Færsluflokkur: Bloggar
10.10.2013 | 10:55
Besti flokkurinn í Reykjavík.
Þegar besti flokkurinn kom fram, ólgaði reiði og óánægja í þjóðfélaginu. Fólki fannst gamla flokkakerfið hafa brugðist, sem í reynd var eðlilegasta ályktun í heimi.
Margir litu á þennan flokk, sem einskiptisflokk, þetta voru grínistar, ungt fólk í sandkassaleik. Foringi flokksins var að leita að þægilegri innivinnu. Flokkurinn féll svo í faðma við Samfylkinguna, þar var fyrir reynsla, krakkarnir voru skriðnir í skjól. Borgarstjórinn fékk að vera borgarstjóri, en hann réði engu, það vissu allir!
Nú um 3 árum seinna, er þessi flokkur stærsti flokkur Reykjavíkur og skákar sjálfum Sjálfstæðisflokknum, að ekki sé talað um Samfylkinguna sem er á góðri leið með að hverfa. Einskiptisflokkur, halló !!
Allir stjórnmálarýnendur verða að fara aftur að teikniborðinu, hvað er að gerast !! Borgarstjórinn upplýsir að fjöldi erlendra aðila og fjölmiðla hafi viljað ræða við hann og fræðast um Besta flokkinn. Áhugi þeirra beinist að því hvort þessi flokkur hafa komið fram með eitthvað nýtt. Lady Gaga finnst borgarstjórinn flottur, og Joko Ono líka. Hún er reyndar mjög maklega orðin heiðursborgari Reykjavíkur. Nýja skoðanakönnunin bendir eindregið til að kjósendur í Reykjavík séu þeirrar skoðunar að þessi flokkur sé eitthvað nýtt.
Nýr flokkur nýtt fólk, fólk sem lítið sem ekkert hefur unnið í stjórnmálum, er óháð valdaklíkum í þjóðfélaginu og hefur ekki spillst ennþá, er þetta styrkur Besta flokksins. Þessi flokkur gat t.d. tekið á málum Orkuveitunnar, sem allir hinir gátu ekki.
Ég hef sjálfur verið að fylgjast með pólitík í áratugi. Í fótbolta er leikmanni sem ekki á góðan dag skipt útaf. Kjósendur í Reykjavík og mögulega annarsstaðar telja auðsjáanlega að ekki dugi minna en að skipta út hálfu liðinu. !!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.10.2013 | 09:45
Fjárlög lýðveldisins 2014.
Ríkisstjórnin hefur lagt fram sín fyrstu fjárlög. Þetta eru einnig fjárlög í framhaldi af kosningaári, sem alltaf eru erfið, vegna mikilla væntinga og loforða, sem fylgja kosningum. Kreppan er búin og nú er hægt að byrja uppbyggingu, við þekkjum þá umræðu úr kosningunum. Þennan loforðaflaum varð að taka niður á jörðina og það hefur tekist mjög vel. Reyndar eru þessi fjárlög dæmi um mikla vinnu stórs hóps hæfileikaríks fólks, sem á heiður skilið.
Ríkissjóðir er því miður kominn í gamalt og þekkt far, miklar skuldir og þess vegna há vaxtabyrði, og mikil uppsöfnuð fjárþörf í öllu kerfinu. Ríkið er með útblásið kerfi velmegunaráranna sem nú þarf að draga saman á erfiðum tímum. Stækkun kökunnar - hagvöxtur tekur tíma og er ekki okkar sérvandamál heldur flestra landa. Meðan kakan stækkar raunverulega ekki, færum við aðeins til peninga í kerfinu, tökum peninga hér og færum þá annað.
Nú hefst fjárlagavinnan á Alþingi, allir lobbíistar munu nú ríða til Alþingis og pressa á að fá leiðréttingu þeirra mistaka sem eru í fjárlagaframvarpinu. Endalaus réttlætismál eru dregin fram í dagsljósið, sannarlega á fjárlaganefnd mikla vinnu fyrir höndum.
Samkvæmt reglum samningatækninnar eru það góðir samningar þegar allir aðilar máls eru mátulega óánægðir. Samkvæmt þessari formúlu eru þetta góð" fjárlög og um leið góð byrjun nýrrar ríkisstjórnar og fjármálaráðherra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2013 | 17:43
Um mannleg samskipti:
Í mannlegum samskiptum er eitt af því erfiðasta að ljúka deilum. Á meðan á deilum stendur er margt sagt í reyði og ótta, orð sem hafa sært og verða ekki tekin til baka. Orð get verið beittara sverð en margur heldur.
Það að sættast, kallar á vilja til að sættast, viðurkenna hlut annarra og slá af ýtrustu kröfum. Sættir taka oft langan tíma, tíminn þarf að vinna sitt verk.
Án þess að nokkur fræði liggi þar á bakvið, held ég að við íslendingar, eigum afar erfitt að setja niður deilur okkar. Í okkur eru einhver gen ósættis og skorts á umburðarlyndi. Fámenni og einangrun gæti hér komið við sögu.
Okkur finnst óþarfi að biðjast fyrirgefningar og stöndum á okkar fram í rauðan dauðann. Fyrirgefning er aðeins fyrir heybrækur og aumingja. Séu líkur á því að sú fyrirgefning komist á spjöld sönnunar, er hún útilokuð.
Gagnrýni er illa tekið, og það er dauður maður sem ekki skilur, að þöggun lifir góðu lífi á Íslandi. Valdið og þöggunin fara hönd í hönd.
Ósætti og neikvæðni er hér gert að umræðuefni, vegna þess að það leggur sína lamandi hönd á allt. Umræðan er ekki kláruð. Fréttir snúast 80% um eitthvað neikvætt, neikvæðni er einfaldlega fréttnæm.
Þess sjást greinileg merki að ráðamenn skynji þetta. Þannig fannst mér það umræðan nú í upphafi Alþingis vera áberandi tilraun til að lyfta andanum, úr lágkúru neikvæðninnar. Eðlileg gagnrýnu er af hinu góða, en það er vandi að gagnrýna og vera uppbyggilegur um leið. Eitt af því sem uppalendur þekkja vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.9.2013 | 10:25
Áfallahjálp heillar þjóðar.
Það er sjálfsagt ekki ofsagt að það eru víða vandamál. Þannig er það reyndar alltaf. Ný ríkisstjórn setti saman langt og mikið plagg, sem var hennar stefnumörkun. Stjórnin er gagnrýnd fyrir stefnuleysi, en í þessu skjali er hinsvegar flest sem hún vill koma í framkvæmd. Já enn stefna er eitt og nú viljum við sjá hvað hún ætlar að gera, það er eini mælikvarðinn segja spekingarnir.
Stjórnmálamenn eru fyrst og síðast manneskjur af holdi og blóði. Þeir einir bjarga ekki heiminum. Ef þeim tekst hinsvegar að fá sem flesta með sér, er hægt að áorka miklu.
Stjórnmálmenn þurfa því að fylkja þjóðinni að baki sér, blása henni í brjóst bjartsýni og dug. Til þess voru þeir kjörnir og til þess hafa þeir fullt umboð.
Vandi þeirra er sá að hér á landi, eins og reyndar víðar, hefur vonleysi heltakið fólk. Alltof stór hópur er að þrotum komin og algengasta setning sem prestar heyra er, ég get ekki meir. Stór hluti þjóðarinnar þarf áfallahjálp.
Nú á allt að leysast með framlagningu fjárlaga, og aðgerðum tengdum þeim. Þetta er hin hagræna hlið. Inn í stóru myndina vantar sálgæsluna, vonina, að einhverju sé að keppa. Hinn gleymdi þáttur lausnarinnar !!! Kunnum við þetta, ef slys verður kemur rétt fólkið á staðinn, áfall heillar þjóðar, aðeins stærra verkefni, en þekkingin er til
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.9.2013 | 13:07
Jarðvegur öfganna.
Í júlí s.l. skrifaði ég færslu um skuldavanda suður- evrópuríkja og sérstaklega Grikklands.
Í færslunni rifjaði ég upp söguna og sagði m.a:
Allir ættu að vita, að öll þessi gömlu lán eru töpuð, þau átti að afskrifa strax, ný lán ef þau voru þá fáanleg, áttu að ganga til uppbyggingar.
Þeir björgunarpakkar sem suður-evrópa hefur fengið, snúast ekki um fólkið í þessum löndum eða líf þess. Þetta er talnaleikur fjármálastofnana, sem ekki geta horfst í augu við staðreyndir, að lán þeirra eru töpuð.
Haldi einhver að þjóðir sem hefur verið slátrað með þeim hætti sem gert var borgi eitthvað eða vilji borga. Aldeilis ekki, raunveruleiki þessara þjóða er að halda lífi frá degi til dags.
Evrópsk saga ætti að kenna arkitektum fjármálalausna liðinna mánaða, hvað gerist. Þjóðverja þekkja sína sögu og stríðsskaðabætur fyrri heimsstyrjaldar. Í stjórnmálum hefur verið skapaður grundvöllur fyrir öfgahópa. Upp rís tvöfalt hagkerfi, engir skattar eru greiddir og leið upplausnarinnar er ráðin.
Er þetta sú Evrópa sem menn vilja byggja upp, er þetta Evrópa friðar og réttlætis. Auðvitað ekki. Þó þessi lýsing á ástandinu, sé yfirmáta einfölduð, dregur hún upp dökka mynd. Mynd af stöðu sem bitnar á fólki, fólki sem vill lifa lífinu, eiga börn og vera hamingjusamt. Á þetta að snúast um eitthvað annað !! "
Nýjar fréttir frá Grikklandi benda til að þessi þróun sé byrjuð. Fréttir eru af uppgangi nasista- og öfgahópa og morðum. Stríðið á Balkanskaganum blossaði upp öllum að óvörum. Þar undir hafði kraumað ósætti jafnvel um aldir. Allt í ein hleypur einhver blossi í púðrið. Evrópubúar hafa síðustu áratugi horft á stríð annarsstaðar en hjá sér. Stríðið á Balkanskaganum var þess vegna mikið sjokk, stríð var skollið á í Evrópu.
Óréttlæti, eða yfirgangur er jarðvegur stríðs, sagan segir okkur allt um það. Verkefnið er að láta ekki þær kringumstæður verða til, birgja brunninn áður enn barnið dettur ofaní.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2013 | 14:38
Fjárfestu í sparnaði á unga aldri.
Lítil saga hljóðar svona. Reykingamaður var í reykpásu með félaga sínum sem ekki reykti. Hvað hefur þú reykt lengi, spurði félaginn. 30 ár sagði reykingamaðurinn. 30 ár, vá sagði félaginn. Reykingar kosta mikið, pakki á dag og þú hefur eytt um 450.000 þúsund krónum á árinu. Hefðir þú fjárfest þá peninga í 30 ár og fengið 8% ársvexti þá ættir þú í dag um 60 milljónir í banka. Þú gætir keypt þér Ferrari.
Reykingamaðurinn hrökk við, reykir þú spurði hann félaga sinn. Nei svarði hann. Hvar er þinn Ferrari ?
Þetta tilbúna dæmi er boðskapur sem í sinni einföldustu myndar hljómar svo. Ef þú sparar snemma á ævinni, t.d. um tvítugt getur þú orðið ríkur. Allt öðru gegnir er þú byrjar sparnað um fertugt, eða þegar þú ert kominn út úr mesta baslinu".
Vandinn er sjá að einstaklingar um tvítugt, eru yfirleitt ekkert að hugsa um sparnað. Unga fólkið er hundfúlt með allskonar gjöld sem tekin eru af, eins og lífeyrissjóðsgjöld og finnst þetta vera tapað fé. Ævin er framundan og allt sem þarf að gera kostar peninga, svo ekkert er eftir. Ég byrja að spara á morgun !!
Sparnaður er nauðsynlegur ekki aðeins fyrir einstaklingin heldur þjóðfélagið í heild. Ef enginn sparar hafa bankarnir ekkert til að lána.
Hver er lykillinn að sparnaði, byrja smátt, eitthvað sem enginn finnur fyrir. Hvað um 500 kall á dag. Svo það að byrja snemma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2013 | 21:51
Of mikið opinbert eftirlit ?
Í framhaldi af hruninu og skýrslu Alþingis, var auðvelt að auka opinbert eftirlit. Vandinn og hrunið var jú m.a. vegna skorts á eftirliti. Útrásin var stjórnlaus og eftirlitslaus.
Allt var þetta að vissu leyti satt og rétt. Rannsóknir sérstaks saksóknar hafa svo reglulega blásið eldi í þessar glæður. Gallinn á þessu öllu var hinsvegar sá að kerfið sem var svo eftirlitslaust hrundi, það þurfti ekki lengur að hafa eftirlit með því. Bankakerfið á Íslandi er nú aðeins lítið og sætt heimakerfi, í stað útblásinna alheims væntinga.
Hver var þá réttlætingin fyrir því að auka eftirlitið? Að hafa eftirlit með því að það yrði aldrei önnur útrás, og aldrei önnur innlend bankabóla !! Nýju bankarnir voru t.d. látnir sverja að fara ekki í útrás.
Þannig var aukið eftirlit byggt upp þegar ekki þurfti á því að halda, eða hvað? Þessi mynd er mögulega mjög einfölduð og stíliseruð, það þurfti sannarlega að bæta kerfið. Þörfin og peningarnir sem í þetta fara, verður þó að byggja á rökum skynsemi en ekki tilfinninga.
Ég held samt að öflugt eftirlit njóti enn mikils stuðnings þjóðarinnar. Sjokkið sem hrunið olli er alls ekki gleymt. Við ætlum ekki, að láta aftur fara svona með okkur, segja margir. Vextir af skuldum hrunsins eru að sliga ríkissjóð.
Sá sem talar fyrir minna eftirliti og meiri heilsugæslu er á hálum ís, jafnvel þó hann vanti peninga í gott málefni. "Helsti vinur útrásarvíkinganna", og fjáraflamaður fyrir sig og aðra, kastar steini úr glerhúsi, þegar hann vill minnka eftirlitið.
Hugmyndafræðilega verður það hreinlega að játast að Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu máli á milli tveggja elda. Það var farið illa með frelsið og alls ekki af ábyrgð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2013 | 11:30
Flóknara samfélag.
Eitt eru markmið og annað er raunveruleiki. Ríkisstjórnin hefur sett fram ýmis markmið, sum stefnumarkandi önnur um ákveðin úrlausnarefni. Þegar stjórnarandstaða setur fram slík markmið, vantar oft mikilvægar upplýsingar og útfærslur. Mjög eðlileg staða, það er framkvæmdavaldið sem hefur tök á því að hafa sérfræðinga í sinni þjónustu og þangað á stjórnarandstaðan ekki greiða leið. Upplýsingar og svör liggja ekki á lausu og flækjustigið hefur vaxið.
Þetta er í hnotskurn vandi núverandi ríkisstjórnar. Þau mörgu góðu mál, sem hún vill framkvæma, þarf að vinna og útfæra. Tengja lausnir við aðrar lausnir, halda öllum leiðum opnum til að fá fram vinnanlegar lausnir. Þetta ferli er í eðli sínu kaótiskt verður að vera það, og í reynd þarf að vera það. Þeir sem einhverra hluta vegna vilja setja fótinn fyrir slík áform, tala um glundroða og stjórnleysi.
Núverandi ríkisstjórn getur lært eina mikilvæga lexíu af fyrri ríkisstjórn. Sú stjórn var með of mörg stórmál undir. Hún var að berjast á alltof mörgum vígstöðvum, hún ögraði of mörgum, jafnvel þeim sem gátu kallast vinir hennar.
Stóra spurning núverandi ríkisstjórnar er, hvað er hægt að hafa mörg stórmál undir í einu? Hvað ræður íslensk stjórnsýsla við og stoðkerfi framkvæmdavaldsins. Mitt svar, færri mál en þú heldur og vilt. Það verður einfaldlega að forgangsraða og skilja hvað forgangsröðun þýðir. Hún þýðir nei við fjölmörgum málum, sem þá færast aftur um X mörg ár. Þessi raunveruleiki er erfiðasta verkefni stjórnmálanna. Krefst mikillar ögunar stórs hóp fólks, sem hefur 100 skoðanir og enn fleiri hagsmuni.
Fyrir forystumennina er stóra spurningin, hvort er betra tæki til árangurs, svipan eða rökræðan ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2013 | 09:29
Maðurinn á götunni og alheimspólitíkin.
Ég man vel eftir Vietnam stríðinu, sem var stöðugt fréttaefni um árabil. Um hvað snérist sú styrjöld, að stöðva framrás kommúnisma í heiminum? Þegar á reyndi þurfti nú ekki að drepa fólk þess vegna sá ismi, framdi sjálfsmorð.
Líbanon var land í stöðugum fréttum um árabil. Um hvað snérist sú styrjöld? Nöfn eins og Hisbolla, dundu í eyrum okkar. Reyndar nafn sem nú rís aftur upp í Sýrlandi.
Írak og átökin fyrir botni Persaflóa, hver kannast ekki við þau stríð. Sérstað þessara stríða er að þau voru meira og minna í beinni útsendingu. Tæknistríð, svona eins og tölvuleikir. Já og til hvers? Saddam var vondur kall, og fékk maklega málagjöld, en hefur betra tekið við. Svo virðist mér ekki vera.
Sýrland og borgarstyrjöldin þar. Um hvað er í reynd barist í þessu land, af hverju berjast þar bræður?
Boðskapur þessa pistils er, að þegar öllu er á botninn hvolft, vitum við ekkert um hvað raunverulega þessi átök hafa verið. Hvaða hagsmunir hafa keyrt þetta áfram, vopnaframleiðendur. Til hvers öll þessi voðaverk hafa verið framin. Getur maður sagst vera upplýstur maður þegar þessi mál eru rædd. Ég segi langt í frá, hula brjálsemi og lyga, umlykur alla þessa atburði.
Hvað skyldi maður hafa eytt löngum tíma í að hlusta á og lesa um þess atburði. Tíma sem betur hefði verið varið í annað !! Að ég tali nú ekki um sálartetrið, það væri dauður maður, sem hefur ekki orðið fyrir neikvæðum áhrifum af þessum ósköpum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2013 | 14:44
Um kjarasamninga.
Kjarasamningar hafa á liðnum árum þróast út í einhverskonar moð, þar sem allir bíða eftir öllum og inn í alla samninga þarf að koma pakki" frá ríkinu til að ná málum saman.
Pakkinn hvaðan kemur hann. Frá skattgreiðendum, það sem látið er í annan vasa launþega er tekið upp úr hinum.
Eðlilegt ferli kjaraviðræðna og það skynsamlega er að hinn almenni markaður, slái taktinn. Þar verða til verðmætin, ( hagvöxtur ) sem annaðhvort eru til skipta, eða ekki. Sú skipan mála að þessir aðilar, bíði eftir ríkinu, með betlistaf í hendi, er í hæsta máta óeðlilegt. Sú hætta er fyrir hendi að kjaramálin blandist þannig inn í pólitísk deilumál.
Það er staðreynd að ríki og sveitarfélög eru stærstu vinnuveitendur þessa lands. Ef kjarasamningar byrjuðu þar þá þýddu hærri laun hjá ríki -og sveitarfélögum, hækkun skatta eða nýjar álögur. Ekki væri það eðlilegur gangur.
Umræða um efnahagsmál er í dag það opin að allt sem þar skiptir máli er uppi á borði. Ríkisstjórnin hefur lagt sínar línur. Mikil þekking á efnahagsmálum er til staðar hjá atvinnulífi og launþegahreyfingu, sem hafa á að skipa færustu sérfræðingum. Þannig er fátt nýtt, sem raunveruleg áhrif hefur á kjarasamningana.
Kjarasamningar snúast líka um ábyrgð. Ef hún er ekki á réttum stað er illa af stað farið. Sé henni hent á milli aðila, eins og heitri kartöflu, er útkoman að allir eru ábyrðarlausir.
Undirliggjandi vandi dagsins í dag, er að lítið sem ekkert er til skipta, nema menn vilji semja um gerfi-krónur - verðbólgu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Jón Atli Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar