13.12.2011 | 08:41
Íslenska krónan og nauðgun hennar:
Umræða um það hvort ÍSKR eigi að fara eða vera, hefur staðið um árabil. Vissulega er þetta flókin umræða og margt sem þarf að koma til skoðunar. Mikil þekking hefur hinsvegar skapast um þá valkostum sem í boði eru. Þannig geta allar ákvarðanir um breytingar verið byggðar á reynslu og traustum grunni. Ég tel að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir ólíkum hagsmunum í þessari umræðu. Þeim má gróflega skipta þannig:
1. Stjórnvöld, sem ráða stjórn efnahagsmála. Fyrir stjórnvöld er ÍSKR mikilvægt tæki til hagstjórnar. Nefnum aðeins gengisfellingar og seðlaprentun,
2. Einstaklingar og fyrirtækin í landinu. Notendur krónunnar og þolendur efnahagsaðgerða stjórnvalda.
Í allri umræðunni skiptir miklu máli hvoru megin borðs þú situr. Fljótt á litið ættu hagsmunir 1 og 2 að fara saman, stjórnvöld eru kosin af fólkinu og ættu að vinna með hagsmuni þess í huga. Hér er hinsvegar komið að djúpstæðri tilfinningu margra, að þessu sé alls ekki svona farið. Fólkið í landinu þurfi þess í stað að koma sér upp vörnum gagnvart stjórnvöldum.
Tökum nokkur dæmi til að skýra þetta betur:
1. Stjórnvöld felldu gengið stórkostlega til að rétta af hrunið, sem þau þó báru mögulega ábyrgð á. Óraunhæfir kjarasamningar voru gerðir, sem þau báru líka ábyrgð á. Afleiðingin er skuldir einstaklinga og fyrirtækja tvöfölduðust á einni nóttu. Hvað höfðu þessir aðilar gert af sér, hvernig var hægt að koma svona fram?
2. Í stað þess að horfast í augu við vandann, eru seðlapressurnar keyrðar, fleiri krónur settar í umferð, afleiðingin verðrýrnun krónunnar og verðbólga. Reikningurinn sendur öllum í minni kaupmætti og hærri skuldum.
Sýna þessi dæmi ekki að vandinn er sá, að stjórnvöld á hverjum tíma, geta misbeitt krónunni til að slétta út vanda sem þau hafa sjálf komið sér í. Þau gera það í kraft yfirráða yfir krónunni okkar. Ef við tækjum upp aðra mynt gætu þau ekki gert þetta.
Hvaða varnir eru þá til fyrir okkur einstaklingana og aumingja krónuna gangvart stjórnvaldinu. Tæki sem virkuðu til ögunar og aðhalds og ekki síst, almennrar umræðu. Stjórnvöld geta þá ekki gert hvað sem þeim dettur í hug, málin rekast á einhverja veggi.
- Ný lög um skuldsetningu sveitarfélaga er dæmi um þetta. Sveitarfélag er jú íbúarnir sem þar búa,
- Í USA hefur verið sett skuldaþak á alríkisstjórnina. Miklar deilur og umræða urðu þegar lyfta þurfti þessu þaki. Engin reykfyllt herbergi, málið var upp á borði,
- Gamlar og nýjar hugmyndir um það að samneysla - ríkisútgjöld megi ekki vera hærri fjárhæð en eitthvað hlutfall af þjóðarframleiðslu,
- Skuldaþak á skuldir ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja. Skuldir ríkisins þá hugsaðar sem ógreiddir skattar framtíðar.
- Sveitarfélögum og ríkinu sé óheimilt að taka erlend lán eða skýrar takmarkanir á því.
Fyrir þá sem vilja halda krónunni þarf úrræði, svo henni verði ekki misbeitt eins og hér hefur verið lýst. Jafnvel þótt reynt væri að verja hana með einhverjum hætti og auka aga hagstjórnarinnar er kostnaðurinn við að halda krónunni þrátt fyrir það of hár?
Um bloggið
Jón Atli Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Umræðan um hvaða gjaldmiðil eigi að nota á Íslandi er þörf og e.t.v. nauðsynleg. Í því felst m.a. hvort taka eigi upp gjaldmiðil erlendis frá og bera það saman við þann kost að viðhalda íslensku krónunni. Eins og gefur að skilja er krónan lítið annað en spegill þess efnahagslega raunveruleika sem er á Íslandi. Krónan er því hvorki slæm né góð í sjálfu sér; hún sækir m.a. kosti sína í gæði efnahagsstjórnunar og peningamálastefnu.
Eins og þú bendir réttilega á hefur þessi stjórnun verið með ýmsum hætti, jafnvel slæm og andstæð hagsmunum almennings. Hins vegar ræður vanþroski íslensks efnahagslífs hér miklu, sbr. hve eðli grunnatvinnuveganna. Við erum í grunninn hráefnisframleiðendur og hreyfumst hægt í átt að framleiðslu aukins virðisauka. Þroskaðri efnahagskerfi í kringum okkur búa ekki við sömu sveiflur og við og þetta verður að hafa í huga þegar velt er fyrir sér að taka upp mynt þroskaðri efnahagskerfa.
Ýmislegt fleira kemur hér til en hreinn og klár samanburður efnahagslegra gilda. Myndum við t.d. vilja taka upp kínverska mynt, eða indverska? Varla. Þær myntir, sem koma helst til greina eru dollar; bandarískur eða kanadískur - og evra. Norska krónan held ég að sé óraunhæfur kostur.
Bandarísk stjórnvöld gáfu út á sínum tíma að þau væru jákvæð ef önnur ríki vildu taka upp þeirra mynt. Þekki ekki afstöðu Kanada. Evruna er ekki hægt að taka upp einhliða - þ.e. í andstöðu við Brussel. Að auki eru váleg tíðindi sem berast frá meginlandi Evrópu - bæði hvað varðar evruna sjálfa en ekki síst eðli og umfang ESB. Eitt af því sem hefur skekkt hlutlausa umræðu um upptöku erlends gjaldmiðils er "þráhyggja" þeirra sem vilja ganga inn í ESB - þeir hafa því ekki viljað skoða aðra kosti en evru. Núverandi stjórnvöld eru því ekki trúverðug til umræðu um gjaldmiðilsmál við núverandi aðstæður.
Á meðan Íslendingar búa við meiri efnahagssveiflur en flestar samanburðarþjóðir (efnahagskerfi) er kostur að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil - jafnvel þó mönnum verði á í stjornun efnahags- og peningamála. Hafa verður í huga að mistök af þessu tagi eru ekki séríslenskt fyrirbæri - mönnum verður á erlendis einnig. Upptaka stöðugri gjaldmiðils felur í sér kosti sem m.a. stórir hlutar atvinnuveganna kalla eftir - stöðugleiki er fýsilegur til vaxtar greina sem eru í framleiðslu virðisauka. Aðrir þættir þurfa þó einnig að vera í lagi og því er stöðugur gjaldmiðill ekki töfralausn í sjálfu sér - einungis ein margra stoða.
Upptaka erlends gjaldmiðils yrði í hugum margra lyftisöng fyrir einstaklinga og heimili - og eflaust myndi það flýta fyrir að banka- og lánastarfsemi líktist því sem við viljum oft miða okkur við. Hins vegar má segja að íslenska myntin er hluti af sjálfsmynd okkar - hluti af sjálfstæðinu á feliri sviðum en efnahags- og peningamála.
Ólafur Als, 13.12.2011 kl. 10:52
Takk fyrir þetta innlegg Ólafur. Allt sem þú segir er skynsamlegt og ekki miklu við það að bæta frá minni hendi.
Jón Atli Kristjánsson, 13.12.2011 kl. 13:19
Jón Atli og Ólafur, þessi umræða er sannarlega þörf. Vildi að innan fjölmiðlanna væru fólk sem hefði tíma og getu til þess að fjalla um þennan málaflokk á jafn faglegan hátt. Nærandi fyrir kvöldið.
Sigurður Þorsteinsson, 13.12.2011 kl. 19:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.