Fyrirtækin gera upp í erlendri mynt.


Langflest af stærstu fyrirtækjum landsins gera upp í erlendri mynt, þar af flest í evru. Fyrirtækin eru tæplega 300 talsins en velta þeirra er nærri fjórðungur af heildarveltu íslenskra fyrirtækja.

Fyrirtækjum sem gera upp í erlendri mynt hefur fjölgað hratt á undanförnum árum. Þau voru 97 talsins árið 2005 og fjölgaði mikið á árunum þar á eftir. Þau voru 287 á árinu 2011 en voru svo 272 talsins í lok árs 2012. Þau fyrirtæki sem gera upp í erlendri mynt eru innan við eitt prósent af heildarfjölda íslenskra fyrirtækja sem voru rúmlega 30 þúsund í lok árs 2012.

Í ljósi mikillar umræðu um framtíðargjaldmiðil okkar Íslendinga er fróðlegt að rýna í það hvaða fyrirtæki það eru sem gera upp í erlendri mynt. Í flestum tilfellum er um að ræða stærstu fyrirtæki landsins og nam velta þeirra á árinu 2012,  24,5% af heildarveltu íslenskra fyrirtækja. Um er að ræða öflug útflutningsfyrirtæki líkt og CCP, Eimskip, Actavis og einnig helstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Flest þessara fyrirtækja gera upp í evrum eða 127 talsins. Hvers vegna kjósa stærstu fyrirtæki landsins aðra gjaldmiðla en krónuna?

„Það er alveg ljóst að í þeim miklu sveiflum sem hafa verið á gengi krónunnar á undanförnum áratugum þá hefur það verið mikið farsælla fyrir fyrirtækin að gera upp í tekjumynt sinni. Það hefur færst mjög í aukana að fyrirtæki hafa verið að færa sig yfir í að gera upp í erlendri mynt,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Þorsteinn vill ekki meina að íslensk fyrirtæki séu búin að gefast upp á krónunni. „Ég myndi ekki horfa á þetta sem merki um það að fyrirtæki séu búin að gefa krónuna upp á bátinn. Það er einfaldlega skynsamlegri uppgjörsaðferð að gera upp í sinni helstu tekjumynt.“
Hvað getur Þorsteinn sagt annað. Raunveruleikinn er að þegar tölur í krónum er bornar saman milli ára eru skekkjuáhrif verðbólgunnar mikil.  Þeim mun lengra tímabil þeim mun meiri.  Til að þessi samanburður segir einhverja sögu, þarf að færa þessar talnaraðir yfir í raunkrónur með einhverri vísitölu. Krónan ( okkar ) flækir því allt og ekki síst fyrir útlendinga.  Að segja þeim svo að auki að hluti talnanna (langtímalánin ) sé í raunkrónum, einfaldar ekki málin.

 


Að hafa einkaleyfi á raunveruleikanum.


Hefur ríkisstjórnin gert það sem hún ætlaði að gera.  Já segir ríkisstjórnin. Stjórnarandstaðan segir að hún hafi lítið gert eða nánast ekkert. Sjálfsagt er raunveruleikinn þarna mitt á milli.
Fyrir ekki innvígða er vonlaust að fella þarna dóma, eins og fyrri daginn verður þú að trúa því sem þú vilt,  eða frómir menn segja, menn sem þú treystir.
Í þessum flókna heimi fullyrðinga og deilna, verður til ný stétt manna, álitsgjafar, eða fréttaskýrendur.  Sumir þessara manna vinna nú þegar á fjölmiðlunum, en aðrir eru tilkvaddir eftir þörfum.
Til þessa fólks er leitað í tíma og ótíma til að túlka fréttaflóruna og segja okkur hinum hver raunveruleikinn er.  Draga verður þá ályktun að fréttaflóran samanstandi a.m.k. af eftirfarandi þáttum:
• Áróðri,
• Sérhagsmunum, vísvitandi fölsunum og rangindum,
• Bulli og útúrsnúningum,
• Raunveruleikanum.
Í lok umræðu álitsgjafanna liggur raunveruleikinn fyrir fagur og tær, þetta var þá það sem var mergurinn málsins.
Nú, eins og fyrr, hefur aldrei verið meiri þörf á óhlutdrægum álitsgjöfum.  Sá er galli á þessu með álitsgjafana að óðara en álitsgjafi er orðinn góður álitsgjafi, er hann sjanghæjaður af einhverjum stjórnmálaflokknum, og að manni gæti læðst sá grunur að þetta sé örugg leið í stjórnmál.  Leið í stjórnmál sem stenst allan samanburð við tengsl við stórt og gott íþróttafélag, eða að hafa unnið á fjölmiðli.
Ég hef tekið eftir því að stjórnmálamönnum er illa við álitsgjafa, sem hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum og tala illa um þá. Það er auðvitað þess vegna sem álitsgjafar verða stjórnmálamenn, málið leyst.
Óhlutdrægur álitsgjafi, sem segir skoðun sína umbúðalaust er hinsvegar vandfundinn.  Ég bið lesendur þessa pistils, að telja þá upp í huganum. Trúa mín er sú að þeim dugi önnur höndin !!

Að koma atvinnulífinu á fulla ferð.


Það er markmið nýrrar ríkisstjórnar að koma atvinnulífinu á fullt skrið. Þetta markmið og framkvæmd þess leysir fjölda vandamála okkar í einnig svipan. Jafnvel skuldavanda heimilanna. Að þetta hafi ekki gerst eru vonbrigði s.l. mánaða.
Ríkisstjórnin ætti að vera í kjörstöðu til að vinna hér fljótt og vel.  Ekki fer heldur milli mála að almenn samstaða á að vera um þetta markmið. Vonbrigðin verða því meiri, þar sem „ góðir menn „ skilja ekki þá tregðu sem er í kerfinu.  Kjarasamningar snérust um þetta atriði, enda væri þá verið að skipta stærri köku.
Hvernig á ( átti )  þetta að gerast:
• Eðlilegt er að sjávarútvegurinn fari nú á fulla ferð í fjárfestingum. Það hlýtur að vera hluti af samvinnu stjórnvalda og greinarinnar um endurskoðun laga um fiskveiðistjórn,
• Ferðaiðnaðurinn ætti að geta fjárfest umtalsvert á forsendum stækkandi markaðar. Bankakerfið á að vera vel í stakk búið til að fjármagna slíkar framkvæmdir.
• Fasteignamarkaðurinn ætti einnig að eiga góða möguleika. Miklir fjármunir liggja illa nýttir hjá sveitarfélögum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sem lagðir voru í skipulag og uppbyggingu heilu hverfanna. Verðlagning lóða og eigna á þessum svæðum, þarf hinsvegar að fá að aðlagast markaðsaðstæðum. Æskilegt er að þessir fjármunir nýtist sem fyrst. Nauðsynlega vantar nýtt fjármögnunarkerfi íbúðarhúsnæðis, til að skapa festu og öryggi á þessum markaði.


Það eru til nægir peningar á Íslandi til fjárfestinga.  Ný hlutabréfa – og skuldabréfaútboð sýna þetta.  Stórir og öflugir sjóður hafa verið stofnaðir og hafa átt auðvelt með að ná í peninga.  Vandinn er sá að áhugasvið þessara aðila hefur um of mótast af „ þröngum sjónarmiðum „ eins og að einskorða sig við fasteinamarkaðinn, þó hann sé allra góðra gjalda verður.  Stöðugt ákall um erlenda fjárfestingu er ekki vegna þess að peninga vanti.  Ef við viljum ekki hætta okkar peningum, hvernig eiga þá aðrir að gera það?.  Við verðum sjálf að virkja okkar eigið hugvit og taka frumkvæði.  Útlendingar eru ekki endilega það sem við þurfum, heldur trú á okkur sjálf.  Góðu fréttirnar eru að gróska í nýjum hugmyndum er mikil. Samt er það svo að þessir aðilar hafa það á tilfinningunni að þeir labbi með lóð á löppunum.   Er uppbyggingin fyrst og fremst, andlegt vandamál ?


Að segja eitt og gera annað.


Þeir sem rýna í markaðsrannsóknir og kauphegðun fólks sjá ýmislegt.
• Neytandi segir í markaðskönnun að hann sé mjög áhugasamur um hollustu og gott mataræði, en kaupir svo ekki slíkar vörur. Neytandinn segir því eitt en gerir annað,
• Framleiðendir þekkja það vel að kannanir, sem byggja á samtölum við fólk geta verið mjög misvísandi. Nauðsynlegt er að þekkja raunverulega sölu ef fá á rétt mynd,
• Svör neytenda mótast því oft af því sem þeir halda að  „ passi „ frekar en þeirra eigin háttsemi.
Hvað skyldi þetta þíða fyrir kannanir um stjórnmál. Margir eru uppteknir af því sem þeir vilja ekki, fjórflokkurinn er ónýtur, ég vil eitthvað nýtt enn hvað?
Einhvernvegin datt mér þetta í hug úr markaðsfræðinni, þegar spiluð voru samtöl við þrjá eða fjóra, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.  Þjóðaratkvæðagreiðsla minnsta mál í kosningabarátunni, nú allt grafið og gleymt.  Að skipta um skoðun, breyttar forsendur,  auðvitað, en að þeir hefðu allir skipt um skoðun á sama tíma, var sérstök tilviljun og þó.  „ greate minds think alike „
Markaðsfræðin ganga út á það m.a. að bjóða markaðnum það sem hann vill kaupa. Neytandinn er kóngurinn og með budduna.  Í stjórnmálum virðast gilda önnur lögmál, 80% þjóðarinnar vill klára samninga við ESB, nei, nei segja stjórnarflokkarnir við fólkið, þetta er alls ekki það sem þið þurfið. Það sem þið viljið eru svik við ESB  !!
Jæja það þarf að hafa eitthvað til að tala um, því þá ekki þetta. Skemmtanagildið er ótvírætt.

Slit á viðræðum við ESB.


Því er haldið fram að slit séu m.a. nauðsynleg því annað sé ekki heiðarlegt gangvart ESB.
Það er talað þannig  eins og ESB sé illa upplýst um stöðu mála á Íslandi. Þvílík vitleysa.  ESB hefur m.a. haft hér skrifstofu um árabil og veit allt um stöðuna hér. Reynsla þeirra af samningaviðræðum við aðrar ESB þjóðir hefur líka kennt þeim að fylgi við aðild hefur sveiflast mikið.  Flest sem er að gerast hér er troðin slóð fyrir bandalagið.  Það væri því jafn heiðarlegt af íslenskum stjórnvöldum  að spyrja ESB, hvor þetta sé eitthvað mál fyrir þá.
Umræðan um fullveldisframsalið er einnig vel þekkt meðal allra ESB þjóða.  Þær hafa allar hver og ein gengið í gegnum þessa umræðu.  Fyrir 28 þjóðir bandalagsins hefur þessi spurning verið uppi og svar þeirra felst í aðild þeirra. Hér heima er þetta dæmigerður hræðsluáróður.  Hvar skyldi fullveldi okkar standa, ef ESB lokaði öllum mörkuðum okkar í Evrópu eða beitti sér gegn okkur með öðrum hætti.

Þau aumu rök að þjóðin hafi eitthvað verið að tjá sig um ESB í síðustu Alþingiskosningum stenst ekki skoðun.  Hún vildi losa sig við „ dauða „ ríkisstjórn og fá réttlæti á skuldamálum heimilanna. Hún kaus ekki um ESB.
Sú staðreynd er ljós að meirihluti þjóðarinnar vill klárar núverandi aðildarferli. Það þýðir ekki það sama og að aðild væri svo samþykkt í framhaldinu, verður sannast að segja að teljast ólíklegt
Við hvað eru stjórnarflokkarnir hræddir ?   Hvers vegna vilja þeir ekki standa við fyrri loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu?  Svarið er einfalt.  Eigendur Íslands hafa kippt í spottana, við viljum fá málið útaf borðinu, þetta kjaftæði allt truflar okkur.


Eru njósnir nauðsynlegar?


Háttsemi NSA í Bandaríkjunum hefur farið fyrir brjóstið á mörgum ráðamönnum heims.  Hleranir einkasíma ráðamanna eins og t.d. Angelu Merkel kanslara Þýskalands, sýna viðhorf sem rækilega hefur farið úr böndum.
Það sem vekur furður er hinsvegar það að ráðamenn heimsins verja njósnir og virðast telja að hver sú þjóð sem tekur sig alvarlega, þurfi að stunda slíka starfsemi.
Uppljóstranir um NSA sýna, að takmarka þessa starfsemi er ekki auðvelt. Sagt er frá því  að NSA ráði yfir tæknibúnaði að það hafa leitt stofnunina í ógöngur. Þó að eitthvað sé hægt eigi ekki endilega að nota það.  Stóra spurningin er hvenær veit njósnastofnun nóg.  Leiða má að því líkur að svarið sé aldrei.  Hlutverk njósnastofnana á m.a. að vera fyrirbyggjandi starfsemi. Þegar stórþjóðir eiga í hlut hlýtur það starf að vera óendanlegt og spannar allan heiminn.  Það væri ósanngjarnt að ræða aðeins um NSA, aðrir í njósnbransanum eru ekki hótinni betri.  Munurinn er aðeins sá að NSA er í sviðsljósinu
Vandi njósnanna er ekki tæknin, heldur mennirnir sem stýra þessari tækni, og mikil völd þeirra. Valdmörk þessara aðila eru þó óljós og þeir virðast eiga auðveldan leika að réttlæta gerðir sínar.  Nýjustu fréttir af meðferð fanga og yfirheyrslutækni sýnir okkur að til að reyna að fá fram upplýsingar er ekkert heilagt.  Hættan er að þetta sé stjórnlaus heimur og mannfjandsamlegur.

Aukið skrifræði í öllum rekstri.



Þeir sem eru í rekstri kvarta sáran undan auknu skrifræði.  Skrifræði í þeirri mynd að stöðugt þarf að gefa allskonar upplýsingar til opinberra- eða hálfopinberra aðila.  Þessi skjalagerð hefur í gegnum árin orðið sífellt umfangsmeiri og til að hafa þetta í lagi, krefjist þetta aukinnar vinnu eða jafnvel nýrra starfsmanna. Mönnum svíður það á erfiðum tímum að eyða tíma og fjármunum með þessum hætti.  Sé þetta pappírsflóð ekki í lagi, stendur ekki á hótunum eftirlitsaðila.  Eftirlið þarf jú að hafa tæki til að kúska liðið.
Reyndar er þetta ekki bundið við Ísland, fyrirtæki í Evrópu kvarta hástöfum yfir þessu sama.
Aðilum í rekstri gremst þessi þróun, sem læðist inn í þeirra tilveru og daglegt amstur.  Rekstraraðilar sjá fyrir sér her manns, hið opinbera, sem sífellt setur rekstrinum skorður, og er oftar en ekki réttlætt með alþjóðlegum samningum. Kostnaður þess vegna á möglunarlaust að berast af rekstraraðilum.  Má sem lítið dæmi taka,  greiðslur starfsmanna í lífeyrissjóði, sem geta verið 20 talsins um allt land. Gera þarf skilagreinar og senda greiðslur í allar áttir.
Rekstaraðilar segja einfaldlega, stjórnvaldið ber enga virðingu fyrir okkur, þeim fjármunum og vinnu sem við hættum eða leggjum til rekstrarins. Það virðist ekki vera inn í myndinni að greitt sér fyrir þessa vinnu.  Það má jafnvel ganga svo langt að segja að litið sé á aðilar í rekstri sem hálfgerða glæpona. Þetta viðhorf bergmálar svo út í samfélagið og hefur áhrif á almenningsálitið.

Norður - Íshafsráðið, allir vilja vera með.


Ágætu lesendur.  Ég mun hér á blogginu mínu birta í nokkrum færslum skrif mín um málefni norðurslóða.

Miklar væntingar okkar íslendinga eru olíugróða eru alveg ótímabærar og hættulegar.  Hættulegar í þeim skilningi, að þær senda út röng skilaboð t.d. geta þær leitt til ótímabærra fjárfestinga og óskynsamlegrar samkeppni. Í þessari grein minni mun ég fjalla um mína sýn á þau skref sem þarf að taka, sérstaklega á vettvangi Norður-Íshafsráðsins , Dreka - svæðinu og uppbyggingu á Íslandi varðandi auðlindanýtingu á norðurslóðum.  Ég hef lengi fylgst með þessum málum og komið að þeim frá ýmsum hliðum.

Norður - Íshafsráðið ( NÍ ) mun gegna lykil hlutverki í allri uppbyggingu á norður svæðinu. Það sýndi mikla framsýni að byggja upp þessi samtök. Í þeim eiga aðeins að vera þær þjóðir, sem hafa beinna hagsmuna að gæta á svæðinu.  Nú strax vilja utanaðkomandi  þjóðir tryggja sér aðgang að ráðinu, en gegn því þarf að standa af mikilli festu.
Þó umræða um olíu og gas sé fyrirferðarmikil, eru á svæðinu margháttaðar aðrar þekktar auðlindir, og jafnframt margt annað lítt- eða óþekkt.  Reynslan segir okkur að við þekkjum ekki raunverulegt framtíðar verðmæti þessa svæðis. Olíu - og gas veiran heltekur okkur nú um stundir.
Samvinna þjóða innan NÍ er að mótast.  Augljós vettvangur eru umhverfis og öryggismál.  Ýmis þjóðréttarleg mál og staða þessa svæðis eru annar mikilvægur vettvangur.  Ekki minna mál er samstaða og samvinna hópsins, fylgir hugur máli eða splundrast allt þegar mammon sýnir sig.
Límingin í þessum samtökum er að þjóðir svæðisins glíma allar við sömu vandamál. Þær kunna að hafa ólíka sýn á þessi vandamál en þau eru þarna öll.  Samvinna þeirra virðist því augljós.  Vandinn er hinsvegar sá að þessar þjóðir, tengjast mörgum blokkum og hagsmunaöflum, sem munu sýna sig þegar fram líða stundir.  Þessi öfl hafa hag af því að splundra samstöðunni. Þau þrýsta á veika bletti, þjórembunnar og sérhagsmuna, af hverju samvinnu, deila einhverju með öðrum, sitjum að okkar og látum aðra sigla sinn sjó.
Það mun taka 20-40 ár að ná tökum á þeim fjölmörgu verkefnum sem snúa að NÍ og vinnslu auðlinda á svæðinu. Mikið glapræði er að flýta sér um of, og að þjóðríkin „ þjófstarti „.  Lykilatriði er að allir sannfærist um að samvinna, er besta leiðin fyrir alla.  Hættan liggur hinsvegar í því að þjóðríkin líti þröngt á sína hagsmuni, þetta eru okkar auðlindir og við ráðum hvað við gerum. Máttur samstöðunnar er hinsvegar sá að þau hagsmunaöfl, sem sækjast eftir nýtingu auðlindanna eru nær alltaf, sterkari en þjóðríkin, sérílagi þau smærri.  Fagurgali og gylliboð þessara aðila er erfitt að standast „ come and play  with me „  Séð  úr fjarlægð er Grænland á þessari leið og reyndar gott dæmi um þau sjónarmið sem ég tala fyrir.

Framhald...


Úr safni klækjasmiðjunnar.


Í verkfærakistu stjórnmálanna eru ýmis vopn að finna.  Eitt þeirra er að finna sameiginlegan óvin.  Aðferðin gengur út á að beina kastljósi að þessum óvini í stað þess að því sé beint að þér. Er þessi aðferð notuð í Íslandi, sannarlega.  Tökum dæmi:
  • 30 útrásarvíkingar voru valdir að hruninu. Í Danmörk voru þeir 17, sama aðferð notuð,
  • Hrunið var á vakt Sjálfstæðisflokksins, þetta var innlendur vandi og honum að kenna. Í hruninu var Sjálfstæðisflokkur í samsteypustjórn með Samfylkingunni og hrunið var sannarlega alþjóðlegt fyrirbrigði,
  • Legugjöld á sjúkrastofnunum ( 200 m kr ) Þetta er skelfilegt og verður að afnema. Niðurstaða, þegar tíminn er réttur mun stjórnmálamenn afturkalla þennan skatt til að sýna að þeir taka mark á gagnrýni. Þessi skattur hefur í reynd aldrei skipt neinu máli í heildarmyndinni, er góð skiptimynt,
  • Snjóhengjan voðalega, gjaldeyrishöft, allt illt kemur frá þessu fyrirbrigðum,
  • Vogunarsjóðir, afætusjóðir, vondir menn sem alveg er réttlætanlegt að taka af peninga, svo við þurfum ekki að bora sjálf.
Annað handhægt verkfræi er góði kallinn og vondi kallinn.  Vondi kallinn er sá með slæmu fréttirnar og hann gengur hart að þér.   Sá sem er tekinn taki, reynir að sannfæra vonda kallinn um sakleysi sitt, en er hræddur og óöruggur.   Þá kemur góði karlinn og segir það er farið illa með þig vinur, ég þekki vonda kallinn og ég skal hjálpa þér. Þú verður hinsvegar að vinna með mér.  Það þar varla að taka það fram að vondi- og góði karlinn vinna saman.  Aðferðafræði mikið notuð.
Næst þegar eitthvað gerist, eða fréttir koma fram mátið það við verkfæri klækjasmiðjunnar !!

Hvað segir presturinn okkar.


Hann hélt fyrsta flokks erindi fyrir hóp skoðanabræðra. Það er erfitt hjá mörgum, sagði hann.  Margir koma til prestsins síns í vandræðum sínum. Sú setning sem prestar heyra oftast þessa dagana er, „ ég get ekki meir".
Margir eru komnir að þolmörkum, eru búnir að þreyja þorrann og góuna lengi í von um að eitthvað batni.  Kirkjan er ákveðin barómeter á þetta ásamt félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Íslendingar eru almennt dugnaðarfólk, fólk hefur reynt allt áður enn það gefst upp. Fólk í vanda grípur hvert hálmstrá hverjar vonarglætu. Vonin er það haldreipi sem við höldum hvað fastast í.  Vonin er þess vegna voldugt tæki, sem lyftir og eflir, en um leið vandasamt tæki, reynist þær falsvonir, eru sáryndin mikil, og ítrekaðar falsvonir, drepa og lama.
Ný ríkisstjórn kom inn á sviðið hlaðin væntingum. Fólk kaus breytingar.  Hver getur ekki tekið undir:
  • Lægri skatta,
  • Aukin atvinnu, koma efnahagslífinu á skrið,
  • Lækkun skulda.
Þolinmæði fólks er hinsvegar lítil. Flestir varasjóðir eru tæmdir, það vill sjá breytingarnar sem lofað var. Þess vegna er ekki vanþörf á því að prestar landsins, leggist nú á sveif með ríkisstjórninni og fólkinu og biðji almættið, að gera sitt til að úr rakni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Atli Kristjánsson

Höfundur

Jón Atli Kristjánsson
Jón Atli Kristjánsson
Höfundur er menntaður hagfræðingur, starfandi rekstarráðgjafi, uppalinn á Akureyri með sterkar rætur í Kópavogi.  Íþróttamaður og mikill áhugamaður um þjóðfélagsmál. Kvæntur og  faðir 2ja uppkominna barna.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Capture Orka
  • Capture Orka
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • Lítil og stór fyrirtæki
  • mynd

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband