • Stóru verkalýðssamtökin telja að þau hafi verið svikin og stjórnvöld eiga þar engan trúnað eða sáttavilja. Hvers vegna? Því sjálftökuliðið hefur nú þegar hrifsað til sína stóran hluta af kökunni ( hagvextinum ) Það er nánast ekkert eftir, Ef það gerist sem hér er lýst, verður uppreisn í landinu og stjórnleysi mun ríkja. Grundvöllur lausnar allra deilumála er að aðilar vilji semja. Sá vilji er ekki til staðar að því séð verður, og hann hefur ekki verið búin til. Staðan er sú að hér ríkir á pappírnum stöðugleiki og velsæld. Í reynd sitja allir á tímasprengju. Nú um margra mánaða skeið, höfum við horft á auglýsingu í sjónvarpinu, sem bendir okkur á lausn vandans og fær fólk til að tala saman. Er þá ekki tímabært að aðilar máls, fái sér kaffisopa !!


Nú er hún gamla grýla dauð, gafst hún upp á rólunum?

Það einkennir okkar umræðu um efnahagsmál, að við búum til grýlur. Grýla dagsins í dag eru gjaldeyrishöft. Ætla má af umræðunni að hverfi þau verði allt gott á Íslandi. Of háir stýrivextir voru grýla síðasta áratugar. Það er vel þekkt aðferð að skapa sameiginlega óvin til að þjappa fólki saman. Kommúnismi og Rússland þjónuðu t.d. þessu hlutverki vel og lengi. Í Rússlandi voru það vondu kapítalistarnir í USA, sem voru notaðir í sama tilgangi. Gjaldeyrishöft eru vond, engin deila um það, líklegast er samt að við losnum ekki við gjaldeyrishöft að fullu, blessuð krónan okkar mun sjá um það. Höftin sem verða að vera, verða hinsvegar „ léttari útgáfa“ en núverandi höft. Það er einhvernvegin þannig að handstýringar henta okkur vel. Í þeim felst vald, oftar en ekki dulbúið, og hvað er dásamlegra en að stjórna á bakvið tjöldin, enginn veit af þér, þú ert einn af þeim innvígðu. Frelsi er auðvitað fjandmaður handstýringar. Handstýringar á einnig fleiri fjandmenn, of miklar upplýsingar, rannsóknarblaðamenn, hleranir og svo má áfram telja.

Efnahagsmál eru flókið fyrirbrigði og stýrist af ótal þáttum, t.d. af því hvað þú hugsar og gerir. Að hægt sé að lækna þar öll mein með einnig pillu, blárri eða gulri er auðvitað ekki hægt. Það þarf ákveðið lítillæti til að viðurkenna og skilja að við höfum byggt upp flókið samfélag, þar sem töfrapillur duga illa. Til að ná árangri þarf margt og margir að vinna saman af trú á að öllu miði í rétta átt. Heildarlausn er vandfundin, enda væri ekkert gaman að lifa, ef aðeins ein lausn finnst. Litla Ísland er háð kröftum sem við ráðum ekki yfir. Markaðir geta lokast, olíuverð getur hækkað á einni nóttu. Þar sem við ráðum okkur sjálf, eigum við því að standa saman, annars gerum við líf okkar óbærilegt !!


Átökin um heilsugæsluna.

Þessi átök geysa ekki aðeins á Íslandi, heldur víða, taka má dæmi frá Bretlandi. Ríkar nágranna- og vinaþjóðir okkar, eiga fullt í fangi með háleit markmið sín.Tæknilegar framfarir hafa verið stórstígar í heilsugæslu.  Menntun og kunnátta starfsmanna hefur aukist.  Allt kostar þetta meira en áður.  Á sama tíma lengist lífaldur og krafa fólks um þjónustu hefur margfaldast.Nútíma heilsugæsla kostar því í dag miklu meira en ríkið vill setja í verkefnið.  Þessi gjá breikkar ár frá ári.  Þessi staðreynd er því miður falin í afneitun og þrasi stjórnmálanna.Besta mögulega heilsugæsla er ekki í boði á Íslandi, hún kostar of mikið. Það sem við fáum er frekar það sem við höfum efni á, þá stundina.Þeir sem nota heilsugæsluna okkar, eru 95% sammála því, að hún sé frábær. Starfsemin er borin uppi af frábæru fólki, sem gerir kraftaverk á hverjum degi. Allir finna það hinsvegar á sér að þetta getur ekki gengið svona áfram.   Kerfið er keyrt áfram „ á hnefanum"  og það er ekki sjálfbært, það safnar skuldum í beinni og óbeinni merkingu.Umræðan um þetta kerfi er hinsvegar ákaflega viðkvæm.  Sérstaklega vegna getu og úrræðaleysis.  Endalausum tölum er kastað fram til að sanna, eða afsanna, eitthvað sem ekki er, ég leyfi mér að tala um þetta sem töluklám.Sé talað við fólkið á götunni, eru a.m.k. 95% sammála um að þeir vilji besta heilbrigðiskerfi sem völ er á.  Þetta sama fólk telur sig þegar hafa borgað fyrir þetta kerfi. Markmiðið er alveg skýrt.  Þegar ástvinir eiga í hlut, og þú þarft að nota kerfið verður þetta markmið enn skýrara.Það að fjármögnun heilbrigðiskerfisins er inni á fjárlögum, í félagsskap með öllu því bixi sem þar er, er í hæsta máta óheppilegt.  Hvers vegna?   Ef ég fer rétt með þjóðarviljann, eru heilbrigðismál ekki skiptimynt í hrossakaupum stjórnmálamanna.   Heilbrigðismál eru dauðans alvara.Núverandi kerfi riðar til falls.  Það er ekki sjálfbært og ekki samkeppnisfært. Markmiðin um sömu heilbrigðisþjónustu fyrir alla riðar til falls og er endanlega úr sögunni næsta sumar þegar ný tilskipan Evrópulanda tekur gildi.  Þá munu peningarnir endanlega ráða.Séu einhverjir sammála þessari dökku mynd, má spyrja hvað er til ráða.  Fyrsta skrefið er, að við viljum besta kerfið, og nægilegur hluti þjóðarinnar styðji það markmið.  Næsta skref er að í besta kerfið séu settir peningar sem duga, annars er markmiðið einskis virði, innihaldslaust blaður.  Þriðja skrefið er ný hugsun í fjárlagagerð og eftirliti almennings, markaðir tekjustofnar, sem hafi þá stöðu að við þeim er ekki hróflað.

Hinn nýi stjórnmálaflokkur, viðreisn.

Það verður fróðlegt að fylgjast með stefnu og starfi þessa nýja flokks. Ekki síst vegna þess að í hópi stofnenda hans er mikið mannval, fólk með reynslu, og þekkingu á stjórnmálum.  Að það sér ástæðu til að stofna nýjan flokk eru, slæmar féttir, fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Flokkurinn er væntanlega hægri flokkur, hvað sem það hugtak segir okkur í dag.  ESB línan mun örugglega safna saman stórum hópi fólks úr öllum stjórnmálaflokkum. Hvað varðar önnur stefnumál, verður athyglisvert að fylgjast með, því þar er að verða þröngt á þingi.  Björt framtíð, spútnik flokkur, sveitarstjórnarkosninganna, skilgreinir sig sem hægri flokk og er því þarna fyrir á palli.  Reynsla Bjartrar framtíðar er hinsvegar vegvísir fyrir hinn nýja flokk, segir í reynd hvað „ selst „ í dag.  Góður maður sagði nýlega að Björt framtíð væri eins og gamli Alþýðuflokkurinn, meinti þá væntanlega, sósial demókrataískur flokkur, flokkur síns tíma.  Allt gott um það, en stjórnmálaflokkar verða fyrst og fremst að vera flokkar nútímans og kunna að pakka stefnu sinni í pakkningar dagsins í dag.  Er það mögulega núverandi vandi Sjálfstæðisflokksins.

Að viðreisn verður til, eða eigum við að segja þarf að verða til, eru ekki góðar fréttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Þessi stóri flokkur 35-40% flokkur hefur verið hægt og bítandi að missa flugfjaðrir sínar.  Í alþjóðlegum samanburði viðist það sama vera að gerast og nægir að benda á þróunina í Bretlandi og á Norðurlöndum.  Fleiri flokkar spretta upp, sem geta haft skýrari stefnu, og geta talað til afmarkaðri hópa.  Vandi stóru flokkanna er að þeir þurfa að tala tungum tveim.  Hér er Sjálfstæðisflokkurinn einnig dæmi, ESB sinnar í flokknum hafa lengi verið hundóánægðir, en verið með  á grundvelli óljósra yfirlýsinga, og trúar á grundvallarstefnu flokksins.  Þegar átti að skerpa línur, tala skýrt fór allt í bál og brand.

Fólk á að vera í flokki þar sem það getur unnið að hugsjónum sínum með öðru eins þenkjandi fólki.  Ekki að eyða kröftum í innanhúss deilur sem svo engu skila.  Í þeim anda á að senda bestu kveðjur til vina okkar í Viðreisn, með góðum óskum og von um samstarf, þar sem það er mögulegt.


Margumrætt afnám gjaldeyrishafta.

Gjaldeyrishöft og leyfisveitingar eru ekki ný á Íslandi.  Fyrir þá sem þekktu fyrri haftatímabil, voru þau tímabil skrifræðis, langrar setu á skrifstofum eða í banka til að fá leyfi eða yfirfærslu.  Úthlutun gjaldeyrisleyfa, þó um þessi mál ættu að gild reglur, var handahófskennd og alltaf á henni stimpill spillingar og hugamunagæslu.

Hvað átti að gera, þjóðin átti ekki meiri gjaldeyrir og eftirspurn var meiri en framboð.  Það var því ekki hægt að kaupa allt, það varð að forgangsraða, voru rök haftanna.  Almenningur og viðskiptalífið fundu svo sannarlega fyrir höftunum  á þessum tíma.

Höft dagsins í dag eru öðruvísi.  Almenningur finnur í reynd ekkert fyrir höftunum.  Fólk fær nægan gjaldeyrir til ferðalaga, annaðhvort beint í banka eða á kortum.  Nægar vörur eru í búðum og þar engan skort að finna.  Fyrirtæki flytja inn vörur nokkuð óhindrað og hægt er að greiða fyrir alla venjulega þjónustu.  Það er á sviði stærri fjárfestinga og stórgreiðslna sem höftin bíta eitthvað. Einhver gæti sagt að þar hafi verið alveg tímabært að gæta aðhalds.

Höft dagsins í dag eru því einhver „ mýksta“ útgáfa hafta sem við höfum kynnst.

Höft eru aldrei góð og huglæg áhrif þeirra verst. Fyrir erlenda fjárfestingu á Íslandi eru þau ekki góð.  Ástæða er þó til að minna á að flestar stórframkvæmdir á Íslandi hafa verið gerðar, með sérsamningum og ýmsum ívilnunum við fjárfesta til að laða  þá hingað,  gjaldeyrishöft eða ekki.

Sá ójöfnuður sem er í gjaldeyrisjöfnuði á Íslandi í dag og í fyrirsjáanlegri framtíð er því mjög afmarkaður og vel þekktur og mögulega ofmetinn.  Líklegast er, að á meðan við höfum krónuna, verðum við að hafa, höft af svipaðri gerð og við höfum nú.

Það er því óþarfa dramatík að teikna upp mynd af „ hnípinni þjóð í vanda „ þegar gjaldeyrishöft eru annarsvegar.  Stjórnvöld þurfa einfaldlega að stíga fram og leysa „ vandann „ þar sem hann er.  Til þess hafa stjórnvöld öll færi, sé það gert á viðskiptalegum forsendur og fordómalaust.


Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband