Deilan um Reykjavíkurflugvöll.


Það má segja um þetta mál, eins og mörg önnur, að ekki vantar umræðuna, skýrslur, kosningar og kannanir.
Ítarleg skýrsla unnin 2005 um þá kosti að flytja flugvöllinn,  skil ég þannig að besti kosturinn sé að hafa hann þar sem hann er með 2 flugbrautum.
Landsbyggðin vill hafa flugvöllinn þar sem hann er og vísar til hlutverks höfuðborgarinnar og mikilvægis sjúkraflugs.  Þröngir hagsmunir Reykjavíkur víki fyrir meiri hagmunum.
Rekstaraðilar segja að innanlandsflug leggist niður ef flugvöllurinn er fluttur. Skýrar getur það nú ekki orðið.
Á mæltu máli er Reykjavík og íbúar borgarinnar beðnir um að taka hagsmuni þjóðarinnar fram yfir sína.   Sá fórnarkostnaður er höfuðborgin færir í krónum og aurum liggur fyrir í grófum dráttum.  Borgin gæti sagt, allt í lagi flugvöllurinn verður, en þeir sem njóta verða að borga, ekki íbúar Reykjavíkur einir.   Ríkið f.h. fólksins ætti þá að borga, þessi kostnaður gæti verið hluti flugfarseðla í innanlandsflugi.
Hvað þá um hagnað Reykjavíkur af þessari starfsemi og því tengt. Örugglega einhvern en ég er viss um að í þessu bókhaldi, skiptir þetta ekki öllu máli.
Er nokkuð ósanngjarnt við þessa nálgun.  Í viðskiptum þætti þetta eðlilegt. Í öllum samanburði kosta, í þessu tilfelli samgöngum,  þarf að þekkja raunverulegan kostnað. Það er ekkert til sem heitir  „ free lunch „

Eru njósnir nauðsynlegar.


Það er mat helstu ríkja heims að njósnir séu nauðsynlegar og réttlætanlegar. Nýlegar uppljóstranir hafa sýnt okkur hvað þessar njósnir eru umfangsmiklar. Þessar njósnir eru ekki lengur spennandi sjónvarpsseríur eða spennubækur, heldur raunveruleiki sem er miklu nær okkur en við höldum. Þetta eru ekki, leynifundir í almenningsgörðum, heldur tæknivætt eftirlit, þar sem nýjustu og bestu tækni er notuð.  Ofurtölvur finna það og greina sem menn vilja vita.
Njósnir eru auðvitað ekkert nýtt, það er umfangið, viðhorfið til laga og réttar og siðferðis, sem hræðir.  Stjórnendur þessarar starfsemi eru hafnir yfir lög og rétt og varðir af stjórnmálamönnum, sem fólk hefur annars litið á sem heiðarlega. Toppurinn á þessari starfsemi hlýtur að vera Þjóðaröryggisráð USA, með sínar undirstofnanir.
Öll þessi starfsemi er auðvitað leyndó - þjóðarhagsmunir. Ef við þurfum að upplýsa um hvernig við vinnum, getum við ekki unnið.  Ófreskjan er sem sé góð ófreskja, sem vinnur fyrir fólkið, verndar það fyrir óvinum sínum- vondu köllunum.  Látið okkur í friði, þá verður allt gott.
Maður spyr sig hvað vald það er eiginlega sem getur tekið í taumana á þeirri ófreskju sem njósnirnar hafa skapað.  Fáeinar manneskjur hafa fórnað sér til að vekja okkur hin, hafa þannig kallað yfir sig óvild ófreskjunnar, sem blæs þeim burtu, með viðeigandi rökum.  Í Rússlandi hafa andófsmenn  ekki talið rétt fram til skatts.  Lexía sem Rússar lærðu væntanlega af Bandaríkjamönnum, varðandi Al Capone.
Í pólitík verður árangur Pírata ekki skýrður öðruvísi enn að almenningur sjái hættuna. Það virðist vera mikið ungt fólk. Þetta fólk Píratar eru að reyna að gera eitthvað. Hafi þau þökk fyrir sitt hugrekki og vinnu.  Skyldi gamla góða lýðræðið vera það vald, sem ófreskjan þarf að óttast mest !!

Karp þingmanna vandi Alþingis.


Lausn vandans er þá væntanlega að minnka karpið eða hætta því alveg !!  Hér er þó að fleiru að hyggja.  Í upphafi þings er lítið af málum fram komin.  Þau hafa tilhneigingu til að koma seint frá framkvæmdavaldinu, gerir það að verkum að allt er unnið í tímahraki og spreng.   Þingmenn hafa því alltof lítið að gera, langa tíma. Þennan kröftuga hóp vantar viðfangsefni.  Dægurmál eru því dregin í þingsal og slegið er upp málfundi, eða búnar til endalausar fyrirspurnir.  Þingmenn vilja vera í fjölmiðlum, og sá sem er þar mest, er mestur.  Fyrir fjölmiðla er þetta auðvelt efni og aðgengilegt, frekar enn það sé mikilvægt.
Í aðra röndin leiðir þetta hugann að því hvort þingmenn séu of margir, fyrir þá séu ekki næg verkefni allan þingtímann.  Fjöldi þeirra hafi ekki ákvarðast af verkefninu, heldur af pólitískum ástæðum og valdajafnvægi.  Efni í aðra umræðu.
Sé það reyndin að þingmenn hafi ekki nóg að gera, hluta þingtímans,  þarf að finna þeim verðug verkefni.  Það þætti ekki búmannlegt að vinnuhjúin væru á einhverju hljóðskrafi allan daginn og gerðu ekki handtak.
Ein hugmynd væri að þingmenn væru tímabundinn starfskraftur í stjórnsýslunni. Þetta er fólk á besta aldri og vel menntað. Slík vinna gæti einnig verið fræðandi og uppbyggileg.   Annað væri að þingmenn rannsökuðu sjálfir mál í stað þessa að kaupa þá vinnu dýrum dómi úti í bæ.
Þessar hugmyndir falla líka vel að öllu tali um hagræðingu, eftir höfðinu dansa limirnir.  Má ekki halda því fram með gildum rökum að þingmenn sem færu í vinnu hjá umboðsmanni skuldara yrðu betur umræðuhæfir um skuldavanda heimilanna enn aðrir.
Einhver kann að halda að þetta sé allt grín.  Það er það ekki, í staða þess sem hér er rætt, þenst starfsemi þingsins út og þörf á aðstoðarmönnum virðist endalaus. Þingið verður að ganga á undan með góðu fordæmi í sparnaði og aðhaldi.  Ef það gerir það ekki, hver þá.
Alþingi og þingmenn þurfa einnig að fara í fjölmiðlabindindi. Það sem þangað fer þarf að vera skipulagt og ábyrgt.  Krafa um gegnsæi, allt upp á borði, er góðra gjalda verð, en of mikið má af öllu gera.  Hver man ekki eftir þeim tíma, þegar öll mál í borgarstjórn Reykjavíkur voru í fjölmiðlum. Nánast allt í beinni og nánast óbærileg staða.  Ég þakka Hönnu Birnu Kristjánsdóttur það að mál voru tekin úr þessum farvegi og vinnufriður skapaðist.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB aðild


Vandræðaleg umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki er látin öðrum eftir. Í mínum huga er framkvæmd hennar og túlkun meira mál.  Í því sambandi er ekki nema von að málið vefjist fyrir ráðamönnum.
Vandi þjóðaratkvæðagreiðslna er að spurningar séu skýrar og að það sé helst hægt að svara þeim með já og nei. Að spurningar séu ekki þannig orðaðar að þær megi túlka á ólíka vegu. Að það sé vitað hvað á að gera við niðurstöðuna. Að málefnaleg kynning fari fram, þar sem hér er á ferðinni stórmál fyrir þjóðina. Umræðan hefur verið mikil að vöxtum, en ekki að sama skapi skýr fyrir alla.
Ég hef hér stillt upp nokkrum spurningum til gamans.
  • Ég vil strax slíta núverandi aðildarviðræðum, ( það er nefnilega ekki klárt hvort þeim hefur verið frestað eða slitið )
  • Ég vil klára núverandi aðildarviðræður, og ákveða svo næstu skref, ( sjá í pottinn )
  • Ég er mjög hlynntur aðild að ESB. ( Hvers vegna væri gaman að vita, með fylgispurningum )
  • Ég er andvígur aðild að ESB. Hvers vegna:  1. Afsal á fullveldi, 2. Þýðir endalok íslensks landbúnaðar, 3. Við missum yfirráð yfir auðlindum okkar.
  • Ég vil aðild að ESB, því þá eigum við kost á, traustri alþjóðlegri mynt.
Tökum einfalt dæmi um það hvort eftirfarandi spurning er já og nei spurning:
Á Ísland að ganga í ESB ?   Svar já eða nei,
  • Svar mitt er já ef við fáum góðan samning, annars nei,
  • Svar mitt er nei, af því að við höfum EES samninginn og hann nægir mér,
  • Svar mitt er já, því ég óttast að EES samningurinn líði undir lok.
Þegar maður horfir á þessa mynd kemur eftirfarandi upp í hugann:
  • Í rauninni er þetta ekki kosning um einfalda og skýra kosti. Þetta er frekar skoðanakönnun. Útfærslan gæti því verið vönduð og ítarleg skoðanakönnun. Slík könnun, gæfi miklu betri mynd af raunverulegum vilja þjóðarinnar í þessu máli. Ef það er þá raunverulega það sem menn vilja - að fá fram vilja þjóðarinnar.
  • Það á að gleyma öllum hugmyndum um þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnakosningum. ESB aðildar - kosning er stórmál og verður að standa ein og sér. Að hafa hana samhliða öðrum kosningum, þýðir að slík kosning skyggir á sveitastjórnarmál, sem er mjög óheppilegt,
  • Eðlilegast er að boða þessa kosningu, ef menn vilja kosningu strax í haust, eða í framhaldi af skýrslu um stöðu núverandi viðræðna. Fá þetta mál útaf borðinu. Mörg erfið mál bíða, því eru ákveðin skref nauðsynleg í þessu máli.
Ég skil hinsvegar vel að okkar nýju ráðherrar vilji hugsa þetta mál vel og vandlega. Á því verður að hafa fullan skilning, því ef niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, er eitthvað moð, er betur heima setið. Tilgangurinn er skýrari pólitískar línur en ekki áframhaldandi vandræðagangur.

Er raunverulegur gjaldeyrismarkaður á Íslandi?


Gengi krónunnar er hagstærð, sem hefur gífurleg áhrif á líf okkar í okkar litla hagkerfi. Gengið stýrir inn og útflutningsverði, verðlagi innfluttrar vöru og hvað fæst fyrir útflutning okkar og þá um leið afkomu útflutningsfyrirtækjanna.
Gengi erlendra mynta verður til á gjaldeyrismarkaði er það sem lesa má um þetta efni. Gjaldeyrismarkaði er stýrt af viðskiptabönkunum, og Seðlabankanum eftir atvikum.  Viðskiptabankarnir eru hér aðalleikendur en Seðlabankinn hefur komið inn á markaðinn tímabundið
Til einföldunar má segja að stýringin sé ekki sérstaklega flókin ef aðeins væri um að ræða vöruviðskiptin.  Vöruskiptajöfnuður segir okkur hvað við höfum, af eigin aflafé,  til að greiða annað í gjaldeyri. Í reynd er þessi mismunur alltof lítill. Ýmiskonar aðrar greiðslur sem þá flokkast undir þjónustujöfnuð eru hinsvegar að hafa mikil áhrif á gengið.  Kaup á nýju skipi, geta sett þennan jöfnuð allan á hliðina, svo grunnur er þessi markaður.
Ef spurt er hvað á gengi erlendra gjaldmiðla að vera á Íslandi í dag.  Þá getur sú spurning vafist fyrir „ kerfinu „  Mikilvægi svarsins er hinsvegar augljóst.  Sú staðreynd að Seðlabankinn er með tvöfalt gengi, annað á uppboðum sínum, ruglar og veikir hið opinberlega skráða gengi.  Eða er það raunveruleikinn að við verðum að vinna með mörg gengi, eitt í vöruskiptum og aðra skráningu í því sem kalla má „ sérstök viðskipti „
Fagleg vinnubrögð á gjaldeyrismarkaði eru eitthvað sem alla varðar. Þeir sem gæta almannahagsmuna þurfa að vera þarna á vaktinni, ekki síður en að t.d. fylgjast með vöruverði í búðum.

Hvað varð um hugmyndirnar um auknar tekur?

Niðurskurður og sparnaður eru töfraorðin í lausn á vanda ríkissjóðs.  AGS leggst á þessa sveif, ríkisstjórnin hefur sett upp sparnaðarhóp og umræða fjölmiðla um sparnað er fyrirferðarmikil.
Allir eru sammála um að það er nauðsynlegt að spara, en ekki hjá mér, ef vel á að vera þarf ég meiri peninga, segir kerfið.  Sparnaðurinn á að sjálfsögðu að gerast án þess að:
  • Þjónusta minnki,
  • Engar uppsagnir fólks.
Lykilorð  er kerfisbreyting.  Að kerfinu þurfi að breyta er stutt, erlendum samanburði.  Lítið er rætt um að við liðlega 300 þúsund manns, höfum og viljum hafa sama kerfi eins og milljóna þjóðfélög.  Er nú ekki kominn tími til að spyrja, hvaða kerfi höfum við efni á?  Miklar líkur eru á að okkur líki ekki svarið og þess vegna er þessi spurning ekki á dagskrá.
Sparnaðarumræðan hefur alveg yfirskyggt umræðuna um auknar tekjur.  Auknar tekjur og lægri skatta, svona til minnis.  Ég held að umræðan um auknar tekjur, sé og hafi verið góð, því þegar rykið sest er það eina varanlega lausnin á vandanum.
Virkja þarf kraft þjóðarinnar til að auka tekjur !   Er ekkert verið að gera á þessum vettvangi má spyrja.  Heilmikið og margt mjög áhugavert, hugsun okkar og áhersla þarf hinsvegar að vera þarna, framtak einstaklinga og samtaka þeirra.  Ríkið er ágætt en það eru einstaklingar sem munu skipta sköpum, varðandi meiri tekjur og lausn vandans.

Öll vandamálin í sumarfríi.


Eftir 15. Júlí lokar Ísland og opnar ekki aftur fyrr enn eftir verslunarmannahelgi. Ekkert gerist í þessum tíma, allir eru  í sumarfríi.  Það slökknar á viðskiptalífinu og pólitík er einnig í lágmarki.
Þetta mynstur er að verða skýrara með árunum, ekki ósvipað og í mörgum löndum Evrópu, því segja má að Evrópa loki í júlí, allir í sumarfríi.
Auðvitað er þetta ágætt, fólk þarf frí, og með þessu fyrirkomulagi, þarf enginn að vera að rembast á þessum tíma, það er einfaldlega frí.  Að allir séu í fríi á sama tíma, kann svo að skapa önnur „ vandamál „ eins og fyrir ferðaþjónustu, en þetta er einnig tími mikils álags á hana, ekki má forsóma blessaða ferðamennina.
Talandi um ferðamenn, þá var lengi talað um 1 milljón erlendra ferðamanna, sem kæmu til landsins.  Nú nefndi einhver snillingur töluna 3 milljónir, það væri hagkvæmur fjöldi.  Ég missti alvega af útleggingu á því í hverju hagkvæmnin lægi !
Það góða við þessa lokun í júlí, er að vandamálum stórfækkar. Blöð eru þunn og ræfilslega og aðrir fjölmiðlar hafa ekki úr miklum vandamálum að moða. Auðvitað þýða öll þessi ferðalög og hreyfing, fleiri slys, sem er auðvitað skelfilegt.
Svona upp úr miðjum ágúst, fer samfélagið að ná aftur takti.  „ Vandamálin", sem hafa verið í sumarfríi rísa upp, við fáum líf okkar til baka, þetta gamla góða, sem við þekkjum svo vel. 
Almættið,  hefur nefnilega komið því þannig fyrir, að því meira sem við tölum um skuldir og vandamál, því meira fáum við af þeim !

Orkuveita Reykjavíkur, fórnarlamb, neikvæðrar umræðu.

Síðast var það Hellisheiðarvirkjun.  Umræðan um þetta fyrirtæki sýnir betur en nokkuð að eigandi þess Reykjavíkurborg á að selja þetta fyrirtæki sem fyrst. Allt eða hluta.
Upp hefur risið á Íslandi markaður með orku, sem gerir það að verkum að Reykjavíkurborg, getur keypt sína orku á markaði og þarf ekki þess vegna að standa í orkurekstri.
Eini veiki hlekkurinn í þessum rökum er kaup á heitu vatni, sem borgin gæti tryggt sér með samningum við kaupanda Orkuveitunnar, sem er beggja hagur.
Eins og starfsemi Orkuveitunnar hefur þróast, er eignarhald borgarinnar á þessu fyrirtæki afar óheppilegt. Eignarhaldið er blátt áfram skaðlegt fyrirtækinu, stjórnun þess og rekstri.
Pólitískar deilur um reksturinn og neikvæð umræða er óbærilega fyrir stjórnendur þess og eiganda.  Umræðan er oftar en ekki persónuleg og rætin, og í reynd getur ekkert venjulegt fyrirtæki búið við slíkar kringumstæður.  Þetta er ekki umræða um opinberan rekstur eða einkarekstur, þetta er eitthvað allt annað.
Núverandi meirihluti í borginni sýndi dug og þor í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins, sem meta þarf að verðleikum. Nú þarf að taka næsta skref og klára málið.  Vilji eigandinn fara þessa leið eru kaupendur til staðar.

Ferðaþjónusta, tækifæri eða ógn?


  Mikill uppgangur hefur verið í ferðaþjónustu á Íslandi.  Í þessari grein eru margar góðar fréttir.  Fjölgun túrista að vetrarlagi, þ.e. lenging ferðamannatímans er það nýja og gleðilega. Þýðir einfaldlega betri nýtingu, fjárfestinga og mannafla.
Þessar góður fréttir, dofna svo allar, í öllum þeim vandamálum, sem við sjáum samfara fjölgun ferðamanna.  Allir vandamálafræðingar þjóðarinnar rísa upp og gera góðu fréttirnar að slæmum. Tökum dæmi:
  • Við erum mögulega að fá of marga ferðamenn,
  • Við erum ekki að fá rétta ferðamenn, við ættum að fá ríka ferðamenn, í stað bakpoka hópsins,
  • Svört starfsemi veður uppi,
  • Ferðamannastaðir spillast, með auknum ágangi,
  • Það er yfirfjárfesting í greininni, þannig að allir lepja dauðan úr skel,
  • Vondir menn hafa keypt ferðamannastaði, og rukka aðgang.
Allt satt og rétt og sannarlega eitthvað til að leysa.  Sumt mögulega „ lúxusvandamál „
Sérstakt gleðiefni við aukningu ferðamanna er áhrif þessarar starfsemi á landsbyggðina. Ferðamenn vilja skoða landið okkar, það skiljum við. Landsbyggðin bregst líka við af ótrúlegum dugnaði og útsjónarsemi. Það skilja allir að það verður að vera eitthvað fyrir ferðamenn að skoða og njóta. Mikil hugmyndaauðgi leysist út læðingi í þessu sambandi.  Þar sem atvinnukostir eru takmarkaðir, er ferðaiðnaður kærkomið innlegg.
Ég ætla mér ekki inn í umræðu um hálendið og átroðslu þekktra ferðamannastaða. Það er eitthvað sem leysist með auknu fjármagni, samvinnuverkefni, greinarinnar og almannavaldsins. Taka verður gjald af þeim sem sækja fjölmennustu staðina. Þeir sem njóta tekna af þessari starfsemi eiga að borga sinn hlut.

Að koma atvinnulífinu á fulla ferð.

Það er markmið nýrrar ríkisstjórnar að koma atvinnulífinu á fullt skrið. Þetta markmið og framkvæmd þess leysir fjölda vandamála okkar í einnig svipan. Jafnvel skuldavanda heimilanna.
Ríkisstjórnin ætti að vera í kjörstöðu til að vinna hér fljótt og vel.  Ekki fer heldur milli mála að almenn samstaða á að vera um þetta markmið. Kjarasamningar munu eflaust snúast um þetta atriði, enda væri þá verið að skipta stærri köku.
Hvernig á þetta að gerast:
  • Eðlilegt er að sjávarútvegurinn fari nú á fulla ferð í fjárfestingum. Það hlýtur að vera hluti af samvinnu stjórnvalda og greinarinnar um endurskoðun laga um fiskveiðistjórn,
  • Ferðaiðnaðurinn ætti að geta fjárfest umtalsvert á forsendum stækkandi markaðar. Bankakerfið á að vera vel í stakk búið til að fjármagna slíkar framkvæmdir.
  • Fasteignamarkaðurinn ætti einnig að eiga góða möguleika. Miklir fjármunir liggja illa nýttir hjá sveitarfélögum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sem lagðir voru í skipulag og uppbyggingu heilu hverfanna. Verðlagning lóða og eigna á þessum svæðum, þarf hinsvegar að fá að aðlagast markaðsaðstæðum. Æskilegt er að þessir fjármunir nýtist sem fyrst. Nauðsynlega vantar nýtt fjármögnunarkerfi íbúðarhúsnæðis, til að skapa festu og öryggi á þessum markaði.
Það eru til nægir peningar á Íslandi til fjárfestinga.  Ný hlutabréfa - og skuldabréfaútboð sýna þetta.  Stórir og öflugir sjóður hafa verið stofnaðir og hafa átt auðvelt með að ná í peninga.  Vandinn er sá að áhugasvið þessara aðila hefur um of mótast af „ þröngum sjónarmiðum „ eins og að einskorða sig við fasteinamarkaðinn, þó hann sé allra góðra gjalda verður.  Stöðugt ákall um erlenda fjárfestingu er ekki vegna þess að peninga vanti.  Við verðum sjálf að virkja okkar eigið hugvit og taka frumkvæði.  Útlendingar eru ekki endilega það sem við þurfum, heldur trú á okkur sjálf.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband