Færsluflokkur: Bloggar

Þetta er minn makríll !


Stöðugar hótanir berast frá ESB, ef ekki verður fallist á „ þeirra leið „  í makríldeilunni.  Mikið ber á milli aðila í hugmyndum um lausn deilunnar. Deiluaðilar eru brýndir af sínum mönnum, að gefa nú ekki tommu eftir. Að standa í fæturna, eins og heitir í dag.
Það er jafnframt alveg ljóst, að núverandi ástand, sem sé að deiluaðilar taki sér kvóta að eigin mati, leiðir til ofveiði og er engum til sóma.  Fyrir okkur íslendinga, sem höfum fylgt mjög ábyrgri stefnu í okkar fisksveiðistjórn er þetta óbærilegt ástand.  Fyrir ESB fiskveiðiþjóðir, sem um árabil hefur verið stunduð rányrkja á eigin stofnum, er vægt til orða tekið, falskur tónn í vandlætingu þeirra í okkar garð.
Núverandi vopnaskak deiluaðila minnir óneitanlega á fyrri landhelgisdeilur okkar. Minni í því sambandi á,  að þrátt fyrir mikil átök, var að lokum samið.  Í makríldeilunni liggur fyrir að leysa verður málið með samningum.
Hin svokallað makríldeila, er dæmi um eignaréttur á óveiddum fiski, sem flakkar um hafið í leit að æti og þekkir ekki landhelgismörk. Makríll er ekki eini flökkustofninn sem er í hafinu. Stöðugar breytingar á lífríki hafsins, gera það að verkum að enginn veit hvenær næsta „ makríldeila" mun koma.  Stóra verkefnið er að finna leiðir til að leysa deilur um flökkustofna.  Fyrir okkur er það spurning um Norður - Atlandshafið.
Rök í núverandi deilu eru innlegg í þessa umræðu. Bóndi á lamb, gangi það sumarlangt á landi annars bónda, á þá sá bóndi lambið? Íslendingar segja, við fóðrum hundruðir- þúsunda tonna af makríl fyrir ykkur, við megum alvega veiða úr þessum stofni eins og við ákveðum. Er það lausnin að rekja sig eftir leið nýtingaréttarins, sem oftar en ekki byggir á veiðireynslu?
Skortur á skýrum eignarrétti, orsakar ofveiði, aðilar beita sjálftöku og allir skaðast. Hótanir leysa engan vanda, ræða þarf leiðir, sem vísa veginn til framtíðar.

Það er skýr krafa um aukið lýðræði, segir forsetinn.

Það verður þá að draga þá ályktun að í dag sé ekki nóg lýðræði.  Okkar fyrirkomulag með fulltrúalýðræði og kosningar á 4ra ára fresti, sé ekki nóg.  Þjóðin vilji, eitthvað sem kalla má, meira hands on kerfi, hún vilji meiri, dagleg, mánaðarleg áhrif, ekki á 4ára fresti. Útfærsla þessa vilja þjóðarinnar er þá væntanlega verkefnið. 


Þegar þetta er hugleitt kemur ýmislegt upp í hugann:

  • Hefur fulltrúalíðræðið „ skemmst" ? Þegar notað er orðið „ apabúrið „ um þjóðþingið er ekki von á góðu,
  • Hvers vegna eru allra augu á Alþingi, þaðan eiga að koma allar lausnir. Hvað um framtak einstaklinga, og að vitið og lærdómurinn verði í askanna látið,
  • Er það svo að í dag ríkir enn ástand óttans, ( eftir hrunið ) hugsanagangur þess sem hefur verið svikinn. Ótti við að ekkert hafi breyst, og þau mannlegu viðbrögð, ég verð að fylgjast betur með, ég verð með einhverjum hætti að hafa meiri stjórn á atburðarrásinni. Annars kann tilveru minni að verða aftur ógnað, að ég og mínir hafi ekki nóg,
  • Ótti er ekki góður vegvísir í lífinu. Er sú hugsun að það sé engum að treysta leiðarljós farsælla ákvarðana?  Hefur þessi ótti sundraða þjóðinni, skipt henni í hópa ? Svari hver fyrir sig.
  • Til að eyða ótta þarf m.a. upplýsingar. Upplýsingar sem allir treysta, hlutverk hlutlausra fjölmiðla er aldrei mikilvægara enn á svona tímum. Sú hugsun að fjölmiðlar séu í eigu og höndum aðila sem ekki virða þetta hlutverk, er blátt áfram skelfileg. Máttur fjölmiðlanna og baráttan um þá segir okkur líka að hagsmunaöflin vita um hvað leikurinn snýst,
  • Ef þú átt bátt ferðu til mömmu og fullorðna fólkið fer til sálfræðings. Hvert fer þjóð í vanda? Hún þráir sálusorgara, sem hægt er að treysta, einhver sem talar kjark í hana, hefur framtíðasýn og er ekki með hausinn í klofinu. Hvers vegna dettur manni í hug, hinn menntaði einvaldur, einvaldur um stundarsakir auðvitað á meðan allt lagast. Þegar allt er komið í lag fer einvaldurinn heim til sín og gamla góða lýðræðið tekur við. Hver er hinn menntaði einvaldur Íslands, sá sem mun rétt okkar kúrs og stýra okkur hinum í heila höfn. Tillögur og hugmyndir vel þegnar. Ég veit hinsvegar um einn sem telur sig rétta manninn !!

Galli lýðræðisins er líka sá að það er í eðli sínu svifaseint, samræðupólitík er tímafrek.  Það eru svo margar skoðanir, það eru svo margir vitrir menn, það er svo lítið umburðarlyndi  og þolinmæði gagnvart skoðunum annarra. Er vandinn sá, að of margir vilja ráða, einhvern vegin finnst mér það.  Það hefur aldrei gefist vel að hafa marga skipstjóra á skútunni.

Eitt er víst við megum ekki gefast upp, leitin að " besta lýðræðinu ", verður að halda áfram !! 

 


Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB aðild:


Vandi þjóðaratkvæðagreiðslna er að spurningar þurfa að vera skýrar og að það sé helst hægt að svara þeim með já og nei. Að spurningar séu ekki þannig orðaðar að þær megi túlka á ólíka vegu. Að það sé vitað hvað á að gera við niðurstöðuna. Að málefnaleg kynning fari fram, þar sem yfirleitt eru á ferðinni stórmál fyrir þjóðina. Varðandi kynningu álít ég að við stöndum betur að vígi í ESB málinu en öðrum sem skotið hefur til þjóðarinnar.
Ég hef hér stillt upp nokkrum spurningum til gamans.
  • Ég vil strax slíta núverandi aðildarviðræðum,
  • Ég vil klára núverandi aðildarviðræður, og ákveða svo næstu skref,
  • Ég er mjög hlynntur aðild að ESB. ( Hvers vegna væri gaman að vita ),
  • Ég er andvígur aðild að ESB. Hvers vegna ?

o Afsal á fullveldi,
o Þýðir endalok íslensks landbúnaðar,
o Við missum yfirráð yfir auðlindum okkar.

  • Ég vil í ESB, því þá eigum við kost á, traustri alþjóðlegri mynt.
Á Ísland að ganga í ESB ?   Spurningin er, er þetta dæmigerð já og nei spurning. Varla, dæmi:
  • Svar mitt er já ef við fáum góðan samning,
  • Svar mitt er nei, af því að við höfum EES samninginn og hann nægir mér,
  • Svar mitt er já, því ég óttast að EES samningurinn líði undir lok.
Þegar maður horfir á þessa mynd kemur eftirfarandi upp í hugann:
  • Í rauninni er þetta ekki kosning um einfalda og skýra kosti. Þetta er frekar skoðanakönnun. Útfærslan ætti því að vera vönduð og ítarleg skoðanakönnun,
  • Slík könnun, gæfi miklu betri mynd af raunverulegum vilja þjóðarinnar í þessu máli. Ef það er þá raunverulega það sem menn vilja - að fá fram vilja þjóðarinnar.
  • Það á að gleyma öllum hugmyndum um þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnakosningum. ESB aðild - kosning er stórmál og verður að standa ein og sér. Að hafa hana samhliða öðrum kosningum, þýðir að slík kosning skyggir á sveitarsjónarmál, sem er mjög óheppilegt.
Ég skil því vel að okkar nýju ráðherrar vilji hugsa þetta mál vel og vandlega.

Skuldavandi, tilvistarvandi Suður - Evrópuríkja.

Við könnumst við umræðuna um að suður-evrópuríki, þau séu sérstaklega óábyrg í stjórn-  og fjármálum.  Sönnun þessa, sé staða þeirra í dag.
Tvö ríki eru þar nú í sérstökum vandræðum, Grikkland og Portugal.  Þessi ríki tóku mikið af lánum, á þeim tímum þegar lánsfé var ódýrt og auðfengið. Þessi lán þarf nú að borga til baka. Þrautaganga þessara þjóða er sú sama:

  • Þegar greiða á skuldirnar, eru allar forsendur breyttar, það er skollin á kreppa, allt er á niðurleið, greiðslugeta er engin,
  • Greiðsluþrot blasir við, leitað er til ESB um fjárhagsaðstoð. Eftir japl og fuður er björgunarlán veitt. Skilyrði lánsins eru hinsvegar mjög harkarleg, þó ekki sé meira sagt,
Allt þetta ferli er þannig að hlutaðeigandi þjóðir eru niðurlægðar og um þær rætt sem þurfalinga á öðrum þjóðum ESB.  Allt til að réttlæta björgunarlánið frá lánveitendum.
Það er stundum sagt að þjóðir fái þá stjórnmálamenn, sem þær eiga skilið, og hafa valið þessa menn í lýðræðislegum kosningum.  Örugglega rétt, en í fæstum tilfellum eru þessir menn ábyrgir,  reikningurinn lendir á almenningi.
Hver er svo staðan í þessu hildarleik tökum dæmi:
„Hagstofa Grikklands greindi frá því í gær að atvinnuleysi í Grikklandi í janúar hefði verið 27,2% samanborið við 21,5% á sama tíma fyrir ári. Fram kemur á fréttavefnum Eurobserver.com að 34% atvinnuleysi hafi hins vegar verið í aldurshópnum 25-34 ára. „
Líf heilla þjóða er sett í þá stöðu, að fólk lifir við hungurmörk, og jafnvel þó fólk vilji vinna er enga vinnu að fá.  Almenn lífskjör eru færð afturábak um áratugi. Enginn er bættari, geta til að greiða lán, hefur stórversnað, og það eina sem er víst er að það þarf meiri lán, meiri niðurlægingu, meira vonleysi og landflótta.
Allir ættu að vita, að öll þessi gömlu lán eru töpuð, þau átti að afskrifa strax, ný lán ef þau voru þá fáanleg,  áttu að ganga til uppbyggingar.
Þeir björgunarpakkar sem suður-evrópa hefur fengið, snúast ekki um fólkið í þessum löndum eða líf þess. Þetta er talnaleikur fjármálastofnana, sem ekki geta horfst í augu við staðreyndir, að lán þeirra eru töpuð.
Haldi einhver að þjóðir sem hefur verið „ slátrað „ með þeim hætti sem gert var borgi eitthvað eða vilji borga. Aldeilis ekki, raunveruleiki þessara þjóða er að halda lífi frá degi til dags.
Evrópsk saga ætti að kenna arkitektum fjármálalausna liðinna mánaða, hvað gerist. Þjóðverja þekkja sína sögu og stríðsskaðabætur fyrri heimsstyrjaldar. Í stjórnmálum hefur verið skapaður grundvöllur fyrir öfgahópa. Upp rís tvöfalt hagkerfi, engir skattar eru greiddir og leið upplausnarinnar er ráðin.
Er þetta sú Evrópa sem menn vilja byggja upp,  er þetta Evrópa friðar og réttlætis. Auðvitað ekki.  Þó þessi lýsing á ástandinu, sé yfirmáta einfölduð, dregur hún upp dökka mynd.  Mynd af stöðu sem bitnar á fólki, fólki sem vill lifa lífinu, eiga börn og vera hamingjusamt. Á þetta að snúast um eitthvað annað !!

 

 


Raunasaga Íbúðalánasjóðs á 2.000 síðum.


Afleiðingar hrunsins 2008 og umdeilanlegrar hagstjórnar s.l. 10 ár, eru enn að koma fram.  Nýjasta innleggið er ný skýrsla um Íbúðalánasjóð. Mikil skýrsla að vöxtum.  Næsta gusa er svo væntanlega skýrsla um Sparisjóðina, ris þeirra og fall.
Vandi Íbúðalánsjóðs hefur lengi verið kunnur og málinu haldið á floti, með smáskammtalækningum.  Í skýrslunni er myndin skýrð og taptölur staðfestar, verulega hærri en svartsýnustu spár.  Mikil vinna hefur verið lögð í þessa skýrslu.
Á fyrsta degi skýrslunnar logar öll umræðan í pólitík, enda málið eldfimt pólitískt. Þannig verður margt í innihald skýrslunnar vatn á myllu pólitískrar deilumála í staða efnislegrar umræðu.  Framundan er því langt pólitískt þras um orðna hluti og ábyrgð sem að lokum enginn axlar. Enda margir sem komu að þessu hættir í starfi eða pólitík.  Skýrslan kemur eins og kölluð í gúrkutíð fjölmiðla.  Umræðan mun taka tíma fólks, sem ætti að nota tíma sinn í annað, núið frekar,  enn fortíðina. Réttlæting umræðunnar er að nú eigi að læra af fyrri mistökum. Ef einhver lína er í öllum þessum skrifum, þá er hún sú, að við lærum ekkert, hlustum ekkert !!
Mín skoðun er að það eigi að loka Íbúðalánsjóði og skipa honum slitastjórn. Byggja þarf upp nýtt kerfi, væntanlega með bönkunum. Félagslega þætti þarf að vista annarsstaðar.
Verkefnið er framtíðar kerfi fjármögnunar íbúðalána, og aðkoma ríkisins að þeirri uppbyggingu, sé hennar þá þörf.  Í þessu efni þurfum við ekki að finna upp hjólið, aðrir hafa líka svona kerfi.
Langdregin umræða um fyrri vanda Íbúðalánasjóðs og forvera hans, er að mínu viti aðeins til að skemmta skrattanum.

Er króna ekki króna?


Nei ekki ef hún er í eigu útlendinga sem eiga kröfu í þrotabú á Íslandi.  Þeirra króna er verðminni, mögulega hálf króna.
Hvers vegna er þetta. Vegna þess að eigandi þessarar krónu vill fá henni skipt í erlendan gjaldeyri.  Hvað ef hann vill það nú ekki, þá er þetta samt vond króna, og það ber að takmarka það sem kaupa má fyrir hana á Íslandi.
Þessi króna bætist nú í krónusafnið, vísitölukróna, aflandskróna, hrægammakróna, launamannakróna osfv.
Stjórnvöld boða áframhaldandi gjaldeyrishöft, höft af illri nauðsyn að sjálfsögðu og til skamms tíma. Staða sem okkur er ekki ókunn á liðnum áratugum.  Næsta skref, nýjar gjaldeyrisskömmtunar deildir í bönkunum, því Seðlabankinn ræður ekki við þetta. Þar er skömmtunin nú.
Handstýrða gengi krónunnar er að sjálfsögðu rangt, enda viðurkennt í viðskiptum tengdum aflandskrónum. Næsta stig, svartamarkaður með gjaldeyri, í upphafi með gjaldeyri frá ferðamönnum.  Stór viðskiptavinur, hrægammakrónur.
Afleiðing, spilling, óréttlæti, siðferðisbrestur.  Allt hlutir sem við höfum séð áður.
Lausnin, vel þekkt og troðin slóð. Í stað haft komi frelsi, raunsæi á stöðuna, kjarkur til að gera það sem þarf.

Að hugsa um heilsuna.

Umæða um heilsu og hollustu, hefur aldrei verið meiri.  Mögulega hægt að segja að það að fylgjast með og vera ábyrgur, sé að verða full vinna.
Ég fékk fyrr á árinu illvíga sýkingu í nef með tilheyrandi nefrennsli og óþægindum. Margt kom til greina sem orsök, frjóofnæmi, vírusar og sitthvað.  Gekk í gegnum 3 kúra af bakteríudrepandi lyfjum, augndropum og spreyi.  Allt kom fyrir ekki, nefrennslið kom alltaf til baka.
Hitti í framhaldinu góðan sérfræðing sem sendi mig í ennisholumyndatöku. Þá kemur í ljóst óeðlileg blaðra, sem ekki átti að vera. Niðurstaðan var að stinga á hana og sjá hvort meinið lagaðist ekki í framhaldi.
Það voru nokkrir hlutir áhugaverðir við þessa reynslu.  Það kom fram á myndum að blaðran gat verið gömul, jafnvel  áratuga gömul.  Gat þannig verið skýring á langvarandi kverkaskít sem hafði bagað mig um árabil.  Mér varð á orði við lækninn að það væri þó aldrei svo að maður kæmist ekki í lag áður enn maður væri lagður í gröfina.
Næst á dagskrá hjá mér í viðhaldi og endurbótum er skoðun á blöðruhálskirtli og þarmaspeglun.  Félagi minn sem búið hefur í USA segir að þarlendir séu skipulega kallaðir í slíka speglun eftir fimmtugt.
Viðhald og endurbætur hafa kostað mig 30-40.000 krónur á liðnum mánuðum. Ég er sem sé góður viðskiptavinur lyfjaframleiðenda og heilsugæslunnar og sé fyrir mér almennt vaxandi viðhaldskostnað.   Þakka guði fyrir öll þessi úrræði og það góða fólk sem í þessu vinnur. 
Á biðstofum þar sem ég hef komið er allt fullt af fólki, það þurfa greinilega fleiri viðhald enn ég.  Val lesefnis á biðstofum, aldur þessa lesefni og smá hugarflug um hreinlæti áragamalla blaða, er efni í martröð og sérstaka pistla.

Að blása okkur bjartsýni í brjóst.


Þegar við eigum erfitt þurfum við á því að halda að einhver komi og lífgi okkur upp. Tali af bjartsýni, tali um möguleika og tækifæri, að nú sjáist þess merki að hlutirnir fari að breytast til batnaðar. 
Við rifjum upp nöfn forystumanna sem við höfum kynnst á ævinni og dáumst að þeim einstaklingum sem hafa þennan hæfileika. Við viljum líka að svona „ pep talk „ hafi innihald, sá sem talar verður að hafa þá stöðu í okkar huga að við trúum því  sem þessi hann segir.  Þetta er munurinn á fagurgala og trúverðugleika. Ekki skemmir nú fyrir að bjartsýnin sé skemmtileg, við getum hlegið af öllum vandræðunum og hlegið okkur inn í bjartari framtíð.
Við þekkjum aðila sem hafa þennan hæfileika að lyfta upp umhverfi sínu, hafa þessi smitandi áhrif, nýrrar vonar og að allt lagist og það komi raunverulega betri tíð með blóm í haga.  Svona  einstaklingar eru hvarvetna verðir þyngdar sinnar í gulli, við köllum þá leiðtoga, forystumenn.
Við trúum því að góður forystumaður sjái lengra en við hin. Hann sé fær um að lesa hlutina, vinna úr upplýsingum, leiða hópinn, enda hafi hann sýnt og sannað að hann sé vel til forystu fallinn.  Hvað viljum við sjá í fari þessa aðila:
• Heiðarlegheit, og traust,
• Viðkomandi vinni fyrir fjöldann en ekki aðeins sjálfan sig,
• Hann geti unnið með fólki og hafi einlægan áhuga á mannlegum vandamálum og samskiptum,
• Hann sé vel menntaður og víðsýnn,
• Hann hafi sýnt sig að vera góð manneskja,
• Hann hafi, bein í nefinu og standi á sínu, þó á móti blási.
Mér detta margir í hug sem gætu verið á mínum lista. Hef hann að sinni fyrir mig, því annars segði einhver nei þessi passar ekki, hann er drullusokkur.   Ég legg til að við leitum skipulag að svona einstaklingum, því við þurfum á þeim að halda. Að við leyfum þeim að blómstra en gerumst ekki hælbítar og úrtölumenn, list sem er í hávegum höfð í dag og er kölluð gagnrýni.
Leiðtoginn talar um framtíðina hvaða markmiðum hann vill ná og hvaða þátt við öll eigum í þeim áformum.
Hann tengir saman fortíð og framtíð, hvað hefur verið gert. Hann minnir okkur á það sem við getum verið stolt af, hvað hefur áunnist og af hverju.
Við megum ekki gleyma okkur í fortíð, en við verðum líka að hafa framtíðarsýn. Það fyrirtæki sem er alltaf að tala um fortíðarsigra, er á hættulegri braut, það vantar framtíðardrauma til að tala um.

Mér finnst forsetinn okkar vera fremstur meðal jafninga, nú um stundir.  Þekking hans og staða passar allavega vel inn í þá mynd sem ég hef lýst hér að ofan.


Jólabókaflóðið

Útgáfa jólabóka er hluti af okkar jólahefð.  Magn þessara bóka hlýtur að vekja undrun allra nema okkar. Jóla og áramóta - hefðir okkar eru nú reyndar að verða „ túristaattraction „  túristar  leggja það á sig að koma hingað til okkar í svartasta skammdeginu. Veri þeir velkomnir og bestu jóla- og nýársóskir til þeirra allra.

Aftur að jólabókunum. Þessi markaður hefur breyst í tímans rás. Ævisögur voru ákaflega vinsælar um árabil og sögur af dulrænum fyrirbrigðum.  Auðvitað hefur allt sinn tíma og markaðurinn vill eitthvað nýtt. Það nýja var glæpasagana. Fyrirsagnir voru um að við ættum í dag, glæðasagnahöfunda á heimsmælikvarða, minna mátti það ekki vera. Þannig var Arnaldi og Yrsu lyft til skýjanna.  Nýir höfundar hafa svo sótt inn á þennan markað, það þarf að skrifa það sem markaðurinn vill.
Það var ljóst að þessi jól áttu að vera glæpasagnajól eins og fyrri jól.  Þegar einhver ætlar að hafa vit fyrir þjóðinni, eins og t.d. hvaða forseta hún á að kjósa, gerist það skemmtilega á Íslandi, þjóðin vill ekki láta troða einhverju ofaní sig !!!  Hún vildi heldur kaupa bókin um einfarann Gísla á Uppsölum.  Hefur  fólk mögulega fengið nægan skammt af glæpum og morðum, þó á bók sé.  Finnur frekar tengingu í Gísla, sérvitringinn sem þreyir þorrann og góuna í afskiptum dal á Vestfjörðum. Auðvitað átti Gísli,  á vissan hátt bágt í dalnum sínum, þannig er líka staða margra í dag, þó dalurinn hafi einhverja aðra mynd.  Ævi Gísla, snertir vissulega einhverja taug í þjóðarsálinni.  Gísli er nýrri útgáfa af Barti í sumarhúsum, persónur sem ná til okkar. Persónur sem vilja frelsi, en fá það aldrei.
Gísli var alger andstæða glæpamannsins sem drepur fólk með köldu blóði, hugsunarháttur sem flestu fólki er framandi. Hefur þessi „ glæpadýrkun „ mögulega gengið of langt ?
Auðvitað eru Arnaldur og Yrsa heimsfræg, annað væri það. Fyrirsagnir þurfa að ná athygli, en hvað sem líður fyrirsögnum, er það Gísli á Uppsölum sem á vinninginn. Það er þá þrátt fyrir allt eitthvað jarðsamband hjá þessari þjóð. !!


Gátu stjórnvöld gert eitthvað - Landsdómur.

Af framburði vitna er ljóst að mat manna á stöðu bankanna var ákaflega misjafnt. Vandinn var mönnum ekki ljós, hvorki að umfangi eða eðli.  Af þeirri ástæðu einni var ekki hægt að ætlast til að stjórnvöld gerðu þær róttæki breytingar sem hefði þurft  að gera. Hershöfðinginn var ekki á sviðnu. Að tækin voru ekki til er ekki sannfærandi, stjórnvöld gátu ef þurfti búið þau til.
Strax frá 2006-2007 var staða bankanna þannig að enginn þorði að gera neitt, óvarleg orð þýddu að þeir færu á hausinn, enda þá þegar komnir á hausinn. Allir voru í reynd fangar þessarar óbærilegu stöðu að dansa með í hrunadansinum.        „ Allir höfðu þá skyldu að reyna að gera það besta „  hvaða logik sem það nú var.
Þær aðgerðir Seðlabankans, stórlán til Kaupþings nokkrum dögum fyrir hrun og tilboð um yfirtöku á Glitni, voru aðgerðir í hróplegri mótsögn við þá skýringu forráðamann bankans um að þeir hafi lengi varað við stöðu bankanna og yfirvofandi hruni. Ef þetta var svona ljóst, voru þessar aðgerðir ekki réttlætanlegar.  Þessar tvær aðgerir voru einnig af þeirri stærð og eðli að teljast stærstu mistök þessarar sögu.  Reyndar slapp mál Glitnis fyrir horn, sem ekki var Seðlabankanum að þakka.


Vitanleiðslur fyrir Landsdómi hafa varpað ljósi á margt áhugavert og hafa haft ótvírætt gildi.  Þær sýna einnig þörfina á því að loka þarf þessu máli og atburðarás þessa tíma tekur æ meira á sig form sögu  á kostnað raunveruleikans. 
Ítarlegri rannsókn þessara mála gerir hlut bankamannanna sífellt verri.  Þeir sjálfir og þeirra málstaður er öllum heillum horfinn. Þar fór fram glæpastarfsemi og siðferði sem vart á sinn líka.  

Í stjórnmálum þarf að loka þessum kafla sögunnar. Enginn mun græða á áframhaldandi deilum. Það að auka virðingu og veg Alþingis, ætti að vera í dag sameiginlegt markmið allra sem þar starfa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband